Sunday, November 30, 2008

Mont

Nú bara verð ég að monta mig aðeins. Þetta þykir ábyggilega ekki mikið afrek á heimilum á borð við heimili systra minna en ég er líka löngu hætt að reyna að bera mig og mína húsmóðurhæfileika við þeirra.
Jóhann er búinn að vera lasinn síðan á fimmtudag og hvað gerði ég, jú ég bakaði smákökur fyrir jólin. Og af því að ég geri yfirleitt ekki hlutina með hangandi hendi þá er staðan sú núna að hér eru til sex tegundir af smákökum (heimabökuðum) og allar rosalega góðar að sjálfsögðu.

Á morgun tekur svo próflestur við, Tommi verður heima með drenginn, og ég er að hugsa um að taka með mér fullt af smákökum upp í skóla.

Saturday, November 22, 2008

Brandari

Þetta finnst mér mjög fyndið. Vil nú samt taka það fram að ég er ekki á móti honum Davíð á nokkurn hátt, er ekki á móti hans flokki eða neitt svoleiðis. Finnst bara brandarinn fyndinn, vona að ég móðgi engan.
Gjörið svo vel, ég hló að minnsta kosti :)

Íslenskur lýtalæknir var staddur á ráðstefnu erlendis með kollegum sínum. Eftir langa og stranga dagskrá ráðstefnunnar héldu ráðstefnugestir á öldurhús og gerðu sér glaðan dag. Eftir því sem líða fór á kvöldið og nóttina þynntist hópurinn og loks sátu einungis þeir þaulsetnustu efir.
Þegar þeir höfðu ekkert meira að tala um fóru þeir að segja hetjusögur af þeim afrekum sem þeir höfðu unnið á skurðborðinu.

Bretinn sagði sögu af því að hann ásamt teymi sínu hafi tekið á móti sjúklingi sem missti hendina í prentsmiðju. Á sjúklinginn græddu þeir nýjan handlegg, lófa og fingur og eftir að hann kom til starfa aftur varð hann svo góður og öflugur verkmaður að hann vann á við 4 og því fóru þrír á atvinnuleysisskrá sem áður störfuðu hjá fyrirtækinu.

Rússneskum lækni fannst ekki mikið til þess koma og sagði frá manni sem lent hafði inn í kjarnaofni. Þeir fengu ekkert annað en hárið inn á skurðborðið til sín, græddu á það búk, höfuð og útlimi. Þessi maður var svo góður verkmaður þegar hann sneri aftur til starfa að hægt var að segja upp heilli vakt í kjarnorkuverinu, 9 manns fóru á atvinnuleysisskrá.

Íslenski læknirinn sagði iss við þessari sögu. Ég var einu sinni staddur niðri í Austurstræti og fann rosalega vonda prumpulykt. Ég veiddi hana í poka og brunaði með hana upp á Borgarspítala og skellti henni á skurðborðið. Við græddum á þetta búk, höfuð og útlimi og enduðum með að setja krullur ofan á þetta allt saman.
Úr þessu varð Davíð Oddsson og hann er á góðri leið með að setja alla þjóðina á atvinnuleysisskrá.

Tuesday, November 11, 2008

Það eru "allir" að kvarta yfir þessu kvarti í mér þannig að ég ætla að setja nýja færslu hér.
Ég ætla ekki að skrifa um kossageitina sem sonur minn fékk og þurfti þar af leiðandi að fara á pensilín og ég ætla heldur ekki að minnast á ælupestina sem bæði börnin fengu meðan þau voru í pössun hjá tengdamömmu og gerði það að verkum að ekkert varð úr því sem Tommi höfðum ætlað að gera meðan við værum barnlaus ;)

Ég ætla heldur ekki að minnast á að það er brjálað að gera í skólanum, verkefnin hrannast upp og það styttist stöðugt í prófin og ég verð stressaðri og stressaðri með hverjum deginum sem líður :S

