Wednesday, October 04, 2006

Síðasta færslan í bili

Jæja gott fólk, eftir þó nokkrar vangaveltur hef ég ákveðið að hætta að skrifa hérna inn.

Upphaflega ætlaði ég ekki að blogga heldur að setja hér inn myndir en þar sem ég er ekki byrjuð á því þá ætla ég að hætta þessu.
Ef ég einhvern tímann hef mig í að koma upp myndaalbúmi hér þá kannski byrja ég aftur.

Bið að heilsa ykkur öllum, og takk fyrir að hafa kíkt hér inn.

Wednesday, September 27, 2006

Gamla kellan

Ég á afmæli í dag,
Ég á afmæli í dag,
Ég á afmæli lala
Ég á afmæli í dag.

Bara svona láta ykkur vita

Monday, September 25, 2006

Gettóið

Við fluttum hingað í Austurbergið í lok nóvember 2003, þannig að við erum að verða búin að búa hér í þrjú ár bráðum. Í heildina þá líður okkur vel hér og erum ekkert að fara neitt á næstunni, (ekki nema ég vinni í lottói, en þá þarf ég víst að tíma að kaupa miða í því).
Á þessum þremur árum, hafa póstkassarnir einu sinni verið sprengdir upp með flugeldi, Tommi hefur slökkt eld í mottunni í forstofunni sem einhverjir unglingar úr Mosfellsbæ höfðu kveikt sér til skemmtunar, ég greip tvær unglingsstelpur með logandi pappírssnifsi í höndunum inni í þessari sömu forstofu um daginn, og svo í dag þegar ég kom heim þá var búið að mölva einn póstkassann með hellusteini og krota á þrjá. Og varla þarf ég að taka það fram að auðvitað er það kassinn okkar sem var mölvaður.
Á svona stundum líður manni ekkert vel að vera með börn hérna, ég ræð við mölvaða póstkassa og krot, við látum ekki lífið af því en að kveikja hér í, það er allt annað mál.
En svona er víst að vera venjulegur borgari hér í Reykjavík sem nennir að vinna og fær þannig laun í vasann að maður flokkast ekki undir fátækling. Við þurfum að búa í svona hverfi, það er ekki fyrir hvern sem er að fjárfesta hér í almennilegum húsum.
Heppnir þeir sem geta búið í einbýlishúsi einhversstaðar í góðum hverfum og þurfa kannski ekki að hafa eins miklar áhyggjur af því á nóttunni að það verði kveikt í.
Kannski er þetta nú samt bara vitleysa í mér og óþarfa áhyggjur, eða hvað finnst ykkur?

Friday, September 22, 2006

Enn ein helgin að bresta á og svo sem ekkert sérstakt sem við litla fjölskyldan ætlum að aðhafast. Sunnudagaskólinn er reyndar á dagskránni hjá mér og Lilju Rós eins og undanfarna sunnudaga. Ég veit nú ekki hvort hún áttar sig á því út á hvað þetta allt saman gengur en henni finnast að minnsta kosti lögin skemmtileg og ekki skemmir fyrir að á límmiða í sunnudagaskólabókina eftir hvert skipti. Mér hins vegar finnst þetta bara gaman og ætla að reyna að vera dugleg að fara með skottuna.
Næsta vika verður svo viðburðarík, að mínu mati ;)
En það er afmæli næsta miðvikudag hér á heimilinu og svo fer ég erlendis á fimmtudag ef einhver sem les þetta hefur misst af því.
Við Gunna erum báðar búnar að ákveða að versla ekki mikið, er þá ekki 200% öruggt að við verslum eins og brjálæðingar? Er það ekki alltaf svoleiðis hjá okkur kvenfólkinu.

Svo ætla ég hér í lokin að skella inn einni mynd frá því í sumar.


