Sunday, February 22, 2009

Púff

Akkúrat núna er ég að velta því fyrir mér af hverju ég er í þessu námi.
Ég sat ásamt 2 öðrum í ca 6 klukkutíma á föstudaginn að slást við skilaverkefni, ekkert gekk.
Ég ákvað að vera duleg í dag og afþakka kvöldverðarboð (þau hin fóru) og sitja heima og reyna að skilja þetta, ekkert gekk.
Það er aldeilis fínt að vera búin að eyða um það bil 8 klukkutímum í þetta yndislega skilaverkefni og komast nákvæmlega EKKERT áleiðis.

Allur morgundagurinn fer líka í þetta því skiladagur er á þriðjudaginn. Ég er búin að fá pössun fyrir börnin til að geta eytt ÖLLUM deginum í þetta.....ARG og GARG.

Um 200 manns eru í þessum áfanga og allir sem ég hef hitt og spjallað við eru í sömu vandræðum og við.

Annað hvort erum við nemendurnir allir svona vitlausir eða verkefnið er alltof,alltof þungt. Ég kýs að velja það síðarnefnda.

Monday, February 09, 2009

Myndir





Ákvað að setja örfáar myndir hér inn þó ég hafi á tilfinningunni að fólk sé alveg hætt að lesa blogg, allir á facebook núna :)

Saturday, February 07, 2009

Þá er komið að því

Jæja þá er maður loksins að verða fullorðin ;)
Ég er á leiðinni í hárgreiðslu og förðun kl. hálfátta á laugardagsmorgni, haldið að það sé vit í þessu :S
Búin að þamba 2 kaffibolla og tek einn með mér í bílinn, annars gæti ég sofnað við stýrið.
Annars svaf ég ágætlega í nótt en fékk sms áðan frá brúðarmeyjunni að hún gæti ekki sofið, ég hélt að það ætti að vera öfugt.
En ætli það sé ekki best að fara að koma sér af stað í Hafnarfjörðinn, ég mæti aftur á sunnudaginn sem frú Viderö, hahaha

Saturday, January 24, 2009

Jæja gott fólk, þá er þorrinn hafinn og ég fer ekki á þorrablót í ár frekar en önnur ár. Af hverju veit ég ekki, því þetta eru yfirleitt skemmtilegar samkomur. Ég fer bara á næsta ári.....segir sú framtakslausa.
Við höfum það bara rólegt hér í 111, frumburðurinn er lasinn og nýtur (já ég held það nú) þess að liggja í rúminu og horfa á dvd. Jóhann og Tommi eru á þessari stundu að útbúa pizzu í kvöldmatinn og ég hangi í tölvunni eins og sannri húsmóður sæmir ;)

Allur undirbúningur fyrir stóra daginn er á lokastigi enda vinn ég eftir forláta Excel-skjali sem útbúið var fyrir óheyrilega mörgum mánuðum. Þar færi ég inn hverja einustu krónu sem greidd er út, allt sem þarf að kaupa og gera. Eins gott að ég gleymi ekki einhverju mikilvægu ;) Haldið að ég hafi lítið að gera fyrst ég hef tíma til að dunda mér við þetta hahaha.

Svo er orðið ótrúlega stutt í ferðina góðu til Tenerife, Tommi greyið tekur að sér fullt af aukaverkefnum til að bæta í ferðasjóðinn, en ég sit heima og hangi í tölvunni eins og góðri húsmóður sæmir hihihi.

Monday, January 19, 2009

"Borg óttans"

Af hverju er það svo í dag að fólk sem býr á landsbyggðinni getur ekki farið til Reykjavíkur, af hverju þarf það oft að nefna höfuðborgina okkar "Borg óttans"? Er fólkið svona hrætt við að fara úr sínu umhverfi? Er Reykjavík svona skelfileg?
Ég bý hér og er búin að gera það síðastliðin 14 ár og ég get ekki með nokkru móti skilið þetta, ég veit að sumir eru að grínast en mér finnst bara ansi margir vera farnir að nota þetta hugtak.
Ef það er svona skelfilegt að koma hingað, verið þá bara heima hjá ykkur hahaha.