Hins vegar má nefna að það er spennandi helgi framundan en þá verður Jóhann þriggja ára og við erum búin að bjóða góðu fólki í heimsókn og þetta verður án efa skemmtilegt. (já Heiðrún, það verður brauðterta í boði ;))

Monday, October 27, 2008

Kvart,kvart

Hvað er eiginlega í gangi? Ég var með upp og niðurpest í síðustu viku og þessi vika hófst á gífurlegri hálsbólgu og hitavellu.
Er heima í dag og reyni að kyngja ekki oft ;)
Annars er þetta ágætis "megrun" hehe, þarf samt ekki alveg á henni að halda akkúrat núna. Frekar í janúar ;)

En sem sagt ef einhvern langar í pest/ir, þá bara koma hingað, ég virðist eiga nóg til af þessu.

Friday, October 17, 2008

Hér er ég....

Alltof langt síðan ég skrifaði eitthvað hér inn, en aldrei þessu vant þá er bara búið að vera aðeins of mikið að gera hjá mér síðustu daga og vikur, og það mun haldast þannig fram að 19.desember en þá er ég komin í jólafrí. Ég fékk próftöflu í hendur í síðustu viku og hún er yndisleg, ég er í prófum 10.desember, og svo 17.,18, og 19.desember = YNDISLEGT

Annars erum við öll hress, og finnum ekki fyrir þessari svokallaðri kreppu í okkar daglega lífi, svona fyrir utan ýmsar vangaveltur.
Við erum búin að ákveða að vera hér í Reykjavík um jól og áramót (verðum að spara fyrir eyðsluna á næsta ári) þannig að öll matarboð og kaffiboð eru vel þegin, því ég veit ekkert "leiðinlegra" en að vera ALein yfir þessa hátíð.

Mér var svo boðið í sláturgerð um daginn en því miður þá komst ég ekki því ég var ein heima með krakkana það kvöldið, en vil hér með þakka Ásthildir enn og aftur fyrir að hugsa til mín, ekki oft sem manni býðst að taka þátt í svona. Finn það oftar og oftar hvað ég vildi að ég ætti fjölskyldu hér í bænum, sé fyrir mér sláturgerð, laufabrauðsgerð og margt, margt fleira. Þannig að nú er bara um að gera fyrir systur mínar að flytja í bæinn, :)

Saturday, September 27, 2008

Ég á afmæli í dag

Jæja þá er maður orðin árinu eldri, við ætlum bara að hafa það rólegt heima því Lilja Rós tók upp á því að veikjast í nótt.

Saturday, September 20, 2008

Allt og ekkert....

Jæja þá er komið laugardagskvöld og ég sit fyrir framan tölvuna með hvítvínsglas við hliðina á mér.
Dagurinn í dag er búinn að vera ósköp notalegur, Lilja Rós söng ásamt öðrum 5 ára leikskólabörnum og Jóhanni á hátíð sem var í íþróttahúsinu okkar hér í Breiðholtinu. Jóhann átti ekkert að fá að vera með en hann hljóp á eftir systur sinni og ég bara leyfði honum það, og hann söng hástöfum með í íþróttaálfahúsinu eins og hann heldur að það heiti.
Svo var farið heim og ég bakaði skúffuköku og Lilja Rós fékk hana Kristrúnu vinkonu sína af leikskólanum í heimsókn, og Gunna og Jóhanna Guðrún mættu líka í kaffi. Mér finnst alltaf svo gaman að fá gesti, vildi helst hafa fullt hús hér alla daga :)
Álfheiður systir kom hér líka aðeins við í gær og hjálpaði Lilju Rós við að missa fyrstu tönnina, gott að eiga svona góða frænku ;)
Jóhann tilkynnti það svo við kvöldmatarborðið áðan að hann ætlaði að fara í súperman-búninginn sinn (sem eru náttföt) og fljúga fyrir utan eldhúsgluggann og ná í tönnina hennar Lilju Rósar því hún er víst á flugi þar fyrir utan, ekki vissi ég það. Ótrúlegt hvað þessum krökkum dettur í hug.
Svo stendur mér jafnvel til boða að fara til Hafnar 10.október og fara á eitthvert "Bítlashow" þar ásamt frændsystkinum mínum, mikið væri ég nú til í það, og ef einhver hefur nákvæmlega ekkert að gera þá helgina og vill ólmur passa börnin mín (því auðvitað er Tommi á vakt) þá endilega hringja, senda e-mail, kvitta hér, bara það sem ykkur hentar ;) Ég yrði mjög þakklát!!

