Saturday, December 29, 2007

Ég er ennþá fyrir austan, á Eyjólfsstöðum nánar tiltekið í góðu yfirlæti.
Hér er góður matur, gott jólaöl, og það sem skiptir mestu máli er að börnin una sér vel.
Tommi kom að kvöldi 22.des og fór aftur að morgni 26.des.
Á gamlárskvöld koma svo Elfa og fjölskylda hingað til okkar og við ætlum öll að borða saman og hafa það gaman.
Ég er orðin enn ákveðnari í því að þegar námið hjá mér er búið þá langar mig að flytja út á land, og vonandi taka allir vel í það í fjölskyldunni, þó ég efist nú reyndar um það ;)

Ég hef ennþá ekki ákveðið hvenær ég fer aftur suður eftir áramótin, og ég finn fyrir örlítilli hræðslu hjá Álfheiði og fjölskyldu um að ég verði hér að eilífu.

Ef ég blogga ekkert fyrir áramótin þá óska ég öllum gleðilegs nýs árs :)

Wednesday, December 19, 2007

Jólin, jólin, jólin koma brátt

ÉG ER KOMIN Í JÓLAFRÍ :)

Fer austur með börnin á morgun, og mun örugglega ekki blogga fyrr en eftir áramót.

Óska öllum sem þetta lesa gleðilegra jóla og vona að allir hafi það gott yfir hátíðirnar.


Kveðja,
Jóla - Védís

Saturday, December 15, 2007

Ný útgáfa

Ég er á hlöðunni að læra en ég bara varð að setja þetta hér inn.
Lilja Rós var að syngja fyrir mig í gær og svona hljómaði það:

Bráðum koma blessuð jólin
börnin fara að hlakka til.
Allir fá þá eitthvað fallegt,
í það minnsta kerti og SPIK
Það er ekki nokkur leið að fá hana til að viðurkenna það að það eigi að vera spil.
Svona syngjum við þetta á leikskólanum, var svarið sem ég fékk.

Friday, December 14, 2007

Fínn dagur í dag

Þetta er búin að vera fínn dagur í dag, þrátt fyrir rokið og rigninguna sem kom aðeins inn í stofu til mín.
- Ég fékk fyrstu einkunnina mína í dag og er þokkalega ánægð með hana.
- Ég tók próf númer tvö í dag og það gekk ágætlega held ég.
- Í morgun "fauk" bíll á minn bíl, (fauk er innan gæsalappa því þetta var svo lítið tjón) alltaf gaman að því þegar maður þarf að fara að standa í þessu tryggingarveseni sem svona fylgir.

Nú eru bara 6 dagar þangað til ég og krakkarnir fljúgum austur og við hlökkum bara til, og bara 5 dagar þangað til ég er komin í jólafrí til 7.janúar.

Sunday, December 09, 2007

Í gær...

- tók ég próf í International Business
- fór ég með börnin í jólaklippingu
- keypti ég jólagjafir handa börnunum mínum
- fór ég á málverkasýningu hjá vinkonu minni, mikið voru það fallegar myndir
- fór ég á jólahlaðborð á Hótel Loftleiðum, rosalega góður matur og góð þjónusta
- fór ég að sofa fyrir miðnætti barnlaus og svaf til rúmlega átta í morgun :)

Í dag ætla ég að gera nákvæmlega ekkert sem tengist skólanum, bara þvo þvott, fara og versla (ekki veitir af því ég er núna að drekka kaffi með mjólk sem hleypur), og kannski vera örlítið meiri húsmóðir en ég er búin að vera í tæpar 2 vikur.

Saturday, December 08, 2007

Próf á eftir

Fyrsta prófið er eftir rúman klukkutíma og ég er svo stressuð akkúrat núna að ég gæti gubbað.
Alveg ótrúlegt hvað maður lætur þetta hafa áhrif á sig, ekki eins og himin og jörð farist þó fall verði raunin, annað eins hefur nú gerst.

En vonandi gengur þetta ágætlega og vonandi held ég öllu niðri :)

Saturday, December 01, 2007

Desember genginn í garð

Núna er ég búin að kaupa allar jólagjafir fyrir utan tvær sem verða keyptar á EGS og svo á ég eftir að finna gjafir handa börnunum mínum. Jólakortin eru komin í hús frá Hans Petersen og ég get sagt ykkur að það var lööööng leið fyrir blessuð kortin. Eitthvað af skrauti er komið upp og þrjú dagatöl fyrir börnin, ekki má nú minna vera.
Við Lilja Rós erum búnar að vera svakalega duglegar og föndra yfir 20 jólakort sem hún ætlar að setja í hólfin hjá þeim krökkum sem eru með henni á deild á leikskólanum, þetta er gert að hennar eigin ósk. Búið er að skreyta slatta af piparkökum bæði í Garðabæ og í Reykjavík, það er sko nóg að gera hjá okkur þessa dagana og bara gaman að því.
Ég reyni að læra eins og ég get miðað við aðstæður, það er nú eitthvað afskaplega takmarkað en ég verð víst bara að reyna að gera gott úr þeim tíma sem ég fæ. En ef einhvern langar óskaplega að taka að sér börn í desember þá er bara að taka upp símann og hringja :)

Monday, November 26, 2007

Stökkperlur??

Þegar ég var komin langleiðina í skólann í morgun þá hringdi farsíminn minn, ég sá á skjánum að þetta var leikskólinn. Mín fyrsta hugsun var að nú væri annað hvort barnanna orðið lasið. En nei, nei í símanum var deildarstjórinn á deildinni hennar Lilju Rósar, daman hafði verið að perla og ein perlan hafði bara "lent" í annarri nösinni á henni, hún gat ekki náð henni og vildi endilega að ég færi með hana til læknis sem gæti náð þessu. Ég fékk að sjálfsögðu hláturskast í símann eins og góðri móður sæmir og datt í hug Madditt og Beta. Ég hringdi í Tomma þar sem hann var heima í vaktafríi og hann skaust á leikskólann með flísatöng, náði perlunni og fór svo aftur heim.
En Lilja Rós heldur sig alveg við það að perlan hafi bara lent í nefinu á henni, hún setti hana ekki þar, ó nei.