Sunday, September 17, 2006

Utanlandsferð

Svo sem ekkert að frétta nema að ég er að fara til útlanda eftir rúma viku og mikið xxxxxxx hlakka ég til.
Ætla að skella mér til Dublin þann 28.september dvelja þar fram til sunnudags ásamt góðri vinkonu. Skil kallinn eftir heima :)

Friday, September 15, 2006

Afmæli

Óska hér með Álfheiði systur til hamingju með bóndann, hann á nefnilega afmæli í dag, orðin 39 ára maðurinn. Afi minn á svo afmæli á morgun, hann er örlítið eldri kannski svona ca 50 árum því hann verður 89 ára ef ég man rétt. Og þetta er ekki búið gott fólk því ég er 99% viss um að Elfa systir og Jói hennar eigi brúðkaupsafmæli á morgun. Til hamingju með þetta allt saman gott fólk.
(er nú samt nokkuð viss um að afi les þetta ekki :) )

Wednesday, September 13, 2006

Happy,happy

Tvennt gott gerðist í dag og ég bara verð að deila því með ykkur.

Í fyrsta lagi:
Ég fann LOKSINS barnapíu sem mun sækja börnin þessa tvo daga í viku sem ég er aðeins frameftir í skólanum og vera með þau eitthvað örlítið framyfir kvöldmat. Fann hana í gegnum barnaland.is, hún er 20 ára og á bíl þannig að ég vona að þetta gangi vel. Hún kom hér í dag og kíkti aðeins á okkur og okkur leist bara nokkuð vel á hana.

Í öðru lagi (langaði dálítið að setja þetta í fyrsta sæti en kunni ekki við það):
Uppþvottavélin er tengd. Fyrsti þvottur fer fram as we speak. Vonandi gengur hann vel.

Þá er ekki meira að frétta úr Breiðholtinu, over and out.

Thursday, September 07, 2006

Er ekki komin tími á smá skrif.
Ég er mjög ánægð í skólanum, so far amk.,búin að sitja tvisvar í þjóðhagfræði og ótrúlegt nokk, það finnst mér skemmtilegt fag. Ég fór í þetta fag í ME og gat aldrei skilið út á hvað það gekk.
Svo eru bara veikindi hér á heimilinu, litli gaurinn bara lasinn, búin að vera með hita í rúma 2 daga og sefur nánast ekki neitt og í þessum skrifuðu orðum þá er hann að vakna og reka upp vein. Það er best að fara að sinna honum.
Verið sæl í bili.

Friday, September 01, 2006

Jæja þá er gestirnir farnir og námskeiðin búin.
Það var voða fínt að hafa mömmu og Elfu hér, vorum kannski aðeins of mikið á flakki en gerist það ekki alltaf þegar fólk heimsækir höfuðborgina.

Svo byrjar bara skólinn á fullu hjá mér á mánudaginn og svei mér þá ef ég hlakka ekki bara til.
Hef mestar áhyggjur að ég verði ekki búin að finna mér barnapíu í tíma, og hvað gera bændur þá??

Annars er allt við það sama hér, Tommi greyið varð reyndar fyrir því óláni í dag að lenda í árekstri. Hann stoppaði á rauðu ljósi eins og maður á víst að gera og fékk þá einhverja góða konu beint aftan á sig. Þeir sem til þekkja vita víst að hann hefur átt við bakmeiðsli að stríða í tæp tvö ár eða síðan það var síðast keyrt á hann. Þetta varð nú ekki til að bæta ástandið og hann kom bara heim úr vinnu og liggur nú fyrir.
Var reyndar búin að lofa að vinna á morgun og langar að standa við það loforð. Hann verður víst að fá að ráða því sjálfur.

Jæja gott fólk, er þetta ekki nóg í bili. Munið svo bara að kjósa Magna aftur í næstu viku.

Saturday, August 26, 2006

Gestir

Mikið verður nú gaman hjá mér í næstu viku, þá koma nefnilega mamma og Elfa systir hingað suður, á mánudaginn nánar tiltekið og þær ætla að gista hér í 2 nætur. Ekki löng heimsókn en alltaf gaman að fá þær. Ég held að þetta sé í fyrsta skipti sem mamma gistir hjá mér, enda kannski ekkert gaman að fá ekki að sofa nema til 7 þegar maður er í "fríi".

Tuesday, August 22, 2006

Haust

Ætli það sé strax komið haust? Það er svo haustlegt úti, svo heyri ég vindinn væla þarna fyrir utan gluggann hjá mér og fæ bara hálfgerðan hroll. Ég vona að þetta sé ekki komið til að vera. Annars veit maður aldrei. Samt hlakka ég nú líka til vetrarins, fá smá snjó. Alltaf gaman að fá hann, eruð þið ekki sammála?

