Monday, September 25, 2006

Gettóið

Við fluttum hingað í Austurbergið í lok nóvember 2003, þannig að við erum að verða búin að búa hér í þrjú ár bráðum. Í heildina þá líður okkur vel hér og erum ekkert að fara neitt á næstunni, (ekki nema ég vinni í lottói, en þá þarf ég víst að tíma að kaupa miða í því).
Á þessum þremur árum, hafa póstkassarnir einu sinni verið sprengdir upp með flugeldi, Tommi hefur slökkt eld í mottunni í forstofunni sem einhverjir unglingar úr Mosfellsbæ höfðu kveikt sér til skemmtunar, ég greip tvær unglingsstelpur með logandi pappírssnifsi í höndunum inni í þessari sömu forstofu um daginn, og svo í dag þegar ég kom heim þá var búið að mölva einn póstkassann með hellusteini og krota á þrjá. Og varla þarf ég að taka það fram að auðvitað er það kassinn okkar sem var mölvaður.
Á svona stundum líður manni ekkert vel að vera með börn hérna, ég ræð við mölvaða póstkassa og krot, við látum ekki lífið af því en að kveikja hér í, það er allt annað mál.
En svona er víst að vera venjulegur borgari hér í Reykjavík sem nennir að vinna og fær þannig laun í vasann að maður flokkast ekki undir fátækling. Við þurfum að búa í svona hverfi, það er ekki fyrir hvern sem er að fjárfesta hér í almennilegum húsum.
Heppnir þeir sem geta búið í einbýlishúsi einhversstaðar í góðum hverfum og þurfa kannski ekki að hafa eins miklar áhyggjur af því á nóttunni að það verði kveikt í.
Kannski er þetta nú samt bara vitleysa í mér og óþarfa áhyggjur, eða hvað finnst ykkur?

3 comments:

Anonymous said...

Þetta er ekki gott. Maður verður órólegur við svona fréttir. Ég styð þá snjöllu hugmynd að þið flytjið bara í Egilsstaði, þar er öruggt og gott að búa í einbýlishúsi.

Ameríkufari segir fréttir said...

Mér finnst þú ekki gera úlfalda úr mýflugu, þetta er ekki gott að hafa í huganum áður en farið er að sofa á kvöldin.

Álfheiður said...

Það er nú engin vitleysa ef kviknar í hjá manni. Þá er eins gott að vera viðbragðsfljótur og vita hvað man skal gjöra.
Koddu bara austur ...