Tuesday, November 20, 2007

Jólin nálgast

Það er alveg ótrúlega stutt í jólin og í dag er nákvæmlega mánuður þangað til ég flýg heim með börnin. Þangað til sá dagur kemur er samt nóg að gera, það eru verkefnaskil, próf, og svo auðvitað reynir maður eins og hægt er að hafa aðventuna notalega fyrir Lilju Rós og Jóhann.
Reyndar sé ég ekki fram á að vera mikið heima frá 3.desember til 19.desember en hin þrjú hljóta að geta skapað notalega jólastemningu.

Annars hafa síðastliðnir dagar verið rólegir hjá okkur, ælupestin bankaði reyndar upp á í rúman sólarhring en það er vonandi búið og í gær og í dag hef ég verið að vakta hluta á drengnum sem er sunnar en höfuðuð til að athuga hvort gestir séu þar í heimsókn, (if you know what I mean).

Thursday, November 15, 2007

Afmæli

Þá er litli gaurinn minn orðinn tveggja ára, rosalega líður tíminn hratt.
Hann hlustaði á afmælissöng í morgun og klappaði vel fyrir mér og Lilju Rós að honum loknum.

Saturday, November 10, 2007

Tæknin að stríða mér

Sjónvarpið okkar var að bila í dag í annað skiptið á hálfu ári, finnst ykkur það ekki mikil gæði? Tækið er ekki orðið tveggja ára gamalt þannig að það er ennþá í ábyrgð en ef þetta á að vera svona næstu árin þá er alveg eins gott að henda því næst þegar það bilar (s.s. í apríl) og kaupa nýtt. Kannski ágætt að það bilaði í dag því ég er búin að vera dugleg að taka til og þrífa, með útvarpið í gangi.

En það er best að fara að setja í nokkrar tertur svo engin fari svangur héðan á morgun :)

Friday, November 09, 2007

Afmæli

Hann á afmæli í dag,
hann á afmæli í dag,
hann á afmæli hann Tommi
hann á afmæli í dag.

Já eins og nokkrir aðrir í minni fjölskyldu þá á Tommi afmæli í dag. Svo á Jóhann afmæli eftir tæpa viku og afmælisveisla fyrir hann verður haldin 11.nóvember. Nóg að gera í þessum afmælishöldum, bara gaman að því.
Ég á núna að vera að læra, baka, vera í Bónus, ganga frá þvotti, þrífa en í staðinn þá ákvað ég að fá mér kaffi og setjast fyrir framan tölvuna.

Monday, November 05, 2007

Það þarf nú lítið til að setja mig út af sporinu, og vinnuveitendum Tomma tekst að gera það núna rúmlega einu sinni í mánuði. Ég er farin að halda að hluti af þeirra starfslýsingu sé að búa til amk eitt nýtt vaktaplan í hverjum mánuði. Nú er búið að hringla enn einu sinni í vöktunum hjá "drengnum" þannig að núna er hann ekki á vakt um jól heldur um áramótin, og er á vakt nánast alla prófatörnina mína :(
En þar sem ég hef fulla trú á þessum mönnum og þeirra hæfileikum þá bíð ég spennt eftir næsta plani sem ætti samkvæmt mínum útreikningum að koma eftir tæpar 4 vikur.
En við hjónaleysin erum búin að ákveða að hvort sem hann verður að vinna um jól eða ekki þá fer ég austur með börnin og jafnvel hann líka um jól og ætla að hafa það rosagott þar.
Mér skilst að búið sé að skipta um hurðir BARA fyrir okkur og það verði bakaðar skonsur í hvert mál.

Annars er ekkert að frétta af okkar daglega lífi, Jóhann ræðir mikið um "sikka" og "sokka" (hvað haldið þið að það sé?), og Lilja Rós býður spennt eftir að hætta á leikskólanum svo hún geti gefið öllum krökkunum á deildinni ís eins og lög gera ráð fyrir þegar maður hefur skólagöngu. (N.B. það eru tæp 2 ár í það)

Saturday, November 03, 2007

Laugardagur

Skóli á eftir, Bónus eftir það og svo bara njóta þess að vera með fjölskyldunni.
Á morgun er svo afmæli hjá Bjössa og Karen og Lilja Rós er búin að hlakka til alla vikuna.
Sem sagt ósköp róleg helgi framundan sem eru yfirleitt bestu helgarnar.

Sunday, October 28, 2007

Hittingur

Ég fór inn á bloggsíðu hjá frænku minni fyrr í kvöld og rak þar augun í síðu sem var tileinkuð hennar árgangi úr grunnskóla. Í framhaldi af því fór ég að hugsa um hversu lítið ég veit um mína grunnskólafélaga (þ.e. frá Egilsstöðum, ég veit ekkert um þá frá Höfn), og hversu gaman væri að heyra frá þeim. Ég útskrifaðist úr grunnskóla vorið 1989 að mig minnir og við hittumst árið 1994 en svo ekki söguna meir.
Næsta vor eru 20 ár síðan við fermdust (Guð minn góður) og svakalega væri nú gaman að hittast í tilefni af því. Ef svo ólíklega vill nú til að einhver af mínum gömlu bekkjarfélögum lesi þetta blogg endilega látið þá heyra í ykkur. (en þar sem ég hef ekki samband við neinn af mínum <40 bekkjarfélögum nema tvö þá les þetta væntanlega enginn :))
Hvernig í veröldinni nær maður sambandi við fólk sem maður veit ekki hvar er??
Ég er nefnilega alveg að verða harðákveðin í því að þeir einstaklingar sem fermdumst í Egilsstaðakirkju og "Fellakirkju" vorið 1988 EIGI að hittast vorið 2008.

Friday, October 26, 2007

Helgi framundan

Jæja ég er komin í betra skap og hætt að tuða :)
Átti góðan dag í dag, fyrir hádegi fór ég og sinni ýmsum erindum og eftir hádegi var brunað í Toyota í Kópavogi að taka viðtal.
Eftir það fór ég með skólavinkonu í búðarráp og kaffisopa. Alltaf gaman að gera ekki neitt.
Kom heim með jólagjafir, jólapappír, myndaramma og ýmislegt fleira sem "vantaði" hingað heim.

Ætla svo snemma að sofa í kvöld, er endalaust að reyna að stoppa pestina sem er stöðugt að banka á þröskuldinn hjá mér.
Á morgun ætla ég svo að fara með börnin á Akranes, við erum að fara í afmæli hjá vini hennar Lilju Rósar og kíkja á fleiri góða vini. Bara gaman.