Annars er nú ekki mikið að gerast hjá okkur, allt er að komast í fastar skorður fyrir veturinn. Lilja Rós er byrjuð á "stóru" deildinni á leikskólanum og líkar bara vel. Henni finnst hún orðin mjög fullorðin og styttist alltaf í það að hún verði kona, eins og hún segir. Það er nefnilega svo margt sem hún getur gert þegar hún verður kona, þá ætlar hún að skipta á bróður sínum, og þá getur hún matað hann eins og ég geri. (Ég vona nú samt að hann verði nú hættur á bleiu þá og farin að geta borðað sjálfur).
Jóhann er búin að vera hjá dagmömmunni í rúmlega viku núna og það gengur bara mjög vel. Varla hægt að segja að 9 mánaða barni líki vel einhversstaðar, ætli sé ekki réttara að segja að honum virðist líða vel þar.

En ætli sé ekki best að fara aftur í lærdóminn og vona að sólin sé ekki langt í burtu.

Thursday, August 17, 2006

Ennþá lifandi

Já gott fólk ég er enná lífi. (ef einhver var farin að sakna mín)
Ég hef bara verið svo löt undanfarna daga, ég get víst ekki afsakað mig með að ég hafi mikið að gera því mér finnst ég ekki hafa neitt að gera. Ég er helst upptekin þessa dagana við að sitja úti á svölum og reikna eða prjóna.
Er nefnilega að nota garnafganga og prjóna trefil handa dúkkunni hennar Lilju Rósar, ekki mjög flókið það veit ég vel en ég er þó að prjóna.
Síðasti tíminn í stærðfræðinni er svo á morgun og ég verð nú að viðurkenna að ég verð alltaf meira og meira undrandi hvað ég á að kunna mikið í stærðfræði. Ég verð sko greinilega að æfa mig í vetur.
Svo byrjar reikningshaldið á laugardaginn og stendur yfir í aðrar tvær vikur. Bara gaman.

Og svo ég vaði nú úr einu í annað þá var ég að horfa á Rockstar Supernova, úrslit kosninga þessarar viku (á Skjá 1 +) og mikið svakalega er hann Magni að standa sig vel. Fannst Starman flott hjá honum og Creep líka mjög flott.
Verst að þátturinn næsta þriðjudag hefst ekki fyrr en kl.2, honum var seinkað.
En ég hef ákveðið að vakna bara 15 mínútum fyrr en venjulega næsta miðvikudagsmorgun og kjósa hann á netinu. Maður nær því nefnilega ef maður vaknar bara aðeins fyrr en venjulega. Vildi bara benda ykkur á það.

Ég kveð í bili og óska hér með þeim fjölskyldumeðlimum sem verða á Kirkjubæjarklaustri góðrar skemmtunar um helgina. Því miður þá kemst ég ekki í þetta skiptið, grát.......grát.

Friday, August 11, 2006

Veldi, rætur, lógaritmar, mengi......................

Jæja, nú er maður bara byrjaður að reikna, og það á fullu get ég sagt ykkur. Byrjaði á stærðfræðinámskeiði síðasta þriðjudag bæði kvölds og morgna. Þetta er mjög gaman en mikið helv........... er maður ryðgaður, svona fyrir utan það að ég hef aldrei heyrt um helmingin af því sem við eigum að kunna.
Það er ein vika eftir af þessu og þá tekur strax við annað námskeið sem er í reikningshaldi. Ég vil nú vera vel undirbúin fyrir 4.september takk fyrir takk.

Annars hef ég nú ekki meira að segja í bili, allar mínar hugsanir snúast um stærðfræði þessa dagana þannig að ég held að ég sé ekkert skemmtileg þessa daga.

Eigið góða helgi öllsömul.

Monday, August 07, 2006

Ein ég sit og pús(s)la......................

