Wednesday, June 28, 2006

Myndataka


Ég missti mig aðeins með myndavélina í dag og smellti af nokkrum sinnum. Hér er ein mynd. Ég tek það fram að drengurinn er að fara í klippingu í næstu viku, ekki veitir af.

Saturday, June 24, 2006

Jæja, vorum að koma heim úr grillveislu á Akranesi. Góð vinkona mín var að útskrifast frá Háskóla Íslands í dag og við fórum að samgleðjast henni með þennan merka áfanga.
Annars er allt ósköp rólegt hérna hjá okkur. Dagurinn í dag fór að einhverju leyti í verslun eins og gengur og gerist um helgar stundum. En á morgun ætlum við að renna á fjölskyldumót sem haldið er einhversstaðar rétt hjá Gullfossi og Geysi í fjölskyldunni hans Tomma. Það verður gaman að sjá allt þetta fólk en ég hef ALDREI séð neinn úr þessari stórfjölskyldu. Held að ég sé ekki að skrökva því enda skrökva ég aldrei.

En hér fyrir neðan eru þrjár spurningar af því að ég var klukkuð af stóru systur minni, henni Álfheiði. Takk fyrir það syss.

Hvaða bók hefur haft mestu áhrif á þig?
Ég veit það nú ekki, en ég las Da Vinci Code þegar hún kom út og ég verð að viðurkenna að mér finnst margar hugmyndir sem koma þar upp nokkuð góðar og ég hugsa oft til þessarar bókar.
Hvers konar bækur lestu helst?
Spennusögur, spennusögur og spennusögur. Annars hef ég voða lítið lesið síðan börnin fæddust en það verður að fara að breytast.
Hvaða bók lastu síðast?
Ég get svarið að ég man það ekki, en hún er eftir Dan Brown.

Og þar hafið þið það gott fólk.

Wednesday, June 21, 2006

Fréttir

Jæja er ekki komin tími á að setja eitthvað hér inn?
Hér var haldin afmælisveisla í tilefni þriggja ára afmælis Lilju Rósar síðastliðinn sunnudag og fór hún bara nokkuð vel fram. Ég gerðist nú svo djörf að panta afmælisköku, nennti ekki að baka hana sjálf og skammast mín ekkert fyrir það, heimavinnandi húsmóðirinn.
Jóhann ákvað svo að fá sína fyrstu tönn á sjálfan kvenréttindadaginn (heitir hann það ekki annars), gott hjá honum.

Svo er komið að aðalfréttinni.
Ég fór í vinnuna mína í dag og sagði upp, já þið lásuð rétt, ég sagði upp.
Ég er að fara í viðskiptafræði í Háskóla Íslands í haust og ætla mér að útskrifast þaðan með BS próf eftir þrjú ár. Uppsögnin gekk vel og best var að yfirmaður minn vill endilega að ég hafi samband við hann í haust þegar ég er byrjuð og vinni aðeins með skólanum ef ég treysti mér til. Eru það ekki fín meðmæli frá honum að vilja ekki missa mig alveg? Það held ég nú.

En þetta er nóg í bili, kallinn var að koma heim úr vinnu og situr og snæðir kaldan kvöldverð. Best að spjalla við hann.

Hafið það gott þangað til næst

Saturday, June 17, 2006

Þetta er bara fyndið....................................

Þetta finnst mér fyndið, vona að ég móðgi samt engan.
(En þið megið alveg kommenta á hvað ég á að gera næstu 3 árin, þið standið ykkur ekkert vel í því....)

Velkominn í þjónustusímann hjá Kleppi.

Ef þú þjáist af…
..þráhyggju, skaltu ýta í sífellu á 1
..ósjálfstæði, skaltu fá einhvern til að ýta á 2
..klofnum persónuleika, skaltu ýta á 3, 4, 5 og 6
..ofsóknarbrjálæði, þá vitum við hver þú ert og hvað þú vilt. Bíddu á
línunni svo við getum rakið samtalið
..ranghugmyndum, veldu 7 og við gefum þér samband við móðurskipið
..þunglyndi, þá skiptir ekki máli á hvaða hnapp þú ýtir - það svarar þér
enginn hvort eð er
..lesblindu, skaltu velja 696969696969
..taugaveiklun, skaltu fitla við ferninginn þar til einhver svarar
..minnisleysi, skaltu velja 8 og segja nafn þitt, kennitölu, símanúmer,
fæðingardag, heimilisfang, skónúmer og fullt nafn móður þinnar
..óákveðni, skaltu skilja eftir skilaboð á eftir tóninum eða á undan tóninum
eða á eftir tóninum. Vinsamlega bíðið eftir tóninum.
..skertu skammtímaminni, veldu 9
..skertu skammtímaminni, veldu 9
..skertu skammtímaminni, veldu 9
..skertu skammtímaminni, veldu 9

Thursday, June 15, 2006

Rólegheit

Ég veit svo sem ekki hvað ég að skrifa því það er allt ósköp rólegt hér hjá okkur í Breiðholtinu þessa dagana.

