Saturday, December 29, 2007

Ég er ennþá fyrir austan, á Eyjólfsstöðum nánar tiltekið í góðu yfirlæti.
Hér er góður matur, gott jólaöl, og það sem skiptir mestu máli er að börnin una sér vel.
Tommi kom að kvöldi 22.des og fór aftur að morgni 26.des.
Á gamlárskvöld koma svo Elfa og fjölskylda hingað til okkar og við ætlum öll að borða saman og hafa það gaman.
Ég er orðin enn ákveðnari í því að þegar námið hjá mér er búið þá langar mig að flytja út á land, og vonandi taka allir vel í það í fjölskyldunni, þó ég efist nú reyndar um það ;)

Ég hef ennþá ekki ákveðið hvenær ég fer aftur suður eftir áramótin, og ég finn fyrir örlítilli hræðslu hjá Álfheiði og fjölskyldu um að ég verði hér að eilífu.

Ef ég blogga ekkert fyrir áramótin þá óska ég öllum gleðilegs nýs árs :)

Wednesday, December 19, 2007

Jólin, jólin, jólin koma brátt

ÉG ER KOMIN Í JÓLAFRÍ :)

Fer austur með börnin á morgun, og mun örugglega ekki blogga fyrr en eftir áramót.

Óska öllum sem þetta lesa gleðilegra jóla og vona að allir hafi það gott yfir hátíðirnar.


Kveðja,
Jóla - Védís

Saturday, December 15, 2007

Ný útgáfa

Ég er á hlöðunni að læra en ég bara varð að setja þetta hér inn.
Lilja Rós var að syngja fyrir mig í gær og svona hljómaði það:

Bráðum koma blessuð jólin
börnin fara að hlakka til.
Allir fá þá eitthvað fallegt,
í það minnsta kerti og SPIK
Það er ekki nokkur leið að fá hana til að viðurkenna það að það eigi að vera spil.
Svona syngjum við þetta á leikskólanum, var svarið sem ég fékk.

Friday, December 14, 2007

Fínn dagur í dag

Þetta er búin að vera fínn dagur í dag, þrátt fyrir rokið og rigninguna sem kom aðeins inn í stofu til mín.
- Ég fékk fyrstu einkunnina mína í dag og er þokkalega ánægð með hana.
- Ég tók próf númer tvö í dag og það gekk ágætlega held ég.
- Í morgun "fauk" bíll á minn bíl, (fauk er innan gæsalappa því þetta var svo lítið tjón) alltaf gaman að því þegar maður þarf að fara að standa í þessu tryggingarveseni sem svona fylgir.

Nú eru bara 6 dagar þangað til ég og krakkarnir fljúgum austur og við hlökkum bara til, og bara 5 dagar þangað til ég er komin í jólafrí til 7.janúar.

Sunday, December 09, 2007

Í gær...

- tók ég próf í International Business
- fór ég með börnin í jólaklippingu
- keypti ég jólagjafir handa börnunum mínum
- fór ég á málverkasýningu hjá vinkonu minni, mikið voru það fallegar myndir
- fór ég á jólahlaðborð á Hótel Loftleiðum, rosalega góður matur og góð þjónusta
- fór ég að sofa fyrir miðnætti barnlaus og svaf til rúmlega átta í morgun :)

Í dag ætla ég að gera nákvæmlega ekkert sem tengist skólanum, bara þvo þvott, fara og versla (ekki veitir af því ég er núna að drekka kaffi með mjólk sem hleypur), og kannski vera örlítið meiri húsmóðir en ég er búin að vera í tæpar 2 vikur.

Saturday, December 08, 2007

Próf á eftir

Fyrsta prófið er eftir rúman klukkutíma og ég er svo stressuð akkúrat núna að ég gæti gubbað.
Alveg ótrúlegt hvað maður lætur þetta hafa áhrif á sig, ekki eins og himin og jörð farist þó fall verði raunin, annað eins hefur nú gerst.

En vonandi gengur þetta ágætlega og vonandi held ég öllu niðri :)

Saturday, December 01, 2007

Desember genginn í garð

Núna er ég búin að kaupa allar jólagjafir fyrir utan tvær sem verða keyptar á EGS og svo á ég eftir að finna gjafir handa börnunum mínum. Jólakortin eru komin í hús frá Hans Petersen og ég get sagt ykkur að það var lööööng leið fyrir blessuð kortin. Eitthvað af skrauti er komið upp og þrjú dagatöl fyrir börnin, ekki má nú minna vera.
Við Lilja Rós erum búnar að vera svakalega duglegar og föndra yfir 20 jólakort sem hún ætlar að setja í hólfin hjá þeim krökkum sem eru með henni á deild á leikskólanum, þetta er gert að hennar eigin ósk. Búið er að skreyta slatta af piparkökum bæði í Garðabæ og í Reykjavík, það er sko nóg að gera hjá okkur þessa dagana og bara gaman að því.
Ég reyni að læra eins og ég get miðað við aðstæður, það er nú eitthvað afskaplega takmarkað en ég verð víst bara að reyna að gera gott úr þeim tíma sem ég fæ. En ef einhvern langar óskaplega að taka að sér börn í desember þá er bara að taka upp símann og hringja :)