Jæja nú ætla ég að taka sjálfa mig í gegn og taka fyrir sjónvarpsgláp og tölvuhangs á kvöldin, svona fyrir utan einn og einn þátt og smá blogg.
Ég keypti mér púsluspil um daginn og nú ætla ég að einbeita mér að því og eins var ég voða dugleg í krosssaumnum á Egilsstöðum (ef þið trúið mér ekki þá getið þið bara hringt í mömmu) og ætla að reyna að halda honum áfram.
Það sló mig fyrr í sumar að ég var að fylgjast með einum, stundum tveimur og stundum þremur þáttum á kvöldi, mátti ekki missa af neinu. Þetta er auðvitað ekki eðlilegt og svo hékk maður í tölvunni þegar enginn þáttur var. Fyrr má nú vera letin.
Annars er allt gott af okkur að frétta, komum suður í gærkvöldi. Allir ánægðir en þreyttir eftir 10 tíma ferðalag.
Svo byrjar vinna hjá Tomma á morgun og leikskóli hjá Lilju Rós og svo er ótrúlega stutt í að Jóhann byrji hjá dagmömmu. Þetta er allt að vera eðlilegt hjá manni aftur.

Sunday, July 30, 2006

Falleg frændsystkini

Lilja Rós og frændi hennar, hann Árni Jökull, eru hér saman að róla á ættarmóti sem haldið var á Jökuldal fyrir stuttu síðan. Þau ná svo vel saman í þessari Egilsstaðaheimókn okkar að það er alveg frábært. Nú er ég búin að gista hjá Álfheiði systur í tvær nætur og þau eru svo góð saman.
Enda með eindæmum vel upp alin börn ;)
Kveð í bili, læt kannski heyra frá mér áður en ég fer aftur suður.

Tuesday, July 25, 2006

Sólbrennd og sæl

Eins og sést á titlinum þá er ég orðin örlítið sólbrennd, enda veðrið búið að vera fínt síðan ég kom fyrir utan fyrsta daginn og þá kvartaði ég hástöfum. Enda þýðir ekkert annað.
En af okkur er allt gott að frétta, ættarmótið var bara gaman. Svo erum við börnin bara búin að hafa það gott hér á Stekkjartröðinni góðu. Lilja Rós og Árni Jökull frændi hennar skelltu sér í heita pottinn hér úti í morgun og voru þar í yfir klukkutíma að ég held.
Bara snilld.
Svo er bara meiri afslöppun næstu daga, Tommi flýgur svo til okkar næsta þriðjudag og aldrei að vita nema við skellum okkur í eina stutta útilegu þá.

Jæja einhver bankar, best að fara til dyra.

Tuesday, July 18, 2006

Austur á morgun

Jæja, þá er komið að austurför. Leggjum að stað þegar börnin vakna í fyrramálið, leyfum þeim kannski að borða fyrst og fara í föt. Í fyrsta skipti í langan tíma þá vona ég að þau vakni um sjö ;)
Ætlum að keyra á Egilsstaði í einum rykk en stoppa að sjálfsögðu á Höfn og kíkja á einhverja vandamenn.
Veit ekki hvort ég blogga nokkuð á meðan ég er í sælunni, kemur í ljós.

Með þessum orðum kveð ég í bili og vona að sólin skíni nú á EGS næstu þrjár vikur. Gæti ekki verið meira sama hvernig veðrið í RVK verður, búin að fá nóg af því í bili. Hehehehe.

Thursday, July 13, 2006

Útsala, útsala

Jæja, ég komst heldur betur að því í dag að ég á EKKI að fara á útsölur í barnadeildinni í Next í Kringlunni. Fyrr má nú vera græðgin í barnaföt. Jú drenginn vantaði kannski 2-3 peysur en ég get sagt ykkur að ég fór út með miklu, miklu meira. Og kassakvittunin sem þessu fylgdi var bara nokkuð löng með fimm tölustafa upphæð í lokin. Haldið að maður sé ruglaður. En svona er þetta bara, og auðvitað bætti ég einni tösku við í safnið. Maður verður nú líka að kaupa eitthvað handa sjálfum sér.

Tuesday, July 11, 2006

Loksins eitthvað að gera.............