Wednesday, October 24, 2007

Pirr, pirr og aftur pirr

Mikið xxxxxxx fer það í taugarnar á mér þegar fólk er sífellt að segja þessa setningu:
"það er svo mikið að gera hjá mér, ég bara hef ekki tíma", (þá er ég að vitna í fólk í ákveðnum skóla í ákveðnu fagi). Ég myndi halda að það væri álíka mikið að gera hjá flestum, allir eru jú með námið á herðunum og ef ekki eru börn til staðar þá er fólk væntanlega með einhver áhugamál sem það sinnir utan skólatíma.
N.B. --> ALLIR ERU UPPTEKNIR EN ÞAÐ ÞURFA BARA EKKI ALLIR AÐ TUÐA UM ÞAÐ Í SÍFELLU

Jæja þá er það komið frá, jú svo eitt enn, af hverju hægir fólk á sér, gefur stefnuljós og beygir á nánast sömu sekúndu, er ekki betra að gefa fyrst stefnuljósið, hægja svo á sér og beygja að lokum??

En bara til að hafa eitthvað jákvætt með svo þið haldið ekki að ég sé að ganga af göflunum, þá er ég að fara með börnin á Akranes á laugardaginn í afmæli hjá vini hennar Lilju Rósar. Hún hlakkar mikið til og telur niður dagana.

Saturday, October 20, 2007

Í fréttum er þetta helst.....

- Börnin mín eru búin að sofa í sínum herbergjum í eina viku og hafa höndlað það bara nokkuð vel.

- Jóhann svaf í 13 tíma "straight" í nótt (og þeir sem til þekkja vita að það er heimsmet og vel það á þessu heimili)

- Tengdamamma á afmæli á morgun og ég óska henni til hamingju með það

- Hárin í eyrunum á okkur detta niður ef það er hávaði (samkvæmt Lilju Rós amk)


Það er greinilega mikil gúrkutíð hjá mér því að ég bara hef ekkert annað.
Skrifa meira þegar ég hef eitthvað að segja ;)

Saturday, October 13, 2007

Laugardagskvöld

Þá er komið enn eitt laugardagskvöldið. Ég er nýtthætt að stúdera lögfræði, en þar las ég um samninga, loforð, ógildingar, formgalla og ýmislegt fleira skemmtilegt.
Ég er ein heima, (fyrir utan börnin að sjálfsögðu) og hef það bara ósköp notalegt, hlustandi á útvarp og hangi í tölvunni og nýt þess að gera nákvæmlega ekkert af viti.

Á morgun ætlum við Lilja Rós í sunnudagaskóla í Íslensku Kristskirkjunni sem er staðsett í Grafarvoginum. Í fyrra fór ég nefnilega með Lilju Rós nokkrum sinnum í ónefnda kirkju í Reykjavík og mér leist nú ekki á það skal ég segja ykkur. Alltof mikið af fólki (svo kirkjurækið fólk hér í borginni), lélegt skipulag og engin skipti sér af þeim börnum sem hlupu gólandi út um allt, hvorki foreldrar né umsjónarmenn sunnudagaskólans.
Þannig að nú ætla ég að prófa að fara í "litla" kirkju þar sem mér skilst að börnunum sé skipt upp í hópa eftir aldri. Ég kannast nú við þó nokkra í þessari kirkju og þetta er bara fínasta fólk þannig að ég hlakka mikið til.

Og svo ég víki nú að allt öðru, þá fékk ég próftöflu í hendur í vikunni og komst að því að ég er í síðasta prófinu þann 19.desember. Þar sem Herra Thomas er að vinna á jólunum (ég er ekki að grínast), þá er ég alvarlega að hugsa um að fara austur með börnin rétt fyrir jól og dvelja þar í nokkra daga. Ég hef nefnilega engan áhuga á að eyða jólunum alein (fyrir utan börnin) hér í Reykjavíkinni. Hér eru engin matarboð hvorki á jóladag né annan í jólum þannig að bókstaflega þá yrði ég alein þessa daga. Hver nennir því??

En nú er klukkan farin að ganga tólf og þar sem ég þarf mjög líklega að vakna um það bil fimm sinnum ef ekki oftar áður en klukkan slær 7 í fyrramálið þá er best að fara að drífa sig í bælið.

Thursday, October 11, 2007

Skrítinn dagur

Þetta hefur verið afskaplega furðulegur dagur, og ég er ekki ánægð með niðurstöðuna.
Spurning hvert maður getur flutt ;)

Friday, October 05, 2007

Myndir - Enjoy

Hér eru nokkrar myndir frá "Kóngsins Köbenhavn". Merkilegt að ég get ekki verið eðileg á neinni mynd :)




























Tuesday, October 02, 2007

Komin heim og orðin árinu eldri

Jæja þá er maður komin heim aftur. Þetta var fín ferð og mér heyrist að ömmur og afar hafi komist nokkuð vel frá síðustu fimm dögum.
Lilja Rós var hæstánægð að fá okkur heim, og hún sagðist hafa saknað mín mikið, eða þess sem jafngildir 10 puttum upp í loft, og pabba síns saknaði hún líka en ekki eins mikið en hann fékk 5 putta upp í loft.
Ég held að Jóhann hafi ekki fattað að hann hafi ekki séð okkur í næstum fimm daga, og tók bara á móti okkur eins og alla aðra daga.

Við höfðum það mjög gott úti, borðuðum góðan mat, sváfum vel (vorum ekki vakin ca 10 sinnum á nóttu), og sumir (nefnum engin nöfn) versluðu pinkupinkupons :)

Nú tekur svo daglega lífið við, og ég sit núna og er að reikna ávöxtunarkröfur og ýmislegt annað skemmtilegt.

Wednesday, September 26, 2007

Köben og afmæli

Þá er loksin komið að því, sú gamla stefnir á Köben í fyrramálið. Og fyrir þá sem ekki vita þá á ég afmæli á morgun ;)

Ég er búin að pakka en átti voða erfitt því sökum anna þá náði ég ekki að útbúa Excel skjal sem inniheldur allt sem ég ætla að taka með mér. Ég er nefnilega vön að búa til svoleiðis og demba svo bara öllu ofan í tösku á fimm mínútum. (Ég veit að nú hlær Heiðrún og líklega Magnea líka)

Ungarnir fór til ömmu Sylvíu og afa Þráins fyrr í kvöld og voru hæstánægð með það, enda toppþjónusta hjá ömmur, og mig grunar að afi sé nú ekkert síðri, að minnsta kosti er hann Jóhann minn afskaplega hrifin af afa sínum og kallar oft á hann "afa Dáinn"

Hér fyrir neðan eru fjórar myndir frá Færeyjum, fyrir þá sem hafa áhuga. Reyndar voru teknar á annað þúsund myndir þar og við eigum ennþá eftir að sía út þær sem okkur langar að eiga á pappír.