Friday, September 12, 2008

Jæja

Loksins nennti ég að setjast niður fyrir framan tölvuna og hlaða inn nokkrum myndum.


Hann er söngelskur þessa dagana hann sonur minn


Þessi mynd er tekin um verslunarmannahelgina þegar við fórum í útilegu

Þessi ágæti maður var að spila á hótelinu okkar í Minneapolis eitt kvöldið ásamt tveimur öðrum. Takið eftir hljóðfærinu sem hann spilar á :)


Við skelltum okkur á "State fair" (fylkishátíð) í St.Paul, það var ferlega gaman að upplifa það.

Það fengum við meðal annars krabbakökur, "corn-dogs" og bjór í plastglösum

Daginn sem við fórum var að hefjast ráðstefna repúblikana á hótelinu okkar og þessi ágæta skrúðganga sem innihélt margt skemmtilegt fór þar fram hjá. Framan á þessum bíl voru brúður af Bush og McCain.

Þessi héldu á merkilegu plaggi í tilefni dagsins

Annars er ósköp lítið af frétta héðan úr Breiðholtinu, lífið heldur áfram sinn vanagang. Skólinn er byrjaður hjá mér, tennur er ennþá að losna í Lilju Rós (engin dottin ennþá þó), Lilja Rós fékk gat á höfuðið um daginn og var frekar fúl yfir að það var "bara" límt, ekki saumað ;)

Svo fór ég austur á Höfn síðustu helgi með börnin að hitta móðurfjölskylduna mína frábæru, ég tók engar myndir en ef þið viljið sá myndir þá eru nokkrar á blogginu hjá Álfheiði systur (linkur er hér á síðunni).

Fleira er svo á döfinni næstu vikur og mánuði og þið munuð verða upplýst um það þegar nær dregur ;)

Thursday, August 28, 2008

Farin.....

til Minneapolis!!
Kem aftur á mánudaginn eldhress eftir svefnlausa nótt og mæti í skattskil...újeee :)

Friday, August 22, 2008

Nú verða allir að vakna eldsnemma á sunnudagsmorguninn næsta, kveikja á sjónvörpum sínum og styðja íslenska handboltalandsliðið.
Ég horfði á leikinn í dag, ofandaði, gólaði, öskraði, klappað, hoppaði og tók til á tvöföldum hraða þegar stressið var sem mest ;)
Veit ekki hvernig ég verð þegar ég horfi á úrslitaleikinn, við erum með næturgest......má maður vekja þá svona snemma um helgar??...maður spyr sig!!

Monday, August 18, 2008

Ekki merkilegt en......

bara svona fyrir þá sem hafa verið að velta því fyrir sér þá er ég ekki gargandi lengur, enda bara þreytandi að garga lengi ;)
Ég er búin í sumarprófum (tók reyndar bara eitt), er á leiðinni til Ameríkunnar góðu í næstu viku og hlakka bara til. Svo er Höfn á næsta leyti að hitta móðurfjölskylduna mína sem er án efa hressasta fólk í heimi, skólinn fer að hefjast í næsta mánuði og ég hlakka bara til.
Meira er svo á döfinni á næstu mánuðum og ég mun upplýsa ykkur um það seinna :)

Tuesday, August 05, 2008

GARG

Eigum við að ræða eitthvað breytingar á vöktunum hans Tomma, nei ég hélt ekki......ég garga bara í staðinn :S

Monday, July 28, 2008

Veðurblíða






Við skelltum okkur út með hjólin og börnin um helgina, fórum þó ekki langt, bara hér fyrir utan húsið.
Jóhann er voðalega stoltur af bláa hjólinu sínu en líður þó mun betur á gamla þríhjólinu.

