Monday, July 28, 2008

Veðurblíða






Við skelltum okkur út með hjólin og börnin um helgina, fórum þó ekki langt, bara hér fyrir utan húsið.
Jóhann er voðalega stoltur af bláa hjólinu sínu en líður þó mun betur á gamla þríhjólinu.

Þau fóru á leikskólann í morgun eftir fimm vikna frí og Lilja Rós gat varla beðið eftir að segja öllum frá lausu tönnunum sínum, já tönnunum í fleirtölu því það eru þrjár tennur lausar.
Ég sit hins vegar við tölvuna og er að prenta út á þriðja hundrað blaðsíðna glósur sem ég er búin að útbúa í sumar fyrir próf sem ég tek í ágúst.
(Já, Magnea ég ætla að reyna að lesa þetta allt saman ;))

Friday, July 25, 2008

Nú er ég endanlega gengin af göflunum

Vitið þið hvað ég var að gera áðan :S, nú er maður endanlega orðin klikkaður held ég.
Ég og minn ekkieiginmaður vorum að bóka helgarferð til útlanda síðustu helgina í ágúst.
Þannig að nú eru tvær utanlandsferðir greiddar, ein í ágúst og ein í mars/apríl.
Held að það sé best að fara að klippa þetta kreditkort í tvennt.

Friday, July 18, 2008

"Ekkieiginmaðurinn" minn bauð mér út að borða í kvöld, semióvænt. Hann ætlaði að hafa þetta "surprise", en gat ekki þagað og sagði mér þetta í gær :)
Við fórum á Ítalíu og ég fékk mér hráskinku og melónu í forrétt, túnfisk í aðallrétt og svo Irish coffee í lokin. Allt saman mjög gott.
Á morgun er svo komið að brúðkaupinu sem við höfum bæði beðið eftir síðustu vikur, Tommi verður svaramaður og ég fæ að vera sætavísir í kirkjunni. Alltaf gaman að fá hlutverk ;), ég hlakka samt mest til að borða humarsúpuna og lambakjötið sem verður í boði um kvöldið. Furðulegt að ég sé ekki stærri en ég er, alltaf að borða eitthvað gott :)

Sunday, July 13, 2008

Mætt aftur...

Er ennþá á Austurlandinu, sem mætti nú bjóða upp á betra veður en það ræður víst engin við það. Við erum búin að hafa það ósköp notalegt hérna, lögðum af stað frá Reykjavíkinni 23.júní ásamt Álfheiði systur og hluta af hennar afkvæmum. Gistum þrjár nætur á leiðinni þar af tvær á Akureyri. Fórum í Jólahúsið, röltum í miðbænum og allir (næstum allir) fór í heita pottinn. Hér á Egilsstöðum er kannski ekki búið að bralla margt en börnin hafa skemmt sér vel og það er fyrir mestu, fór reyndar á Humarhátíð á Hornafirði með Álfheiði systur og hennar börnum, hún á svo stóran bíl að þar komast sjö fyrir og bara gaman að vera öll saman í bíl og hlusta á Bullutröll helminginn af leiðinni ;) Einnig heimsóttum við Reyðarfjörð, en það var stutt stopp, keyptur ís, flíspeysa og svo farið.

Annars er það helst í fréttum af okkur að Lilja Rós er með lausa tönn og henni þykir það ekki leiðinlegt, bíður spennt eftir að hún losni, ég verð nú að viðurkenna að ég hafði ekki hugmynd um að þetta tæki svona langan tíma, hélt að þegar tönn losnaði að þá dytti hún eftir ca 2 daga :S

Við erum búin að gista á Stekkjartröðinni, á Eyjólfsstöðum hjá Álfheiði systur og hjá Elfu systur líka, en nú erum við aftur komin á Stekkjartröðina og erum þar ein því að mamma og pabbi skelltu sér til Vestmannaeyja. Mamma kemur á miðvikudagskvöldið, og á fimmtudaginn keyri ég ALein (hlakka svo til) til borgarinnar til að mæta í brúðkaup á laugardaginn (hlakka svo til), ég flýg svo hingað austur aftur líklega á sunnudeginum og sæki börnin. Vona bara að þau geri ekki út af við ömmu sína þessa þrjá daga.
Ég set svo inn myndir þegar ég er komin heim, LOFA :)