Hér eru Lilja Rós og Jóhann í heimsókn hjá bróður Sylvíu


Hér er verið að gæða sér á ís í blíðunni á Sandey

Þetta er elsta húsið í Húsavík og jafnframt það sem blasti
við okkur þegar við litum út um eldhúsgluggann

Þarna dvöldum við í rúma viku og þarna leið okkur vel.
Í þessu húsi bjuggu amma og afi Tomma.













Friday, September 21, 2007

Þá er enn ein vikan liðin og ég að verða árinu eldri í næstu viku, rosalega líður þetta hratt.
Af okkur er svo sem ekkert nýtt að frétta, frumburðurinn er vinsæll hjá lúsunum þennan mánuðinn en vonandi er þetta orðið gott núna, síðustu lýs sáust í gær.
Ég eyði virkum dögum í kennslustundum eða í lestur á Þjóðarbókhlöðunni; nóg að gera.

Núna um helgina ætla ég mér að taka íbúðina í gegn því að mamma og pabbi ætla að vera hér með börnin næstu helgi og mér finnst ég verða að þrífa allt hátt og lágt áður en þau koma og "búa" hér í nokkra daga.

Nú varð nokkurra mínútna hlé á færslunni (þið tókuð auðvitað ekkert eftir því), því síminn hringdi og í símanum var gömul vinkona frá Egilsstöðum, gaman að því.

Tuesday, September 18, 2007

Þá er maður komin heim aftur frá Höfn. Afmælishöldin tókust vel í alla staði og ég tilheyri án efa skemmtilegustu fjölskyldu landsins, alltaf mikið hlegið, sungið og dansað þegar þetta fólk hittist. Afi og amma voru hæstánægð með þetta allt saman og það er það sem skiptir máli og ég vona að það líði ekki of langur tími þangað til við hittumst öll næst.

Svo styttist bara óðum í Köben, vona að það snjói ekki á okkur þar eins og gerði á Höfn.
Allt á fullu í skólanum, og í fyrsta skipti í langan tíma þá bara hef ég ekki nægilega marga klukkutíma í sólarhringnum og ætla hér með að kvarta og kveina yfir því :)

P.S. ég lifði af umræðutíma númer þrjú og þá eru bara níu eða tíu eftir.

Thursday, September 13, 2007

Ferðalag

Jæja þá er komið að því sem margir hafa beðið eftir.
Á morgun liggur leiðin á Höfn og á laugardag mun móðurfjölskyldan mín, (skemmtilegasta fólk í heimi ;)), koma saman og fagna níræðisafmæli afa míns.
Þetta verður án efa mjög skemmtileg helgi og við litla fjölskyldan munum bruna aftur í bæinn á sunnudag.
Auðvitað reynir maður líka að hitta föðurfólkið en mér skilst að fáir séu heima þessa helgi.

Góða helgi allir saman, ég veit að það verður gaman hjá mér og mínum :)

Friday, September 07, 2007

Ég er í fagi í skólanum sem kallast Utanríkisverslun, fyrirlestrar í þessu ágæta fagi eru haldnir einu sinni í viku í 40 mín, þeir fara fram á ensku þó að kennarinn sé Íslendingur í húð og hár.
Svokallaðir umræðutímar eru haldnir í þessu ágæta fagi einu sinni í viku og þeir eru í 90 mín. Mér til mikillar gleði þá fara þeir líka fram á ensku, eða eins og kennarinn sagði "þegar búið er að loka dyrunum þá er enska eina tungumálið sem má tala".
Síðasta þriðjudag var fyrsti tíminn í þessu líka ágæta fagi, ég byrjaði að kvíða fyrir þessum tíma vikunni áður og kvíðinn bara jókst og jókst eftir því sem nær dróg. Svo rann tíminn upp, og okkur var tilkynnt að hver og einn ætti að standa upp og kynna sig og segja aðeins frá sjálfum sér, á ensku að sjálfsögðu.
Þarna var ég komin að því að fá hjartaáfall, taugaáfall og ég veit ekki hvað.

N.B. í þennan áfanga eru skráðir 180 nemendur og okkur er skipt í 2 hópa í umræðutíma þannig að það er ansi mikið af fólki í tímum þó auðvitað mæti aldrei allir.

Svo kom röðin að mér, ég stóð upp, horfði fyrir ofan hausana á öllum (passaði mig á að horfa ekki í augun á nokkrum manni), sagði nafnið mitt, hvaðan ég er, hvar ég hef starfað og hvert ég hef ferðast og ég LAUG!! Alveg óvart samt. Ég sagðist hafa ferðast til Mið-Evrópu og NOKKURRA LANDA Í ASÍU. Málið var nefnilega þannig að þegar ég var búin að segja Mið-Evrópa þá gat ég ekki með nokkru móti mun hvað hinar heimsálfurnar heita og sú fyrsta sem loksins poppaði í hugann var Asía en þangað hef ég aldrei komið ;)

Svona getur stressið farið með mann góðir hálsar og þetta þarf ég að gera í hverri einustu viku fram að áramótum, þ.e. tala á ensku fyrir framan fullt af fólki, ég skal reyna að ljúga ekki í hvert skipti.

Monday, September 03, 2007

Mig langar í Humanchild/Mannabarn!!!!
Bara svona ef ykkur langar að vita það

Friday, August 31, 2007

Nýtt hár og ferðalög framundan

Nú ætti mamma að verða glöð ef hún sæi mig, mín er bara orðin ljóshærð að nýju. Og komst að því þegar ég borgaði nýju klippinguna og sjampóið að ég er komin í "millisíðan" flokk, nógu mikið borgaði ég :)

Skólinn byrjar á mánudaginn og ég bíð enn spennt eftir einkunnum, búin að kaupa nokkur kíló af bókum svo ég er tilbúin í slaginn.

Eftir tvær vikur er svo níræðisafmælið hans afa, og þá brunum við á Höfn í Hornafirði, og það styttist óðum í Kaupmannahöfn. Reyndar langar mig afskaplega mikið að fara til Egilsstaða 8.september í þrítugsafmælið hans Guðbjarts (ég er næstum viss um að hann er bara þrítugur), en það verður bara allt að koma í ljós þegar nær dregur.