Af börnunum er það helst að frétta að það yngra er allt í einu hætt með snuð, bleiu, vill ekki lengur sitja í barnastól, vill ekki nota plastdiska, vill ekki nota smábarnaglös og hermir ALLT eftir stóru systur sinni. Lilja Rós er hress að vanda, hún byrjaði í ballet á laugardaginn og var mjög ánægð í ballerínubúningnum sínum í fyrsta tímanum.

Annars er allt gott að frétta af okkur hjónleysunum, það styttist í stóra daginn og mjög líklega verð ég farin yfirum af stressi þá þannig að þið skemmtið ykkur bara án mín ;)

Tuesday, January 06, 2009

Gleðilegt ár

Þá er maður komin heim aftur eftir að hafa dvalið í góðu yfirlæti hjá Álfheiði systur á Eyjólfsstöðum. Börnin skemmtu sér vel, ég fékk góða hjálp við föndur, spiluðum bob(b) og pictionary og fleiri spil og hlógum mikið. Alveg eins og það á að vera.
Allar einkunnir eru komnar í hús, ég náði öllum prófunum en það má alltaf deila um hvort einkunnirnar hafi verið nógu háar :)
Skólinn hefst aftur 15.janúar en ég hef nóg að gera við að hanga í tölvunni, horfa á Bold, drekka kaffi og ýmislegt fleira.

Friday, December 26, 2008

Jæja þá er komið að því, ég flýg ásamt Jóhanni og Lilju Rós austur á Egilsstaði á morgun. Tommi kemur svo síðar. Krakkarnir hlakka til að hitta fólkið og Jóhann segist vera búinn að útbúa tækifæri handa Álfheiði og Katrínu (hvað sem það nú þýðir).
Við erum búin að hafa það mjög gott yfir jólin, ég hef ekki farið úr húsi síðan á þorláksmessu en úr því verður bætt á eftir því við erum að fara í mat til verðandi tengdó.

Óska öllum áframhaldandi gleðilegra jóla, og farsældar á komandi ári :)

Friday, December 19, 2008

Jólafrí

Jæja þá er síðasta prófið búið, skilaði því rétt eftir hádegi í dag.
Nú ætla ég að njóta jólaundirbúnings með börnunum mínum, éta smákökur, versla pínulítið og hafa það gott hér heima.
Við ætlum að eyða aðfangadagskvöldi heima hjá okkur í fyrsta skipti í þrjú ár, Lilja Rós varð eitt bros þegar ég sagði henni að við yrðum heima hjá okkur, en hún var reyndar ekki minna ánægð þegar ég sagði henni að við færum austur til að vera þar yfir áramótin. Hlakka mikið til að hitta fólkið mitt :)

Saturday, December 13, 2008

Jæja, þá er eitt próf búið. Það var í frekar áhugaverðu fagi sem kallast Skattskil, og gekk svona "la,la". Þetta verður bara allt að koma í ljós. Mér finnst reyndar stundum eins og HÍ vilji að sem fæstir nái miðað við prófin sem lögð eru fyrir okkur. Þetta fimmta önnin mín við þennan skóla og ég held að það sé öruggt að segja að prófið sem ég tók á miðvikudaginn var eitt af þeim allra erfiðustu sem ég hef tekið við þennan skóla. Sem dæmi má nefna að ég byrja alltaf á því að renna yfir prófið í heild sinni til að róa mig niður ef ég skyldi nú ekki vera klár á fyrstu spurningunni, en OMG, þarna, þá bara fannst mér ég "skrolla" og "skrolla" og aldrei kom spurning sem ég var klár á. Ekki góð tilfinning, samt var ég búin að læra og læra. Ég veit að fólki fannst prófið almennt of langt og frekar erfitt (enda ég ekki sú klárasta sem gengur um gangana þarna) og var ég eiginlega bara fegin að heyra það.