Þau fóru á leikskólann í morgun eftir fimm vikna frí og Lilja Rós gat varla beðið eftir að segja öllum frá lausu tönnunum sínum, já tönnunum í fleirtölu því það eru þrjár tennur lausar.
Ég sit hins vegar við tölvuna og er að prenta út á þriðja hundrað blaðsíðna glósur sem ég er búin að útbúa í sumar fyrir próf sem ég tek í ágúst.
(Já, Magnea ég ætla að reyna að lesa þetta allt saman ;))

Friday, July 25, 2008

Nú er ég endanlega gengin af göflunum

Vitið þið hvað ég var að gera áðan :S, nú er maður endanlega orðin klikkaður held ég.
Ég og minn ekkieiginmaður vorum að bóka helgarferð til útlanda síðustu helgina í ágúst.
Þannig að nú eru tvær utanlandsferðir greiddar, ein í ágúst og ein í mars/apríl.
Held að það sé best að fara að klippa þetta kreditkort í tvennt.

Friday, July 18, 2008

"Ekkieiginmaðurinn" minn bauð mér út að borða í kvöld, semióvænt. Hann ætlaði að hafa þetta "surprise", en gat ekki þagað og sagði mér þetta í gær :)
Við fórum á Ítalíu og ég fékk mér hráskinku og melónu í forrétt, túnfisk í aðallrétt og svo Irish coffee í lokin. Allt saman mjög gott.
Á morgun er svo komið að brúðkaupinu sem við höfum bæði beðið eftir síðustu vikur, Tommi verður svaramaður og ég fæ að vera sætavísir í kirkjunni. Alltaf gaman að fá hlutverk ;), ég hlakka samt mest til að borða humarsúpuna og lambakjötið sem verður í boði um kvöldið. Furðulegt að ég sé ekki stærri en ég er, alltaf að borða eitthvað gott :)

Sunday, July 13, 2008

Mætt aftur...

Er ennþá á Austurlandinu, sem mætti nú bjóða upp á betra veður en það ræður víst engin við það. Við erum búin að hafa það ósköp notalegt hérna, lögðum af stað frá Reykjavíkinni 23.júní ásamt Álfheiði systur og hluta af hennar afkvæmum. Gistum þrjár nætur á leiðinni þar af tvær á Akureyri. Fórum í Jólahúsið, röltum í miðbænum og allir (næstum allir) fór í heita pottinn. Hér á Egilsstöðum er kannski ekki búið að bralla margt en börnin hafa skemmt sér vel og það er fyrir mestu, fór reyndar á Humarhátíð á Hornafirði með Álfheiði systur og hennar börnum, hún á svo stóran bíl að þar komast sjö fyrir og bara gaman að vera öll saman í bíl og hlusta á Bullutröll helminginn af leiðinni ;) Einnig heimsóttum við Reyðarfjörð, en það var stutt stopp, keyptur ís, flíspeysa og svo farið.

Annars er það helst í fréttum af okkur að Lilja Rós er með lausa tönn og henni þykir það ekki leiðinlegt, bíður spennt eftir að hún losni, ég verð nú að viðurkenna að ég hafði ekki hugmynd um að þetta tæki svona langan tíma, hélt að þegar tönn losnaði að þá dytti hún eftir ca 2 daga :S

Við erum búin að gista á Stekkjartröðinni, á Eyjólfsstöðum hjá Álfheiði systur og hjá Elfu systur líka, en nú erum við aftur komin á Stekkjartröðina og erum þar ein því að mamma og pabbi skelltu sér til Vestmannaeyja. Mamma kemur á miðvikudagskvöldið, og á fimmtudaginn keyri ég ALein (hlakka svo til) til borgarinnar til að mæta í brúðkaup á laugardaginn (hlakka svo til), ég flýg svo hingað austur aftur líklega á sunnudeginum og sæki börnin. Vona bara að þau geri ekki út af við ömmu sína þessa þrjá daga.
Ég set svo inn myndir þegar ég er komin heim, LOFA :)