Wednesday, August 29, 2007

Óskemmtilegir gestir

Í mestallan gærdag og í dag hef ég verið að berjast við óboðna gesti sem hafa hreiðrað um sig í hárinu á frumburðinum.
Þið sem til þekkið vitið að hún hefur talsvert hár á höfðinu og það tekur sinn tíma að þvo og kemba. Í gær makaði ég sérstakri hársápu í hárið á henni þrisvar sinnum og kembdi, (mér var ráðlagt að gera það tvisvar), og samt var líf í hárinu í morgun.
Þannig að í kvöld set ég eitthvert eitur í hárið á henni sem þarf að vera þar í 12 tíma og vonandi er ég þá búin að útrýma þessu.
Sonurinn er ennþá lúsalaus svo og ég og Tommi og vonandi helst það þannig.
Lilja Rós hins vegar stendur sig eins og hetja í allri kembingunni og kveinkar sér ekki einu sinni þó kamburinn rífi næstum og slíti hárið af stundum.

Saturday, August 25, 2007

Lilja Rós tilkynnti mér það í gær að ein "fóstran" (já ég nota þetta orð) á leikskólanum væri krulluð í framan.
Í ljós kom eftir smástund að hún var að meina krumpuð í framan. Henni finnst þessi kona vera krumpuð, eins amma hennar og afi hennar hérna í Reykjavík.
Fleiri virðast ekki vera krullaðir í framan í hennar augum ;)

Friday, August 24, 2007

Védís og raftækin hennar

Ég hef þann einstaka hæfileika að í hvert skipti (mér finnst það amk) sem ég kaupi raftæki þá reynast þau gölluð þegar heim kemur. Að sjálfsögðu átti þetta líka við nýja fína ísskápinn sem ég fékk í hús í sumar. Hann bara kældi ekki, nema eftir að við stilltum frystinn á hæsta og kælinn líka þá fengum við nokkuð kalda mjólk.

Eftir rúman mánuð af þessu þá játaði ég mig sigraða og við hringdum og fengum nýtt eintak. Þar sem Tommi er frekar slæmur í baki þá sagði hann við þá í ónefndri verslun að það yrðu að koma tveir menn með ísskápinn því hann ætlaði ekki að bera þennan hlunk aftur upp á þriðju hæð. Ekkert mál "sagði" verslunin, en það fór nú samt svo að þrisvar sinnum kom einn burðarmaður og alltaf var hann sendur burtu því Tommi sagðist vilja fá tvo menn. Loksins komu tveir ágætisnáungar sem báru ísskápinn upp másandi og blásandi og þann gallaða niður.

Nýja tækið var tekið úr umbúðunum og þá kom í ljós að hann er aðeins beyglaður á annarri hliðinni, og eins og alþjóð veit eru raftæki oft seld útlitsgölluð með örlitlum afslætti þannig að við hringdum í ónefnda verslun og sögðumst ekki vera nógu ánægð með þetta. Það fór svo að við fáum 12.000 krónur endurgreiddar af upprunalegu kaupverði sem var rétt tæpar 65.000 íslenskar krónur.

Er það ekki bara ágætis endir á þessu veseni, það finnst okkur að minnsta kosti.

Thursday, August 23, 2007

Ágúst/September

Jæja prófin búin. Skólinn, Höfn og Köben í næsta mánuði.
Næsta mál á dagskrá er að punga út einhverja tugi þúsunda í skólabækur. Alltaf gaman að eyða peningum, er það ekki?

Saturday, August 18, 2007

Hó,hó,hó

Menningarnótt(dagur) framundan og ég mun sitja í Odda að stúdera rekstrarhagfræði. Börnin fara í Latabæjarmaraþon í dag eins og mörg önnur börn með föður sínum og vonandi skemmta þau sér vel þar. Svo liggur leiðin til bestu tengdó í heimi (amk bestu sem ég á) því hún ætlar að taka þau í nótt, svo ég geti lært fram á kvöld og byrjað snemma í fyrramálið því Tommi er á næturvakt þessa dagana.
Rosalega verð ég fegin þegar þessu púsluspili líkur því mér hefur aldrei fundist gaman að púsla.

Annars eru bara allir hressir og ég er laus í hvað sem er milli 9-17 frá og með næsta fimmtudegi í rúmlega viku, ekki er það nú leiðinlegt.

Sunday, August 12, 2007

Hjálp

Jæja nú er staðan ekki góð :)
Tommi gaf mér nýjan gsm síma og þegar ég setti kortið í hann þá komst ég að því mér til mikillar mæðu að öll númer sem ég hef sett inn í hinn símann síðastu 2 árin eða svo voru ekki vistuð á kortið. Þannig að allir þeir sem hafa skipt um símanúmer síðustu 2 ár eða svo vinsamlega sendið mér sms eða e-mail með númerunum ykkar svo ég geti sett þau inn á nýja fína símann. (nú skal ég vista á kortið)

Vona að allir bregðist við hvort sem þeir eru búsettir erlendis eða á Íslandi.

Wednesday, August 08, 2007

Ferðalag

Ég er að fara til útlanda bráðum, omg hvað ég hlakka til.
Fer með mínum ektamanni (Álfheiður, er þetta ekki rétt skrifað hjá mér?) og öðrum "hjónum".
Þetta verður nú bara stutt ferð en samt ferð og það er nóg til að gleðja mig.
Nú tekur við próflestur og próf og þegar það er búið þá get ég farið að dunda mér við að hlakka almennilega til.

Annað hef ég nú ekki að segja í bili, svo ég kveð að sinni :)

Friday, August 03, 2007

Allt að gerast

Já nú er sko allt að gerast hjá minni, mikill spenningur í gangi.
Kemur allt í ljós á næstu dögum.

Vona að allir eigi svo rólega helgi og engin fari sér nú að voða, amk. ekki ég, því ég verð ein heima með börn og buru.

See ya!!

Monday, July 30, 2007

Allt í rólegheitunum

Jæja þá fer þessu rólegheita sumri að ljúka. Lilja Rós byrjuð aftur á leikskólanum eftir langt sumarfrí og Jóhann búin að vera í aðlögun í eina viku á sama leikskóla og gengur líka svona glimrandi vel. Hann er greinilega fegin að "losna" við mömmu sína og hitta börn, sérstaklega var hann glaður að fá skóflu og fötu í hönd og mokar nú af áfergju á hverjum degi.