Ég á ennþá þrjú próf eftir og mér til mikillar lukku þá eru þau eftirfarandi daga: 17., 18., og 19.desember. Bara gaman :)
Ég verð sum sé að læra næstu daga (kemur á óvart) nema á morgun, því Tommi er að vinna og þó ég hafi nú reynt að vorkenna mér á andlitsdoðrantinum þá hefur engin(n) boðist til að passa, merkilegt nokk!!

En jólin nálgast, og eins og hefur komið hér fram þá er ÉG búin að baka SEX smákökusortir (ég er ekkert montin, neinei), skreyta allt hér, kaupa í jólamatinn og við erum bara nánast tilbúin fyrir jólin. Jólatréð verður reyndar sett upp seinna, of snemma að mati heimasætunnar því hún vill að það verði ekki skreytt fyrr en á aðfangadag. Mamman er nú ekki alveg sammála því ;)

Haldið áfram öll að njóta aðventunar, mikið þætti mér nú samt gaman að vita hverjir eru að kíkja hingað inn.............er þetta alltaf bara sama fólkið.............eða eru einhverjir leynigestir????

Sunday, December 07, 2008

Ég var að knúsa son minn um daginn og sagði við hann um leið "þú ert svo mikil rúsína". Þá horfði Jóhann á mig í smástund og sagði svo "og þú ert banani"
Þar hafið þið það ;)

Wednesday, December 03, 2008

Próf, próf og aftur próf

Ég er í Gimli þessa dagana að læra (og blogga greinilega;))
Ef einhvern langar í Hámu-kaffi endilega mætið á svæðið.

Sunday, November 30, 2008

Mont

Nú bara verð ég að monta mig aðeins. Þetta þykir ábyggilega ekki mikið afrek á heimilum á borð við heimili systra minna en ég er líka löngu hætt að reyna að bera mig og mína húsmóðurhæfileika við þeirra.
Jóhann er búinn að vera lasinn síðan á fimmtudag og hvað gerði ég, jú ég bakaði smákökur fyrir jólin. Og af því að ég geri yfirleitt ekki hlutina með hangandi hendi þá er staðan sú núna að hér eru til sex tegundir af smákökum (heimabökuðum) og allar rosalega góðar að sjálfsögðu.

Á morgun tekur svo próflestur við, Tommi verður heima með drenginn, og ég er að hugsa um að taka með mér fullt af smákökum upp í skóla.

Saturday, November 22, 2008

Brandari

Þetta finnst mér mjög fyndið. Vil nú samt taka það fram að ég er ekki á móti honum Davíð á nokkurn hátt, er ekki á móti hans flokki eða neitt svoleiðis. Finnst bara brandarinn fyndinn, vona að ég móðgi engan.
Gjörið svo vel, ég hló að minnsta kosti :)

Íslenskur lýtalæknir var staddur á ráðstefnu erlendis með kollegum sínum. Eftir langa og stranga dagskrá ráðstefnunnar héldu ráðstefnugestir á öldurhús og gerðu sér glaðan dag. Eftir því sem líða fór á kvöldið og nóttina þynntist hópurinn og loks sátu einungis þeir þaulsetnustu efir.
Þegar þeir höfðu ekkert meira að tala um fóru þeir að segja hetjusögur af þeim afrekum sem þeir höfðu unnið á skurðborðinu.

Bretinn sagði sögu af því að hann ásamt teymi sínu hafi tekið á móti sjúklingi sem missti hendina í prentsmiðju. Á sjúklinginn græddu þeir nýjan handlegg, lófa og fingur og eftir að hann kom til starfa aftur varð hann svo góður og öflugur verkmaður að hann vann á við 4 og því fóru þrír á atvinnuleysisskrá sem áður störfuðu hjá fyrirtækinu.

Rússneskum lækni fannst ekki mikið til þess koma og sagði frá manni sem lent hafði inn í kjarnaofni. Þeir fengu ekkert annað en hárið inn á skurðborðið til sín, græddu á það búk, höfuð og útlimi. Þessi maður var svo góður verkmaður þegar hann sneri aftur til starfa að hægt var að segja upp heilli vakt í kjarnorkuverinu, 9 manns fóru á atvinnuleysisskrá.