Sunday, June 22, 2008

Bara gaman

Í dag var ég með í að "gæsa" eina af mínum betri vinkonum og ég vona að hún hafi haft gott og gaman af.
(ég vil endilega bæta því við að ég fór í keilu í fyrsta skipti á ævinni í dag, (lenti í þriðja sæti af fimm meira að segja, hlýtur að vera meðfæddur hæfileiki :)))
(eigum við að ræða þetta "colgate" bros eitthvað?)

Friday, June 13, 2008

Afmæli


"Litla" stelpan mín verður fimm ára á morgun, rosalega líður tíminn hratt.







Tuesday, June 10, 2008

Fínn dagur





Ég fór í fyrsta skipti í morgun að sigla á kajak, fór út á Hafravatn og skemmti mér ágætlega. Er ekki sú flinkasta að beygja og "sigldi" þar af leiðandi oft í vitlausa átt og endaði oftar en ekki á bátnum hans Tomma :). En eins og einhver sagði "æfingin skapar meistarann".

Mamma er að koma í heimsókn til okkar í fyrramálið og ætlar að dvelja hjá okkur fram yfir helgi, bara gaman að því enda tæp 2 ár (held ég) síðan hún kom til mín síðast. Elfa systir og hennar börn eru líka að koma í bæinn um helgina svo og Álfheiður systir og hennar afkvæmi, og ætla þær systur mínar að gista saman í íbúð í Grafarvoginum að ég held. Þetta þýðir að ég fæ gríðarlega hjálp við að undirbúa afmælin tvö sem verða hér næstu helgi, alltaf gott að þurfa ekki að standa í þessu aleinn þó það sé í raun og veru ekkert mál, bara gaman að hafa félagsskapinn.

Sunday, June 08, 2008

Nýtt heimilistæki

LOKSINS fórum við og keyptum "alvöru" þvottavél. Ég veit að sumir hefðu ekki haldið upp á mína gömlu svona lengi, hún vatt ekki almennilega (það lak úr þvottinum eftir vindingu) og í síðasta mánuði fór hurðin að taka upp á því að festast og þá nennti ég ekki meiru.
Nú á ég þvottavél sem er með allskonar kerfum en ég hef ekki áður haft, ullarþvott, silkiþvott, handþvott og sparnaðarþvott. Ég get ráðið hraða á vindingu og fleira og fleira. Ég held að Tommi sé nú ekki alveg að skilja þennan fögnuð hjá mér enda er honum bannað að koma nálægt þvottavélum hér ;)
En sem sagt, eftir 14 ára búskap á ég loksins almennalega þvottavél sem tekur meira að segja 6 kg. í stað þeirra 3,5 sem sú gamla tók..........gaman, gaman.

Friday, June 06, 2008

Ááá

Hverjum öðrum en mér tekst að brenna sig á kinninni þegar verið er að baka??
Ég bara spyr!!

Thursday, June 05, 2008

Jæja það hefur gerst einu sinni enn, búið er að breyta vaktaplaninu hjá Tomma einu sinni enn. Alveg merkilegt hvað er hægt að vesenast með þetta fram og til baka. Stjórnendur þarna ættu frekar að einbeita sér að því að hafa skriflegt skipulag á sumarfríum starfsmanna sinna því það kom loksins í ljós í dag eftir smá bið að T fær ekki sumarfrí á þeim tíma sem hann vill, honum býðst að taka frí í ágúst, júhú þá er ég í prófum og vill ekkert hafa hann heima. (GARG)!!