Nú byrjar próflesturinn hjá mér af fullum krafti frá 8-5 á degi hverjum, og svona er ég nú dugleg fyrsta daginn, sit og blogga ;)

Svo er verið að plana utanlandsferð, allt ennþá mjög óljóst en ég er löngu farin af stað í huganum og nánast komin heim aftur með fulla poka af H&M fötum.
Það væru þá ég og Tommi sem myndum fara og jafnvel ein "hjón" með í för en þetta á allt eftir að koma í ljós. En mikið væri nú gaman ef af þessu yrði því mér finnst við alveg eiga skilið að komast tvö í burtu.

En það er best að fara að læra áður en samviskubitið fer með mig, vona að ég geti farið að setja inn myndir hvað á hverju.

Thursday, July 19, 2007

Yndislegt að....

--vera á Blönduósi, takk fyrir okkur Maja og Sighvatur (Jóhann er ennþá að leita að Tinna)

--koma heim aftur

--sjá nýja ísskápinn á sínum stað

--sjá þann gamla í Sorpu

--búið sé að laga lekann í þvottavélinni (sem búin er að standa yfir í tæp 2 ár, segið svo að ég sé óþolinmóð ;))

--geta sturtað niður aftur (klósettið var sko bilað)

--hafa getað eytt hálfu sumrinu með börnunum

--vera búin að vera svona dugleg að læra í sumar (Magnea og Hilla vita um hvað ég er að tala, já og Harpa kannski líka)

--vera til

Eru ekki allir sammála??

Monday, July 09, 2007

Endalaus þeytingur á manni ;)

Ég er farin á Blönduós, kem aftur eftir nokkra daga.
Hafið það öll gott!!

Thursday, July 05, 2007

"frí"

Barnlaus í kvöld, hálfbarnlaus annað kvöld og barnlaus á laugardagskvöldið. OHHHHH, þvílíkur munur gott fólk ;)

Sunday, July 01, 2007

Loksins...

Ég var að kaupa ísskáp í dag, en það mun vera fyrsti ísskápurinn sem er í eigu okkar Tomma.
Gripurinn kemur í hús á morgun og ég hlakka svo mikið til, sérstaklega hlakka ég til að losna við garminn sem við erum með.

Thursday, June 28, 2007

Gott að eiga góða að

Enn einn sólardagurinn að baki. Veðrið í dag var alveg yndislegt og við erum svo heppin að bróðir Tomma og kona hans sem búa í Garðabæ, í húsi (að sjálfsögðu) með risastórum garði leyfa okkur að koma nánast þegar okkur hentar. Fínt fyrir mig að komast í sólbað og fínt fyrir krakkana að komast á gras þar sem þau geta bara hlaupið um.
Annars ætlaði ég að draga Tomma í útilegu um helgina en hann tilkynnti mér það áðan að hann nennti því ekki þannig að ég verð bara að bíta í það súra epli og það bíður bara betri tíma :)

Svo styttist bara í hálfbarnlausu hálfu helgina, ég tel niður í huganum.....

Tuesday, June 26, 2007

Brunarústir

Jæja þar kom að því að maður brann til kaldra kola. Sat örlítið of lengi í sólinni í dag og roðnaði nokkuð vel, en það jafnar sig og þá fær maður kannski á sig brúnan lit, hver veit.

En við erum komin aftur til Reykjavíkur eftir mjög góða ferð, og á döfinni er að minnsta kosti heimsókn á Akranes í einn eða tvo daga, heimsókn á Blönduós í 2-4 daga og svo fæ ég hálfbarnlausa hálfa helgi bráðum. Og vonandi getum við skellt okkur í eina góða útilegu í júlímánuði en það verður annars bara að koma í ljós.

Svo erum við hjónaleysin að fara að sigla saman á kajak hvað á hverju, það á bara eftir að kaupa galla handa mér og fá mig í blessaðan bátinn, það gæti tekið sinn tíma.

Annars hef ég nú ósköp lítið að segja núna, er ekki mikið fyrir einhverjar pælingar hér á netinu, hef þær bara í litla höfðinu mínu ;)

Ef einhvern langar á kaffihús eitthvert kvöldið, endilega bjalla í mig er til í allt (næstum allt) og barnapían er í fríi í vinnunni frá og með morgundeginum.....

Tuesday, June 19, 2007

Smá getraun

Hvað haldið þið að orðið "liðugt" þýði á færeysku þegar það kemur fyrir í sjónvarpsdagskrá?
Og svo borðaði ég "haf-hesta-unga" um daginn, hvað haldið þið að það sé?

Sunday, June 17, 2007

Hér er ég...

Jæja, komst á netið, loksins!! Annars er búið að vera mjög gott að hafa ekki nettengingu undanfarna daga, maður hefur BARA gott af því.
Þetta eru búnir að vera yndislegir dagar hér í Færeyjum, við erum búin að hitta margt gott fólk og borða mikið að góðum mat. Við vorum fyrstu 8 dagana í litla þorpinu Húsavík og það var bara yndislegt, krakkarnir hæstánægðir og foreldrarnir líka. Næst fórum við yfir á Suðurey og heimsóttum frænda Tomma og gistum tvær nætur hjá honum og nú erum við komin til Þórshafnar á Hótel Streym og verðum hér fram á miðvikudag en þá verður siglt til Íslands.

Lilja Rós hefur náð þeim áfanga að verða 4ra ára og takk takk þið sem munduð eftir þeim degi.
Hún fékk afmælisveislu á Egilsstöðum um daginn og svo tvær í Húsavík og hún var orðin alveg rugluð, skildi ekki alveg af hverju hún átti alltaf afmæli :)

Ætla að láta þetta gott heita í bili, ætla ekki að skrifa ferðasöguna í heild sinni hér inn, en skelli kannski inn myndum þegar ég er búin að læra á forritið sem fylgdi nýju vélinni.

Friday, June 01, 2007

Góðir dagar

Síðustu dagar hafa verið feykigóðir, þeir hafa einkennst af:
- ágætu veðri (mætti nú alveg vera betra)
- góðum mat
- heimsókn í fjárhús
- afmælisveislu Lilju Rósar
- heimsókn á leikskóla þar sem mín börn tróðu í sig pönnukökum
- gönguferðum fram og til baka
- "sundferð" í heita pottinn hennar ömmu Sissu

Svo er Tommi að koma til okkar vonandi á morgun og aldrei að vita hvað okkur dettur í hug að gera þegar hann er mættur á svæðið.

