Monday, November 26, 2007

Stökkperlur??

Þegar ég var komin langleiðina í skólann í morgun þá hringdi farsíminn minn, ég sá á skjánum að þetta var leikskólinn. Mín fyrsta hugsun var að nú væri annað hvort barnanna orðið lasið. En nei, nei í símanum var deildarstjórinn á deildinni hennar Lilju Rósar, daman hafði verið að perla og ein perlan hafði bara "lent" í annarri nösinni á henni, hún gat ekki náð henni og vildi endilega að ég færi með hana til læknis sem gæti náð þessu. Ég fékk að sjálfsögðu hláturskast í símann eins og góðri móður sæmir og datt í hug Madditt og Beta. Ég hringdi í Tomma þar sem hann var heima í vaktafríi og hann skaust á leikskólann með flísatöng, náði perlunni og fór svo aftur heim.
En Lilja Rós heldur sig alveg við það að perlan hafi bara lent í nefinu á henni, hún setti hana ekki þar, ó nei.

Tuesday, November 20, 2007

Jólin nálgast

Það er alveg ótrúlega stutt í jólin og í dag er nákvæmlega mánuður þangað til ég flýg heim með börnin. Þangað til sá dagur kemur er samt nóg að gera, það eru verkefnaskil, próf, og svo auðvitað reynir maður eins og hægt er að hafa aðventuna notalega fyrir Lilju Rós og Jóhann.
Reyndar sé ég ekki fram á að vera mikið heima frá 3.desember til 19.desember en hin þrjú hljóta að geta skapað notalega jólastemningu.

Annars hafa síðastliðnir dagar verið rólegir hjá okkur, ælupestin bankaði reyndar upp á í rúman sólarhring en það er vonandi búið og í gær og í dag hef ég verið að vakta hluta á drengnum sem er sunnar en höfuðuð til að athuga hvort gestir séu þar í heimsókn, (if you know what I mean).

Thursday, November 15, 2007

Afmæli

Þá er litli gaurinn minn orðinn tveggja ára, rosalega líður tíminn hratt.
Hann hlustaði á afmælissöng í morgun og klappaði vel fyrir mér og Lilju Rós að honum loknum.

Saturday, November 10, 2007

Tæknin að stríða mér

Sjónvarpið okkar var að bila í dag í annað skiptið á hálfu ári, finnst ykkur það ekki mikil gæði? Tækið er ekki orðið tveggja ára gamalt þannig að það er ennþá í ábyrgð en ef þetta á að vera svona næstu árin þá er alveg eins gott að henda því næst þegar það bilar (s.s. í apríl) og kaupa nýtt. Kannski ágætt að það bilaði í dag því ég er búin að vera dugleg að taka til og þrífa, með útvarpið í gangi.

En það er best að fara að setja í nokkrar tertur svo engin fari svangur héðan á morgun :)

Friday, November 09, 2007

Afmæli

Hann á afmæli í dag,
hann á afmæli í dag,
hann á afmæli hann Tommi
hann á afmæli í dag.

Já eins og nokkrir aðrir í minni fjölskyldu þá á Tommi afmæli í dag. Svo á Jóhann afmæli eftir tæpa viku og afmælisveisla fyrir hann verður haldin 11.nóvember. Nóg að gera í þessum afmælishöldum, bara gaman að því.
Ég á núna að vera að læra, baka, vera í Bónus, ganga frá þvotti, þrífa en í staðinn þá ákvað ég að fá mér kaffi og setjast fyrir framan tölvuna.

Monday, November 05, 2007

Það þarf nú lítið til að setja mig út af sporinu, og vinnuveitendum Tomma tekst að gera það núna rúmlega einu sinni í mánuði. Ég er farin að halda að hluti af þeirra starfslýsingu sé að búa til amk eitt nýtt vaktaplan í hverjum mánuði. Nú er búið að hringla enn einu sinni í vöktunum hjá "drengnum" þannig að núna er hann ekki á vakt um jól heldur um áramótin, og er á vakt nánast alla prófatörnina mína :(
En þar sem ég hef fulla trú á þessum mönnum og þeirra hæfileikum þá bíð ég spennt eftir næsta plani sem ætti samkvæmt mínum útreikningum að koma eftir tæpar 4 vikur.
En við hjónaleysin erum búin að ákveða að hvort sem hann verður að vinna um jól eða ekki þá fer ég austur með börnin og jafnvel hann líka um jól og ætla að hafa það rosagott þar.
Mér skilst að búið sé að skipta um hurðir BARA fyrir okkur og það verði bakaðar skonsur í hvert mál.

Annars er ekkert að frétta af okkar daglega lífi, Jóhann ræðir mikið um "sikka" og "sokka" (hvað haldið þið að það sé?), og Lilja Rós býður spennt eftir að hætta á leikskólanum svo hún geti gefið öllum krökkunum á deildinni ís eins og lög gera ráð fyrir þegar maður hefur skólagöngu. (N.B. það eru tæp 2 ár í það)

Saturday, November 03, 2007

Laugardagur

Skóli á eftir, Bónus eftir það og svo bara njóta þess að vera með fjölskyldunni.
Á morgun er svo afmæli hjá Bjössa og Karen og Lilja Rós er búin að hlakka til alla vikuna.
Sem sagt ósköp róleg helgi framundan sem eru yfirleitt bestu helgarnar.