Íslenski læknirinn sagði iss við þessari sögu. Ég var einu sinni staddur niðri í Austurstræti og fann rosalega vonda prumpulykt. Ég veiddi hana í poka og brunaði með hana upp á Borgarspítala og skellti henni á skurðborðið. Við græddum á þetta búk, höfuð og útlimi og enduðum með að setja krullur ofan á þetta allt saman.
Úr þessu varð Davíð Oddsson og hann er á góðri leið með að setja alla þjóðina á atvinnuleysisskrá.

Tuesday, November 11, 2008

Það eru "allir" að kvarta yfir þessu kvarti í mér þannig að ég ætla að setja nýja færslu hér.
Ég ætla ekki að skrifa um kossageitina sem sonur minn fékk og þurfti þar af leiðandi að fara á pensilín og ég ætla heldur ekki að minnast á ælupestina sem bæði börnin fengu meðan þau voru í pössun hjá tengdamömmu og gerði það að verkum að ekkert varð úr því sem Tommi höfðum ætlað að gera meðan við værum barnlaus ;)

Ég ætla heldur ekki að minnast á að það er brjálað að gera í skólanum, verkefnin hrannast upp og það styttist stöðugt í prófin og ég verð stressaðri og stressaðri með hverjum deginum sem líður :S

Hins vegar má nefna að það er spennandi helgi framundan en þá verður Jóhann þriggja ára og við erum búin að bjóða góðu fólki í heimsókn og þetta verður án efa skemmtilegt. (já Heiðrún, það verður brauðterta í boði ;))

Monday, October 27, 2008

Kvart,kvart

Hvað er eiginlega í gangi? Ég var með upp og niðurpest í síðustu viku og þessi vika hófst á gífurlegri hálsbólgu og hitavellu.
Er heima í dag og reyni að kyngja ekki oft ;)
Annars er þetta ágætis "megrun" hehe, þarf samt ekki alveg á henni að halda akkúrat núna. Frekar í janúar ;)

En sem sagt ef einhvern langar í pest/ir, þá bara koma hingað, ég virðist eiga nóg til af þessu.

Friday, October 17, 2008

Hér er ég....

Alltof langt síðan ég skrifaði eitthvað hér inn, en aldrei þessu vant þá er bara búið að vera aðeins of mikið að gera hjá mér síðustu daga og vikur, og það mun haldast þannig fram að 19.desember en þá er ég komin í jólafrí. Ég fékk próftöflu í hendur í síðustu viku og hún er yndisleg, ég er í prófum 10.desember, og svo 17.,18, og 19.desember = YNDISLEGT

Annars erum við öll hress, og finnum ekki fyrir þessari svokallaðri kreppu í okkar daglega lífi, svona fyrir utan ýmsar vangaveltur.
Við erum búin að ákveða að vera hér í Reykjavík um jól og áramót (verðum að spara fyrir eyðsluna á næsta ári) þannig að öll matarboð og kaffiboð eru vel þegin, því ég veit ekkert "leiðinlegra" en að vera ALein yfir þessa hátíð.

Mér var svo boðið í sláturgerð um daginn en því miður þá komst ég ekki því ég var ein heima með krakkana það kvöldið, en vil hér með þakka Ásthildir enn og aftur fyrir að hugsa til mín, ekki oft sem manni býðst að taka þátt í svona. Finn það oftar og oftar hvað ég vildi að ég ætti fjölskyldu hér í bænum, sé fyrir mér sláturgerð, laufabrauðsgerð og margt, margt fleira. Þannig að nú er bara um að gera fyrir systur mínar að flytja í bæinn, :)

Saturday, September 27, 2008

Ég á afmæli í dag

Jæja þá er maður orðin árinu eldri, við ætlum bara að hafa það rólegt heima því Lilja Rós tók upp á því að veikjast í nótt.