Tuesday, May 22, 2007

Spenningur

Jæja nú er ég orðin virkilega spennt fyrir Færeyjaferð, og jú auðvitað líka Egilsstaðaferð.
Hlakka mest til að kynnast fólkinu hans Tomma sem ég hef aldrei hitt þó ég hafi nú verið í þessari fjölskyldu í rúmlega 11 ár.
Er búin að komast að því að það búa 81 í þorpinu sem við verðum í, það heitir Húsavík og er víst þorpið sem pabbi Tomma ólst upp í, ekki mamma hans eins og ég sagði um daginn. Eins ætlum við líka að gista 2 nætur í þorpi sem heitir Hvalba og er á annarri eyju en Húsavík en þar býr stjúpbróðir Sylvíu, svo eru það vonandi 4 nætur í "stórborginni" Þórshöfn :)

Ég flýg austur með börnin á fimmtudaginn og býst ekki við að blogga aftur fyrr en við komum heim aftur sem verður í lok júní, en kannski "finn" ég tölvu og skrifa nokkur orð.

Saturday, May 19, 2007

Langaði bara að deila því með ykkur að ég fór út að borða í gærkvöldi á æðislegum stað.
Hann heitir Indian Mango og er á horni Grettisgötu og Frakkastígs, ekki dýr og maturinn frábær, furðulegur á litinn en bragðgóður :)

Hvet alla til að fara þangað og prófa.

Annars er afskaplega róleg helgi framundan, ég er ein heima með grislingana og við reynum að finna okkur eitthvað til dundurs án þess að ganga af göflunum, en allir eru velkomnir í heimsókn, það er kaffi á könnunni og kannski til eitthvað gott með því ;)

Wednesday, May 16, 2007

Allt að skella á

Ég fattaði það í dag mér til mikillar "skelfingar" að ég er að fara austur í næstu vikur og kem ekki aftur heim til mín fyrr en eftir rúmar 4 vikur.
Fékk svona nett áfall þegar ég sá hvað ég á mikið ógert fyrir brottför, fá vegabréf fyrir alla, fara með drenginn í skoðun, fara með liðið og sjálfa mig í klippingu og ég veit ekki hvað og hvað. Greinilega langt síðan ég hef sinnt þessum daglegu móðurstörfum. En þetta hlýtur allt að takast.
En ég er orðin mjög spennt að fara til Færeyja, gaman að sjá loksins hvar tengdaforeldrarnir ólust upp. Við verðum "búsett" í húsi í litlu þorpi sem Sylvía tengdamamma er frá. Ég veit það fyrir víst að þorpið er lítið því að við sendum tvö eða þrjú jólakort þangað ár hvert og á umslagið skrifa ég bara nafn einstaklings, nafn þorpsins og svo Færeyjar. Spurning hvort maður geti verslað í matinn þar.
En þetta verður mikið ævintýri og Lilja Rós hlakkar ekki lítið til að fara í bátinn, hún heldur reyndar að við séum að fara í stóra bátinn til ömmu Sissu en það er bara næsti bær við. Mér fannst líka sniðugt þegar ég sagði henni að við myndum sofa í bátnum að á spurði hún mig hvort við tækjum rúmin með okkur. Ekki furða þó barnið spyrji, hefur aldrei sofið í bát :)

En annað er ekki á dagskránni hér, nema bara að fara að pakka niður..........jú og fara út að borða á föstudaginn, alltaf gaman að því. Ef einhver veit um góðan stað, í ódýrari kantinum þá eru allar hugmyndir vel þegnar.

Saturday, May 12, 2007

KOMIN Í SUMARFRÍ

Já eins og sjá má af fyrirsögninni hér að ofan þá er ég komin í sumarfrí. Ekki leiðist mér það :)
Síðasta prófið var í dag, ég kaus í dag, mamma kemur í heimsókn eftir helgina, ég fer austur með börnin bráðum, förum til Færeyja fljótlega, frumburðurinn verður 4ra ára eftir mánuð og sonurinn er að verða 18 mánaða. Nóg að gerast hjá okkur á næstunni.
Framundan er rólegt kvöld, ég ætla að fylgjast með fyrstu tölum og fara snemma að sofa.

Friday, May 04, 2007

...........

Jæja er ekki komin tími á færslu?
Hef reyndar ekkert að segja svo þetta verður afskaplega lítt áhugavert.
Langar samt að biðja ykkur sem kíkið hér inn um að kvitta, ég hef ekki hugmynd um hvort það séu kannski bara þessir 3-4 sem kvitta reglulega sem koma hér við og þá er eiginlega enginn tilgangur með þessu.

Er ennþá í prófum, ekki búin fyrr en eftir rúmlega viku, bý sem sagt ennþá á hlöðunni.

Friday, April 27, 2007

Törnin um það bil hálfnuð

Bara svona rétt að láta vita af mér.
Ég bý á Þjóðarbókhlöðunni sem staðsett er vestur í bæ, ágætis fæði þar og svona. Sef samt ennþá í Breiðholtinu en hver veit, kannski fer ég bara að sofa í bílnum :)

Tvö próf búin og þrjú eftir, samt eiginlega þrjú búin því í morgun var eitt tvískipt próf sem var í fjóra klukkutíma. (eitt í tvo og svo annað í aðra tvo)

Er núna að fara á leikskólann til Lilju Rósar en það er opið hús í dag, boðið upp á kaffi og góðgæti og öll verk barnanna eru til sýnis, alltaf gaman að þessum degi.
Svo er tiltektardagur hjá blokkinni á morgun hér á svæðinu fyrir utan og að sjálfsögðu vona ég að það verði nú ekki rok og rigning en maður veit aldrei hér í bænum.
Afmæli á sunnudag - það er bara brjálað að gera.

Næsta próf á miðvikudag í næstu viku þannig að lærdómur hefst strax í kvöld.

Þangað til næst.....

Tuesday, April 17, 2007

Friday, April 13, 2007

Vantar aðstoð

Er einhver góðhjartaður sem vill "ættleiða" 2 einstaklega þæg börn (;)) núna um helgina og svo aftur næstu helgi svo ákveðin móðir geti farið að læra undir próf sem by the way byrja mánudaginn eftir rúma viku.

Svör óskast hér á bloggið............................

