Wednesday, September 26, 2007

Köben og afmæli

Þá er loksin komið að því, sú gamla stefnir á Köben í fyrramálið. Og fyrir þá sem ekki vita þá á ég afmæli á morgun ;)

Ég er búin að pakka en átti voða erfitt því sökum anna þá náði ég ekki að útbúa Excel skjal sem inniheldur allt sem ég ætla að taka með mér. Ég er nefnilega vön að búa til svoleiðis og demba svo bara öllu ofan í tösku á fimm mínútum. (Ég veit að nú hlær Heiðrún og líklega Magnea líka)

Ungarnir fór til ömmu Sylvíu og afa Þráins fyrr í kvöld og voru hæstánægð með það, enda toppþjónusta hjá ömmur, og mig grunar að afi sé nú ekkert síðri, að minnsta kosti er hann Jóhann minn afskaplega hrifin af afa sínum og kallar oft á hann "afa Dáinn"

Hér fyrir neðan eru fjórar myndir frá Færeyjum, fyrir þá sem hafa áhuga. Reyndar voru teknar á annað þúsund myndir þar og við eigum ennþá eftir að sía út þær sem okkur langar að eiga á pappír.





Hér eru Lilja Rós og Jóhann í heimsókn hjá bróður Sylvíu


Hér er verið að gæða sér á ís í blíðunni á Sandey

Þetta er elsta húsið í Húsavík og jafnframt það sem blasti
við okkur þegar við litum út um eldhúsgluggann

Þarna dvöldum við í rúma viku og þarna leið okkur vel.
Í þessu húsi bjuggu amma og afi Tomma.













Friday, September 21, 2007

Þá er enn ein vikan liðin og ég að verða árinu eldri í næstu viku, rosalega líður þetta hratt.
Af okkur er svo sem ekkert nýtt að frétta, frumburðurinn er vinsæll hjá lúsunum þennan mánuðinn en vonandi er þetta orðið gott núna, síðustu lýs sáust í gær.
Ég eyði virkum dögum í kennslustundum eða í lestur á Þjóðarbókhlöðunni; nóg að gera.

Núna um helgina ætla ég mér að taka íbúðina í gegn því að mamma og pabbi ætla að vera hér með börnin næstu helgi og mér finnst ég verða að þrífa allt hátt og lágt áður en þau koma og "búa" hér í nokkra daga.

Nú varð nokkurra mínútna hlé á færslunni (þið tókuð auðvitað ekkert eftir því), því síminn hringdi og í símanum var gömul vinkona frá Egilsstöðum, gaman að því.

Tuesday, September 18, 2007

Þá er maður komin heim aftur frá Höfn. Afmælishöldin tókust vel í alla staði og ég tilheyri án efa skemmtilegustu fjölskyldu landsins, alltaf mikið hlegið, sungið og dansað þegar þetta fólk hittist. Afi og amma voru hæstánægð með þetta allt saman og það er það sem skiptir máli og ég vona að það líði ekki of langur tími þangað til við hittumst öll næst.

Svo styttist bara óðum í Köben, vona að það snjói ekki á okkur þar eins og gerði á Höfn.
Allt á fullu í skólanum, og í fyrsta skipti í langan tíma þá bara hef ég ekki nægilega marga klukkutíma í sólarhringnum og ætla hér með að kvarta og kveina yfir því :)

P.S. ég lifði af umræðutíma númer þrjú og þá eru bara níu eða tíu eftir.

Thursday, September 13, 2007

Ferðalag

Jæja þá er komið að því sem margir hafa beðið eftir.
Á morgun liggur leiðin á Höfn og á laugardag mun móðurfjölskyldan mín, (skemmtilegasta fólk í heimi ;)), koma saman og fagna níræðisafmæli afa míns.
Þetta verður án efa mjög skemmtileg helgi og við litla fjölskyldan munum bruna aftur í bæinn á sunnudag.
Auðvitað reynir maður líka að hitta föðurfólkið en mér skilst að fáir séu heima þessa helgi.

Góða helgi allir saman, ég veit að það verður gaman hjá mér og mínum :)

Friday, September 07, 2007

Ég er í fagi í skólanum sem kallast Utanríkisverslun, fyrirlestrar í þessu ágæta fagi eru haldnir einu sinni í viku í 40 mín, þeir fara fram á ensku þó að kennarinn sé Íslendingur í húð og hár.
Svokallaðir umræðutímar eru haldnir í þessu ágæta fagi einu sinni í viku og þeir eru í 90 mín. Mér til mikillar gleði þá fara þeir líka fram á ensku, eða eins og kennarinn sagði "þegar búið er að loka dyrunum þá er enska eina tungumálið sem má tala".
Síðasta þriðjudag var fyrsti tíminn í þessu líka ágæta fagi, ég byrjaði að kvíða fyrir þessum tíma vikunni áður og kvíðinn bara jókst og jókst eftir því sem nær dróg. Svo rann tíminn upp, og okkur var tilkynnt að hver og einn ætti að standa upp og kynna sig og segja aðeins frá sjálfum sér, á ensku að sjálfsögðu.
Þarna var ég komin að því að fá hjartaáfall, taugaáfall og ég veit ekki hvað.

N.B. í þennan áfanga eru skráðir 180 nemendur og okkur er skipt í 2 hópa í umræðutíma þannig að það er ansi mikið af fólki í tímum þó auðvitað mæti aldrei allir.

Svo kom röðin að mér, ég stóð upp, horfði fyrir ofan hausana á öllum (passaði mig á að horfa ekki í augun á nokkrum manni), sagði nafnið mitt, hvaðan ég er, hvar ég hef starfað og hvert ég hef ferðast og ég LAUG!! Alveg óvart samt. Ég sagðist hafa ferðast til Mið-Evrópu og NOKKURRA LANDA Í ASÍU. Málið var nefnilega þannig að þegar ég var búin að segja Mið-Evrópa þá gat ég ekki með nokkru móti mun hvað hinar heimsálfurnar heita og sú fyrsta sem loksins poppaði í hugann var Asía en þangað hef ég aldrei komið ;)

Svona getur stressið farið með mann góðir hálsar og þetta þarf ég að gera í hverri einustu viku fram að áramótum, þ.e. tala á ensku fyrir framan fullt af fólki, ég skal reyna að ljúga ekki í hvert skipti.

Monday, September 03, 2007

Mig langar í Humanchild/Mannabarn!!!!
Bara svona ef ykkur langar að vita það