Saturday, August 26, 2006

Gestir

Mikið verður nú gaman hjá mér í næstu viku, þá koma nefnilega mamma og Elfa systir hingað suður, á mánudaginn nánar tiltekið og þær ætla að gista hér í 2 nætur. Ekki löng heimsókn en alltaf gaman að fá þær. Ég held að þetta sé í fyrsta skipti sem mamma gistir hjá mér, enda kannski ekkert gaman að fá ekki að sofa nema til 7 þegar maður er í "fríi".

Tuesday, August 22, 2006

Haust

Ætli það sé strax komið haust? Það er svo haustlegt úti, svo heyri ég vindinn væla þarna fyrir utan gluggann hjá mér og fæ bara hálfgerðan hroll. Ég vona að þetta sé ekki komið til að vera. Annars veit maður aldrei. Samt hlakka ég nú líka til vetrarins, fá smá snjó. Alltaf gaman að fá hann, eruð þið ekki sammála?

Annars er nú ekki mikið að gerast hjá okkur, allt er að komast í fastar skorður fyrir veturinn. Lilja Rós er byrjuð á "stóru" deildinni á leikskólanum og líkar bara vel. Henni finnst hún orðin mjög fullorðin og styttist alltaf í það að hún verði kona, eins og hún segir. Það er nefnilega svo margt sem hún getur gert þegar hún verður kona, þá ætlar hún að skipta á bróður sínum, og þá getur hún matað hann eins og ég geri. (Ég vona nú samt að hann verði nú hættur á bleiu þá og farin að geta borðað sjálfur).
Jóhann er búin að vera hjá dagmömmunni í rúmlega viku núna og það gengur bara mjög vel. Varla hægt að segja að 9 mánaða barni líki vel einhversstaðar, ætli sé ekki réttara að segja að honum virðist líða vel þar.

En ætli sé ekki best að fara aftur í lærdóminn og vona að sólin sé ekki langt í burtu.

Thursday, August 17, 2006

Ennþá lifandi

Já gott fólk ég er enná lífi. (ef einhver var farin að sakna mín)
Ég hef bara verið svo löt undanfarna daga, ég get víst ekki afsakað mig með að ég hafi mikið að gera því mér finnst ég ekki hafa neitt að gera. Ég er helst upptekin þessa dagana við að sitja úti á svölum og reikna eða prjóna.
Er nefnilega að nota garnafganga og prjóna trefil handa dúkkunni hennar Lilju Rósar, ekki mjög flókið það veit ég vel en ég er þó að prjóna.
Síðasti tíminn í stærðfræðinni er svo á morgun og ég verð nú að viðurkenna að ég verð alltaf meira og meira undrandi hvað ég á að kunna mikið í stærðfræði. Ég verð sko greinilega að æfa mig í vetur.
Svo byrjar reikningshaldið á laugardaginn og stendur yfir í aðrar tvær vikur. Bara gaman.

Og svo ég vaði nú úr einu í annað þá var ég að horfa á Rockstar Supernova, úrslit kosninga þessarar viku (á Skjá 1 +) og mikið svakalega er hann Magni að standa sig vel. Fannst Starman flott hjá honum og Creep líka mjög flott.
Verst að þátturinn næsta þriðjudag hefst ekki fyrr en kl.2, honum var seinkað.
En ég hef ákveðið að vakna bara 15 mínútum fyrr en venjulega næsta miðvikudagsmorgun og kjósa hann á netinu. Maður nær því nefnilega ef maður vaknar bara aðeins fyrr en venjulega. Vildi bara benda ykkur á það.

Ég kveð í bili og óska hér með þeim fjölskyldumeðlimum sem verða á Kirkjubæjarklaustri góðrar skemmtunar um helgina. Því miður þá kemst ég ekki í þetta skiptið, grát.......grát.

Friday, August 11, 2006

Veldi, rætur, lógaritmar, mengi......................

Jæja, nú er maður bara byrjaður að reikna, og það á fullu get ég sagt ykkur. Byrjaði á stærðfræðinámskeiði síðasta þriðjudag bæði kvölds og morgna. Þetta er mjög gaman en mikið helv........... er maður ryðgaður, svona fyrir utan það að ég hef aldrei heyrt um helmingin af því sem við eigum að kunna.
Það er ein vika eftir af þessu og þá tekur strax við annað námskeið sem er í reikningshaldi. Ég vil nú vera vel undirbúin fyrir 4.september takk fyrir takk.

Annars hef ég nú ekki meira að segja í bili, allar mínar hugsanir snúast um stærðfræði þessa dagana þannig að ég held að ég sé ekkert skemmtileg þessa daga.

Eigið góða helgi öllsömul.

Monday, August 07, 2006

Ein ég sit og pús(s)la......................

Jæja nú ætla ég að taka sjálfa mig í gegn og taka fyrir sjónvarpsgláp og tölvuhangs á kvöldin, svona fyrir utan einn og einn þátt og smá blogg.
Ég keypti mér púsluspil um daginn og nú ætla ég að einbeita mér að því og eins var ég voða dugleg í krosssaumnum á Egilsstöðum (ef þið trúið mér ekki þá getið þið bara hringt í mömmu) og ætla að reyna að halda honum áfram.
Það sló mig fyrr í sumar að ég var að fylgjast með einum, stundum tveimur og stundum þremur þáttum á kvöldi, mátti ekki missa af neinu. Þetta er auðvitað ekki eðlilegt og svo hékk maður í tölvunni þegar enginn þáttur var. Fyrr má nú vera letin.
Annars er allt gott af okkur að frétta, komum suður í gærkvöldi. Allir ánægðir en þreyttir eftir 10 tíma ferðalag.
Svo byrjar vinna hjá Tomma á morgun og leikskóli hjá Lilju Rós og svo er ótrúlega stutt í að Jóhann byrji hjá dagmömmu. Þetta er allt að vera eðlilegt hjá manni aftur.