Friday, December 26, 2008

Jæja þá er komið að því, ég flýg ásamt Jóhanni og Lilju Rós austur á Egilsstaði á morgun. Tommi kemur svo síðar. Krakkarnir hlakka til að hitta fólkið og Jóhann segist vera búinn að útbúa tækifæri handa Álfheiði og Katrínu (hvað sem það nú þýðir).
Við erum búin að hafa það mjög gott yfir jólin, ég hef ekki farið úr húsi síðan á þorláksmessu en úr því verður bætt á eftir því við erum að fara í mat til verðandi tengdó.

Óska öllum áframhaldandi gleðilegra jóla, og farsældar á komandi ári :)

Friday, December 19, 2008

Jólafrí

Jæja þá er síðasta prófið búið, skilaði því rétt eftir hádegi í dag.
Nú ætla ég að njóta jólaundirbúnings með börnunum mínum, éta smákökur, versla pínulítið og hafa það gott hér heima.
Við ætlum að eyða aðfangadagskvöldi heima hjá okkur í fyrsta skipti í þrjú ár, Lilja Rós varð eitt bros þegar ég sagði henni að við yrðum heima hjá okkur, en hún var reyndar ekki minna ánægð þegar ég sagði henni að við færum austur til að vera þar yfir áramótin. Hlakka mikið til að hitta fólkið mitt :)

Saturday, December 13, 2008

Jæja, þá er eitt próf búið. Það var í frekar áhugaverðu fagi sem kallast Skattskil, og gekk svona "la,la". Þetta verður bara allt að koma í ljós. Mér finnst reyndar stundum eins og HÍ vilji að sem fæstir nái miðað við prófin sem lögð eru fyrir okkur. Þetta fimmta önnin mín við þennan skóla og ég held að það sé öruggt að segja að prófið sem ég tók á miðvikudaginn var eitt af þeim allra erfiðustu sem ég hef tekið við þennan skóla. Sem dæmi má nefna að ég byrja alltaf á því að renna yfir prófið í heild sinni til að róa mig niður ef ég skyldi nú ekki vera klár á fyrstu spurningunni, en OMG, þarna, þá bara fannst mér ég "skrolla" og "skrolla" og aldrei kom spurning sem ég var klár á. Ekki góð tilfinning, samt var ég búin að læra og læra. Ég veit að fólki fannst prófið almennt of langt og frekar erfitt (enda ég ekki sú klárasta sem gengur um gangana þarna) og var ég eiginlega bara fegin að heyra það.

Ég á ennþá þrjú próf eftir og mér til mikillar lukku þá eru þau eftirfarandi daga: 17., 18., og 19.desember. Bara gaman :)
Ég verð sum sé að læra næstu daga (kemur á óvart) nema á morgun, því Tommi er að vinna og þó ég hafi nú reynt að vorkenna mér á andlitsdoðrantinum þá hefur engin(n) boðist til að passa, merkilegt nokk!!

En jólin nálgast, og eins og hefur komið hér fram þá er ÉG búin að baka SEX smákökusortir (ég er ekkert montin, neinei), skreyta allt hér, kaupa í jólamatinn og við erum bara nánast tilbúin fyrir jólin. Jólatréð verður reyndar sett upp seinna, of snemma að mati heimasætunnar því hún vill að það verði ekki skreytt fyrr en á aðfangadag. Mamman er nú ekki alveg sammála því ;)

Haldið áfram öll að njóta aðventunar, mikið þætti mér nú samt gaman að vita hverjir eru að kíkja hingað inn.............er þetta alltaf bara sama fólkið.............eða eru einhverjir leynigestir????

Sunday, December 07, 2008

Ég var að knúsa son minn um daginn og sagði við hann um leið "þú ert svo mikil rúsína". Þá horfði Jóhann á mig í smástund og sagði svo "og þú ert banani"
Þar hafið þið það ;)

Wednesday, December 03, 2008

Próf, próf og aftur próf

Ég er í Gimli þessa dagana að læra (og blogga greinilega;))
Ef einhvern langar í Hámu-kaffi endilega mætið á svæðið.