Ég er ennþá að velta því fyrir mér hvað ég á að gera af mér næstu 3 árin, þið sem ég hef talað við nýverið áttið ykkur á því hvað ég er að tala um en þið hin megið bara geta ;)
Ætli ég haldi ekki bara áfram að rembast við að ákveða þetta, og þið megið að sjálfsögðu segja ykkar skoðun á málinu.

Tuesday, June 13, 2006

Komin heim...........

Jæja þá er maður komin heim aftur. Allt gekk þetta vel og allir ánægðir með síðustu daga held ég.

Svo er bara afmæli á morgun, Lilja Rós orðin 3ja ára, og svo veisla á sunnudaginn. Eitthvað eru nú samt fáir í bænum þann dag en við þessi fáu sem ætlum að vera þarna skemmtum okkur bara enn betur ;)

Er of þreytt eftir þessi ferðalög til að skrifa eitthvað gáfulegt, bið að heilsa í bili.

Tuesday, June 06, 2006

Ferðalög framundan

Jæja, er nýkomin heim af Kaffi París með henni Gunnu þar sem við spjölluðum um heima og geima. Ætla ekkert að fara nánar út í það hér. En það er alltaf gott að komast út í smá spjall.
Svo á morgun keyri ég austur á Höfn en þar er ég að fara að kveðja hana ömmu mína sem lést fyrir tæpri viku síðan. Ætla mér að koma aftur í bæinn á föstudaginn, og leggja svo aftur land undir fót nema nú ásamt börnunum og þá liggur leið okkar norður á Blönduós að skoða lömbin. Eða það er að minnsta kosti það sem hún Lilja Rós ætlar að gera. Þannig að ekkert blogg fyrr en eftir miðja næstu viku fyrst maður á ekki fartölvu ;)
En maður bætir nú úr því ef maður fer í skólann í haust.

Jæja kveð ykkur í bili

Monday, June 05, 2006



Svona á að gera þetta, stundum er gott að eiga eldri systur ;)

Góður gærdagur og góður morgun

Komið þið öll sæl.
Hvítasunnan hefur nú verið afskaplega róleg hérna hjá okkur í Breiðholtinu, Tommi á vaktinni þannig að ég og börnin erum bara að dunda okkur.
Í gær voru rólóvellir heimsóttir og dagurinn endaði í kaffi og rjómatertu í Garðabæ.
Svo komst ég að því í morgun að ég hlýt að eiga bestu börn í heimi því þau leyfðu mér að "sofa" til að verða hálftíu í morgun. Svo sitja þau núna saman og horfa á sjónvarpið milli þess sem Lilja Rós fræðir Jóhann um ýmis heimsmál.
Alltaf gaman að hlusta á þær samræður :)

Vona að þið hafið það öll gott í dag, bið að heilsa í bili.

Sunday, June 04, 2006

HJÁLP

Ég er búin að komast að því að ég ein get ekki komið mynd hér inn.
(ég hélt sem ég væri svo agalega klár á tölvur)
Ef einhver á aulaleiðbeiningar þá væru þær vel þegnar akkúrat núna :)

Á maður ekki alltaf að prófa eitthvað nýtt??

Ég ætlaði í sakleysi mínu að "kommenta" hjá kunningjakonu minni en til þess að geta það þá þurfti ég að "signa" mig inn á þetta blogspot dót.
Ég gerði það og hér er ég, og ákvað að sjálfsögðu í beinu framhaldi að blogga.

Þið kæru vinir kannski látið mig vita hvort ég eigi að gera alvöru úr þessu með því að skrifa athugasemdir svo ég viti hvort einhverjir lesa þetta.

Ekki það ég kann ekkert á þetta og get örugglega aldrei skrifað neitt inn aftur og hvað þá lesið það sem þið skrifið hér inn, svoddan tölvunörd ;)