Monday, April 09, 2007

Yndislegir páskar




Góðan dag og gleðilega hátíð,
Þetta hafa verið fínir dagar undanfarið, og við höfum borðað páskaegg, gefið öndum brauð og týnt skeljar í fjörunni. Í dag á svo að heimsækja húsdýragarðinn ef hann hangir þurr. (ég er alltaf jafn jákvæð þegar kemur að veðrinu í Reykjavík ;) )
Vona að allir hafi átt góða daga eins og við.

Tuesday, April 03, 2007

Páskar framundan

Óska öllum sem lesa þetta gleðilegra páska, og vona að allir borði mörg páskaegg og góðan mat yfir hátíðirnar. Það ætla ég að gera.

Thursday, March 29, 2007

Við tórum....

Hæ,hæ,
Bara láta vita að ég er enn á lífi. Hér á heimilinu hafa verið veikindi í gangi, þegar Jóhann var búin þá tók Lilja Rós við og hún er ennþá lasin, búin að heimsækja barnaspítlalann einu sinni og líklega er næsta heimsókn ekki langt undan. Hún gerir þetta með stæl daman þegar hún verður veik ;)
Ég læt í mér heyra þegar þetta er allt gengið yfir sem verður vonandi fljótlega hennar vegna því hún er afskaplega slöpp litla greyið, (og mamman á nú bara "soldið" bágt líka)

Saturday, March 24, 2007

Gubbupestin komin í heimókn......

Jæja, maður getur ekki sloppið endalaust við frú gubbulínu.
Jóhann ákvað algjörlega upp á eigin spýtur að byrja á þessum ósköpum í nótt, og svo aftur í morgun. Þannig að það er afskaplega skemmtileg helgi framundan og þar sem ég veit að nú vill enginn koma í heimsókn þá eru öll skemmtileg símtöl og samtöl á msn vel þegin ;)

Wednesday, March 21, 2007

Jæja, ég er alveg að jafna mig á tölvumissinum, enda stuðningurinn hjá stelpunum í skólanum ómetanlegur.
Dagmamman er ennþá ólétt þannig að þetta er allt í ágætu lagi í dag að minnsta kosti.
Ég er búin að segja henni að ég voni að hún gangi 14 daga fram yfir og það eru ekki allir sammála um það að ég eigi að óska henni þess ;), en ég meina................á maður ekki alltaf að hugsa bara um sinn eigin hag. NOT!!
Nú fer að styttast í páska eins og allir vita og ég er búin að kaupa eitt páskaegg með bleikum unga ofan á, þið megið giska hver á að fá það.
Annars er svo sem ekkert að frétta af okkur, ég er í skólanum eða á þjóðarbókhlöðunni þegar tími gefst til og svo er ég heima hjá börnum og búi seinnipart dags og á kvöldin. Ofsalega tilbreytingamikið líf, uppgötvaði meira að segja um daginn að ég hef ekki farið út að kveldi til síðan 9.febrúar og ég er ekki að ýkja............og er heldur ekki að biðja um vorkunn :) . Fannst þetta bara svolítið fyndið.

Jæja, nú er ég búin að skrifa nóg um ekki neitt,

Jú eitt í viðbót, ef einhvern langar að fá mig og 2 börn í heimsókn um helgina endilega látið mig vita, er nefnilega ein heima alla helgina og nenni því ekki.

Saturday, March 17, 2007

Ekki heppin þessa dagana.......

Jæja, nú er ég næstum búin að fá nóg. Það er ekki nóg með að dagmamman er ófrísk og á að eiga eftir 3 daga, og eftir þann tíma kemst ég ekki meira í skólann, og prófin er að koma.
Haldið þið ekki að harði diskurinn á blessaðri fartölvunni hafi hrunið í dag.......allt horfið, öll verkefnin, allar glósurnar og ég endurtek PRÓFIN ERU AÐ KOMA!!!!!
Ein úr skólanum er reyndar búin að bjóðast til að redda mér, koma með tölvuna sína hingað heim svo ég geti prentað allt út og skrifað hennar glósur upp og auðvitað er það æðislegt af henni en "common", af hverju gat xxxxxxxx ekki hrunið eftir 2 mánuði?

Þá er ég búin að ausa úr mér og ætla að fara að byrja á skattaskýrslunni (gott að gamli hlunkurinn virkar enn)

Thursday, March 15, 2007

Vinsamlegast......

Jæja, nú er farið að styttast í gest númer 3000, endilega fá að vita hver það er.
Fíni teljarinn sem hún Svanfríður setti inn fyrir mig af því að ég nennti ekki að finna út hvernig á að gera það :), er efst til hægri á síðunni.
Alltaf svo dugleg......

Wednesday, March 14, 2007

Ágætu landsmenn.....

Við sitjum hér og horfum á Stubbana, alltaf jafn gaman að þeim, finnst ykkur það ekki?
Ég ætlaði að setja inn myndir en einhver bilun virðist vera í gangi þannig að ég kem þeim ekki inn, (það getur ekki verið mér að kenna, ha!!)

Gleymdi að segja það síðast að við erum búin að bóka sumarfríið, fyrsta utanlandsferð Viderö-fjölskyldunnar að renna upp. Eigum bókað með Norrænu frá Seyðisfirði þann 6.júní næstkomandi til Færeyja og þar ætlum við að dvelja í 2 vikur. Ég hlakka mikið til að hitta loksins fjölskyldu Tomma sem býr þarna úti. Ég er búin að vera í þessari fjölskyldu í tæp 11 ár og hef örfáa hitt.
Eins má nefna það að við erum að fara í fermingarveislu hjá frændfólki Tomma í móðurætt næstu helgi og ég hlakka mikið til. Hef einu sinni hitt þetta fólk og það verður bara gaman að hitta þau aftur.
Alltaf gaman þegar eitthvað er að gerast í fjölskyldunni.
Mín er svo langt í burtu að maður hittir þau örsjaldan ;)

Jæja það er best að fara að skella kartöflum og saltfiski í pottinn og bræða svo hamsatólgina....namminamm.

Saturday, March 10, 2007

Á maður að byrja aftur??

Bara að tékka hvort einhverjir eru að kíkja hér við ennþá.
Er svona að pæla í hvort maður á að byrja aftur að skrifa.

Annars er svo sem ekkert að frétta af okkur, bara brjálað að gera í skólanum og þá meina ég brjálað. Í fyrsta skipti á ævinni þá finn ég fyrir því að mig bráðvantar fleiri daga í vikuna, (klukkustundir eru ekki nóg)
Börnin dafna vel og eru nokkuð hress.

Kveðja,
Védís