Hæ öllsömul!!
Það er aldeilis búið að vera gaman hjá mér síðustu daga. Fórum í Húsdýragarð og góða heimsókn á sunnudaginn, Töfragarðinn á Stokkseyri með Elfu systur og co í gær og svo fór í Kringluna í dag barnlaus (sem er alltaf gaman), og var svo með góða gesti meiripartinn af deginum.
Mikið voðalega finnst mér gaman að hafa nóg að gera. Búin að fá nóg af þessu aðgerðaleysi síðustu mánuði. Svo er bara næst að þrífa eldhúsinnréttinguna og skipuleggja þar upp á nýtt því meðan ég er fyrir austan með börnin þá ætlar Tommi ásamt bróður sínum að koma uppþvottavélinni okkar fyrir.
Ég á nefnilega uppþvottavél, hún stóð inní stofu fyrstu 5 mánuði ársins og unir sér nú vel í tölvuherberginu. Svona finnst mér gaman að vaska upp

Svo má ég nú ekki gleyma aðalatriðinu, við keyptum okkur tjaldvagn í gær, hann er 26 ára gamall (ég er ekki að grínast gott fólk), og kostaði okkur 40.000 íslenskar krónur. Geri aðrir betur.
Þetta er gamli tjaldvagninn þeirra mömmu og pabba. Elfa og Jói hafa átt hann undanfarin 2 sumur en keyptu sér "nýjan" í fyrradag og seldu okkur þennan.
Gaman að sjá hver í fjölskyldunni kaupir hann á eftir mér ;)

Jæja, nóg í bili. Veðurspáin fyrir morgundaginn er ágæt og ég vona að okkur takist að gera eitthvað skemmtilegt á morgun.

Saturday, July 08, 2006

Jæja er ekki komin tími á að skrifa eitthvað hér inn.

Nú fer að styttast í Egilsstaðaferð hjá okkur, við stefnum á að leggja af stað ekki seinna en 19.júlí, því það er ættarmót í Jökuldal 21.júlí og þar verður maður að vera.

Tommi og Lilja Rós eru bæði komin í frí, Lilja Rós í fjórar vikur en Tommi bara í eina, en við hljótum að geta gert eitthvað skemmtilegt saman þó það sé stuttur tími. Tommi byrjaði fríið sitt á því að fara í Rafting með nokkrum vinum sínum í dag og það endaði í grilli og einhverju að drekka og hann er ekki komin heim ennþá og ég býst ekki við honum alveg á næstunni.
Ég fór í dag með börnin ásamt Gunnu svilkonu og hennar börnum og systur hennar á Akranes á Írska daga. Þar var ansi kalt og nokkur vindur en það kom ekki að sök. Sum börn fengu andlitsmálningu, önnur pylsu og öll fengu þau candyfloss (nema Jóhann reyndar) og þau voru ánægð. Er það ekki það sem málið snýst um?
Svo fórum við í bílskúrinn hjá mömmu vinkonu minnar sem er að selja glerlistavörur sem hún gerir sjálf. Ég mæli með því að allir fari þangað því þetta var mjög fallegt hjá henni og á frábæru verði og við þrjár gengum allar út hlaðnar glervörum.

Annars er það að frétta af mér að ég er búin að borga skólagjöldin í HÍ fyrir skólaárið 2006-2007, þið verðið bara að þola það að ég ÞARF að tala um þessa skólagöngu mína í nánast hverri færslu, ég er bara svo spennt að byrja að það hálfa væri nóg. Er meira að segja búin að skrá mig á þrjú námskeið í ágúst til að vera betur undirbúin að takast á við þetta í september.

En jæja er þetta ekki orðið nóg í bili, vona að þið hafið nennt að lesa þetta allt saman.

Kveð í bili

Tuesday, July 04, 2006


Ég bara varð að setja inn þessa mynd til að sýna drenginn eftir klippingu. Þvílík breyting á einu barni.
Annars er ekkert að frétta af okkur, Álfheiður systir og fjölskylda eru að koma í mat á eftir og svo förum við Álfheiður eftir matinn að hitta tvær eða jafnvel þrjár frænkur okkar. Það verður sjálfsagt mikið hlegið og spjallað.

Wednesday, June 28, 2006

Myndataka


Ég missti mig aðeins með myndavélina í dag og smellti af nokkrum sinnum. Hér er ein mynd. Ég tek það fram að drengurinn er að fara í klippingu í næstu viku, ekki veitir af.