Saturday, September 20, 2008

Allt og ekkert....

Jæja þá er komið laugardagskvöld og ég sit fyrir framan tölvuna með hvítvínsglas við hliðina á mér.
Dagurinn í dag er búinn að vera ósköp notalegur, Lilja Rós söng ásamt öðrum 5 ára leikskólabörnum og Jóhanni á hátíð sem var í íþróttahúsinu okkar hér í Breiðholtinu. Jóhann átti ekkert að fá að vera með en hann hljóp á eftir systur sinni og ég bara leyfði honum það, og hann söng hástöfum með í íþróttaálfahúsinu eins og hann heldur að það heiti.
Svo var farið heim og ég bakaði skúffuköku og Lilja Rós fékk hana Kristrúnu vinkonu sína af leikskólanum í heimsókn, og Gunna og Jóhanna Guðrún mættu líka í kaffi. Mér finnst alltaf svo gaman að fá gesti, vildi helst hafa fullt hús hér alla daga :)
Álfheiður systir kom hér líka aðeins við í gær og hjálpaði Lilju Rós við að missa fyrstu tönnina, gott að eiga svona góða frænku ;)
Jóhann tilkynnti það svo við kvöldmatarborðið áðan að hann ætlaði að fara í súperman-búninginn sinn (sem eru náttföt) og fljúga fyrir utan eldhúsgluggann og ná í tönnina hennar Lilju Rósar því hún er víst á flugi þar fyrir utan, ekki vissi ég það. Ótrúlegt hvað þessum krökkum dettur í hug.
Svo stendur mér jafnvel til boða að fara til Hafnar 10.október og fara á eitthvert "Bítlashow" þar ásamt frændsystkinum mínum, mikið væri ég nú til í það, og ef einhver hefur nákvæmlega ekkert að gera þá helgina og vill ólmur passa börnin mín (því auðvitað er Tommi á vakt) þá endilega hringja, senda e-mail, kvitta hér, bara það sem ykkur hentar ;) Ég yrði mjög þakklát!!

Friday, September 12, 2008

Jæja

Loksins nennti ég að setjast niður fyrir framan tölvuna og hlaða inn nokkrum myndum.


Hann er söngelskur þessa dagana hann sonur minn


Þessi mynd er tekin um verslunarmannahelgina þegar við fórum í útilegu

Þessi ágæti maður var að spila á hótelinu okkar í Minneapolis eitt kvöldið ásamt tveimur öðrum. Takið eftir hljóðfærinu sem hann spilar á :)


Við skelltum okkur á "State fair" (fylkishátíð) í St.Paul, það var ferlega gaman að upplifa það.

Það fengum við meðal annars krabbakökur, "corn-dogs" og bjór í plastglösum

Daginn sem við fórum var að hefjast ráðstefna repúblikana á hótelinu okkar og þessi ágæta skrúðganga sem innihélt margt skemmtilegt fór þar fram hjá. Framan á þessum bíl voru brúður af Bush og McCain.

Þessi héldu á merkilegu plaggi í tilefni dagsins

Annars er ósköp lítið af frétta héðan úr Breiðholtinu, lífið heldur áfram sinn vanagang. Skólinn er byrjaður hjá mér, tennur er ennþá að losna í Lilju Rós (engin dottin ennþá þó), Lilja Rós fékk gat á höfuðið um daginn og var frekar fúl yfir að það var "bara" límt, ekki saumað ;)

Svo fór ég austur á Höfn síðustu helgi með börnin að hitta móðurfjölskylduna mína frábæru, ég tók engar myndir en ef þið viljið sá myndir þá eru nokkrar á blogginu hjá Álfheiði systur (linkur er hér á síðunni).

Fleira er svo á döfinni næstu vikur og mánuði og þið munuð verða upplýst um það þegar nær dregur ;)

Thursday, August 28, 2008

Farin.....

til Minneapolis!!
Kem aftur á mánudaginn eldhress eftir svefnlausa nótt og mæti í skattskil...újeee :)