Sunday, November 30, 2008

Mont

Nú bara verð ég að monta mig aðeins. Þetta þykir ábyggilega ekki mikið afrek á heimilum á borð við heimili systra minna en ég er líka löngu hætt að reyna að bera mig og mína húsmóðurhæfileika við þeirra.
Jóhann er búinn að vera lasinn síðan á fimmtudag og hvað gerði ég, jú ég bakaði smákökur fyrir jólin. Og af því að ég geri yfirleitt ekki hlutina með hangandi hendi þá er staðan sú núna að hér eru til sex tegundir af smákökum (heimabökuðum) og allar rosalega góðar að sjálfsögðu.

Á morgun tekur svo próflestur við, Tommi verður heima með drenginn, og ég er að hugsa um að taka með mér fullt af smákökum upp í skóla.

Saturday, November 22, 2008

Brandari

Þetta finnst mér mjög fyndið. Vil nú samt taka það fram að ég er ekki á móti honum Davíð á nokkurn hátt, er ekki á móti hans flokki eða neitt svoleiðis. Finnst bara brandarinn fyndinn, vona að ég móðgi engan.
Gjörið svo vel, ég hló að minnsta kosti :)

Íslenskur lýtalæknir var staddur á ráðstefnu erlendis með kollegum sínum. Eftir langa og stranga dagskrá ráðstefnunnar héldu ráðstefnugestir á öldurhús og gerðu sér glaðan dag. Eftir því sem líða fór á kvöldið og nóttina þynntist hópurinn og loks sátu einungis þeir þaulsetnustu efir.
Þegar þeir höfðu ekkert meira að tala um fóru þeir að segja hetjusögur af þeim afrekum sem þeir höfðu unnið á skurðborðinu.

Bretinn sagði sögu af því að hann ásamt teymi sínu hafi tekið á móti sjúklingi sem missti hendina í prentsmiðju. Á sjúklinginn græddu þeir nýjan handlegg, lófa og fingur og eftir að hann kom til starfa aftur varð hann svo góður og öflugur verkmaður að hann vann á við 4 og því fóru þrír á atvinnuleysisskrá sem áður störfuðu hjá fyrirtækinu.

Rússneskum lækni fannst ekki mikið til þess koma og sagði frá manni sem lent hafði inn í kjarnaofni. Þeir fengu ekkert annað en hárið inn á skurðborðið til sín, græddu á það búk, höfuð og útlimi. Þessi maður var svo góður verkmaður þegar hann sneri aftur til starfa að hægt var að segja upp heilli vakt í kjarnorkuverinu, 9 manns fóru á atvinnuleysisskrá.

Íslenski læknirinn sagði iss við þessari sögu. Ég var einu sinni staddur niðri í Austurstræti og fann rosalega vonda prumpulykt. Ég veiddi hana í poka og brunaði með hana upp á Borgarspítala og skellti henni á skurðborðið. Við græddum á þetta búk, höfuð og útlimi og enduðum með að setja krullur ofan á þetta allt saman.
Úr þessu varð Davíð Oddsson og hann er á góðri leið með að setja alla þjóðina á atvinnuleysisskrá.

Tuesday, November 11, 2008

Það eru "allir" að kvarta yfir þessu kvarti í mér þannig að ég ætla að setja nýja færslu hér.
Ég ætla ekki að skrifa um kossageitina sem sonur minn fékk og þurfti þar af leiðandi að fara á pensilín og ég ætla heldur ekki að minnast á ælupestina sem bæði börnin fengu meðan þau voru í pössun hjá tengdamömmu og gerði það að verkum að ekkert varð úr því sem Tommi höfðum ætlað að gera meðan við værum barnlaus ;)

Ég ætla heldur ekki að minnast á að það er brjálað að gera í skólanum, verkefnin hrannast upp og það styttist stöðugt í prófin og ég verð stressaðri og stressaðri með hverjum deginum sem líður :S

Hins vegar má nefna að það er spennandi helgi framundan en þá verður Jóhann þriggja ára og við erum búin að bjóða góðu fólki í heimsókn og þetta verður án efa skemmtilegt. (já Heiðrún, það verður brauðterta í boði ;))