Saturday, June 24, 2006

Jæja, vorum að koma heim úr grillveislu á Akranesi. Góð vinkona mín var að útskrifast frá Háskóla Íslands í dag og við fórum að samgleðjast henni með þennan merka áfanga.
Annars er allt ósköp rólegt hérna hjá okkur. Dagurinn í dag fór að einhverju leyti í verslun eins og gengur og gerist um helgar stundum. En á morgun ætlum við að renna á fjölskyldumót sem haldið er einhversstaðar rétt hjá Gullfossi og Geysi í fjölskyldunni hans Tomma. Það verður gaman að sjá allt þetta fólk en ég hef ALDREI séð neinn úr þessari stórfjölskyldu. Held að ég sé ekki að skrökva því enda skrökva ég aldrei.

En hér fyrir neðan eru þrjár spurningar af því að ég var klukkuð af stóru systur minni, henni Álfheiði. Takk fyrir það syss.

Hvaða bók hefur haft mestu áhrif á þig?
Ég veit það nú ekki, en ég las Da Vinci Code þegar hún kom út og ég verð að viðurkenna að mér finnst margar hugmyndir sem koma þar upp nokkuð góðar og ég hugsa oft til þessarar bókar.
Hvers konar bækur lestu helst?
Spennusögur, spennusögur og spennusögur. Annars hef ég voða lítið lesið síðan börnin fæddust en það verður að fara að breytast.
Hvaða bók lastu síðast?
Ég get svarið að ég man það ekki, en hún er eftir Dan Brown.

Og þar hafið þið það gott fólk.

Wednesday, June 21, 2006

Fréttir

Jæja er ekki komin tími á að setja eitthvað hér inn?
Hér var haldin afmælisveisla í tilefni þriggja ára afmælis Lilju Rósar síðastliðinn sunnudag og fór hún bara nokkuð vel fram. Ég gerðist nú svo djörf að panta afmælisköku, nennti ekki að baka hana sjálf og skammast mín ekkert fyrir það, heimavinnandi húsmóðirinn.
Jóhann ákvað svo að fá sína fyrstu tönn á sjálfan kvenréttindadaginn (heitir hann það ekki annars), gott hjá honum.

Svo er komið að aðalfréttinni.
Ég fór í vinnuna mína í dag og sagði upp, já þið lásuð rétt, ég sagði upp.
Ég er að fara í viðskiptafræði í Háskóla Íslands í haust og ætla mér að útskrifast þaðan með BS próf eftir þrjú ár. Uppsögnin gekk vel og best var að yfirmaður minn vill endilega að ég hafi samband við hann í haust þegar ég er byrjuð og vinni aðeins með skólanum ef ég treysti mér til. Eru það ekki fín meðmæli frá honum að vilja ekki missa mig alveg? Það held ég nú.

En þetta er nóg í bili, kallinn var að koma heim úr vinnu og situr og snæðir kaldan kvöldverð. Best að spjalla við hann.

Hafið það gott þangað til næst

Saturday, June 17, 2006

Þetta er bara fyndið....................................

Þetta finnst mér fyndið, vona að ég móðgi samt engan.
(En þið megið alveg kommenta á hvað ég á að gera næstu 3 árin, þið standið ykkur ekkert vel í því....)

Velkominn í þjónustusímann hjá Kleppi.

Ef þú þjáist af…
..þráhyggju, skaltu ýta í sífellu á 1
..ósjálfstæði, skaltu fá einhvern til að ýta á 2
..klofnum persónuleika, skaltu ýta á 3, 4, 5 og 6
..ofsóknarbrjálæði, þá vitum við hver þú ert og hvað þú vilt. Bíddu á
línunni svo við getum rakið samtalið
..ranghugmyndum, veldu 7 og við gefum þér samband við móðurskipið
..þunglyndi, þá skiptir ekki máli á hvaða hnapp þú ýtir - það svarar þér
enginn hvort eð er
..lesblindu, skaltu velja 696969696969
..taugaveiklun, skaltu fitla við ferninginn þar til einhver svarar
..minnisleysi, skaltu velja 8 og segja nafn þitt, kennitölu, símanúmer,
fæðingardag, heimilisfang, skónúmer og fullt nafn móður þinnar
..óákveðni, skaltu skilja eftir skilaboð á eftir tóninum eða á undan tóninum
eða á eftir tóninum. Vinsamlega bíðið eftir tóninum.
..skertu skammtímaminni, veldu 9
..skertu skammtímaminni, veldu 9
..skertu skammtímaminni, veldu 9
..skertu skammtímaminni, veldu 9

Thursday, June 15, 2006

Rólegheit

Ég veit svo sem ekki hvað ég að skrifa því það er allt ósköp rólegt hér hjá okkur í Breiðholtinu þessa dagana.

Ég er ennþá að velta því fyrir mér hvað ég á að gera af mér næstu 3 árin, þið sem ég hef talað við nýverið áttið ykkur á því hvað ég er að tala um en þið hin megið bara geta ;)
Ætli ég haldi ekki bara áfram að rembast við að ákveða þetta, og þið megið að sjálfsögðu segja ykkar skoðun á málinu.

Tuesday, June 13, 2006

Komin heim...........

Jæja þá er maður komin heim aftur. Allt gekk þetta vel og allir ánægðir með síðustu daga held ég.

Svo er bara afmæli á morgun, Lilja Rós orðin 3ja ára, og svo veisla á sunnudaginn. Eitthvað eru nú samt fáir í bænum þann dag en við þessi fáu sem ætlum að vera þarna skemmtum okkur bara enn betur ;)

Er of þreytt eftir þessi ferðalög til að skrifa eitthvað gáfulegt, bið að heilsa í bili.

Tuesday, June 06, 2006

Ferðalög framundan

Jæja, er nýkomin heim af Kaffi París með henni Gunnu þar sem við spjölluðum um heima og geima. Ætla ekkert að fara nánar út í það hér. En það er alltaf gott að komast út í smá spjall.
Svo á morgun keyri ég austur á Höfn en þar er ég að fara að kveðja hana ömmu mína sem lést fyrir tæpri viku síðan. Ætla mér að koma aftur í bæinn á föstudaginn, og leggja svo aftur land undir fót nema nú ásamt börnunum og þá liggur leið okkar norður á Blönduós að skoða lömbin. Eða það er að minnsta kosti það sem hún Lilja Rós ætlar að gera. Þannig að ekkert blogg fyrr en eftir miðja næstu viku fyrst maður á ekki fartölvu ;)
En maður bætir nú úr því ef maður fer í skólann í haust.

Jæja kveð ykkur í bili

Monday, June 05, 2006



Svona á að gera þetta, stundum er gott að eiga eldri systur ;)

Góður gærdagur og góður morgun

Komið þið öll sæl.
Hvítasunnan hefur nú verið afskaplega róleg hérna hjá okkur í Breiðholtinu, Tommi á vaktinni þannig að ég og börnin erum bara að dunda okkur.
Í gær voru rólóvellir heimsóttir og dagurinn endaði í kaffi og rjómatertu í Garðabæ.
Svo komst ég að því í morgun að ég hlýt að eiga bestu börn í heimi því þau leyfðu mér að "sofa" til að verða hálftíu í morgun. Svo sitja þau núna saman og horfa á sjónvarpið milli þess sem Lilja Rós fræðir Jóhann um ýmis heimsmál.
Alltaf gaman að hlusta á þær samræður :)

Vona að þið hafið það öll gott í dag, bið að heilsa í bili.

Sunday, June 04, 2006

HJÁLP

Ég er búin að komast að því að ég ein get ekki komið mynd hér inn.
(ég hélt sem ég væri svo agalega klár á tölvur)
Ef einhver á aulaleiðbeiningar þá væru þær vel þegnar akkúrat núna :)

Á maður ekki alltaf að prófa eitthvað nýtt??

Ég ætlaði í sakleysi mínu að "kommenta" hjá kunningjakonu minni en til þess að geta það þá þurfti ég að "signa" mig inn á þetta blogspot dót.
Ég gerði það og hér er ég, og ákvað að sjálfsögðu í beinu framhaldi að blogga.

Þið kæru vinir kannski látið mig vita hvort ég eigi að gera alvöru úr þessu með því að skrifa athugasemdir svo ég viti hvort einhverjir lesa þetta.

Ekki það ég kann ekkert á þetta og get örugglega aldrei skrifað neitt inn aftur og hvað þá lesið það sem þið skrifið hér inn, svoddan tölvunörd ;)