En að einhverju jákvæðu - get svo svarið það, finn bara ekkert jákvætt, reyni aftur á morgun :)

Friday, May 30, 2008

Nokkrar myndir

Jæja, ég ákvað að láta loksins verða af því að setja inn nokkrar myndir, á fyrstu myndinni er Lilja Rós sjálfsagt á leiðinni í afmæli, mynd númer 2 sýnir þau systkinin á hjólunum sem þau fengu í sumargjöf, en restin er frá Spáni. Lilja Rós naut sín í laugunum, og svo eru nokkrar frá því við fórum í heimsókn í safarí dýragarð. Og nú má ENGIN kíkja hér inn nema að kvitta, mig langar að vita hverjir skoða þetta blogg mitt.










Tuesday, May 27, 2008

Hvar er sumarið??

Jæja, þá er allt að falla í ljúfa löð aftur. Ég er búin í prófum og þrjár einkunnir komnar, (so far, so good), bíð ennþá eftir þeirri síðustu. Fór austur í afmæli til Álfheiðar systur um miðjan maí og það var bara gaman þrátt fyrir slappleika hjá mér, hef sjaldan hlegið eins mikið þegar "skrautið" var sett upp og sungið með það. Elfa systir verður að senda mér myndir svo ég geti sett það hingað inn.
Við Lilja Rós héldum svo til Spánar ásamt tengdó 19.maí og vorum þar í viku (komum heim í gær). Það var yndisleg ferð, gaman að sjá þá stuttu (og þá meina ég Lilju Rós) njóta sín í sundlaugunum, og gaman að sjá tengdó hitta systur sína í fyrsta skipti á ævinni. Við vorum á frábærum stað, heyrðum ekki íslensku í heila viku, en ég vil alltaf vera sem lengst frá mínum samlöndum þegar ég er í fríi. Ég gat ekki tekið margar myndir úti þar sem vélin mín var nær batteríslaus, en tengdó tók um 7 filmur held ég ;). Ég fæ eitthvað af þeim en þar sem ég nenni ekki að læra á skannann okkar þá munu þær ekki verða til sýnis hér.
En það er best að fara að húsmæðrast aftur, heimilið er ekki hreint um þessar mundir þar sem ég hef ekki gert handtak síðan í byrjun apríl...........alltaf sami dugnaðurinn í mér :)

Monday, May 12, 2008

Heitur dagur :)

Ég er opinberlega orðin brennuvargur ;)
Kveikti í í dag, en náði að slökkva sjálf.....svaka dugleg ;)
En síðasta prófið á morgun, og svo verð ég mamma aftur

Monday, May 05, 2008

Góðar fréttir

Fallega tölvan mín er komin í hús, með nýjan og fínan skjá :)
Ég á bara eitt próf eftir og það er eftir tæpa viku :)
Ég fer austur á Egilsstaði eftir rúma viku :)
Ég fer til Marbella eftir tæpar 2 vikur :)
Þegar heim er komið aftur hefst prófalestur............enn og aftur ;)

Saturday, May 03, 2008

Hvað er í gangi.....ég bara spyr

Fyrir rúmlega ári síðan hrundi tölvan mín mér til mikillar mæðu, prófin voru að koma en allt reddaðist fyrir horn.
Hvað haldið þið að hafi gerst síðasta miðvikudag??
Nýja fína tölvan mín sem ég keypti í febrúar bilaði, skjárinn er ónýtur...........það á ekki af manni að ganga. Já ég veit að þetta er dauður hlutur og ég á að vera glöð að vera hress og blablabla, en það er ekki það sem ég hugsa núna. Og hana nú!!
Nú óska ég eftir samúðarkommentum :)

Tuesday, April 29, 2008

20 dagar....

Í dag eru bara 20 dagar þangað til við mæðgur förum til Spánar í sólina (vonandi verður sól). Ég var að telja þetta í gær, en þetta getur bara ekki staðist. 20 dagar er svo stuttur tími og á þessum tíma á ég eftir að taka 3 próf og fara í helgarferð til Egilsstaða. Hvernig getur þetta staðist, ég bara spyr??

Monday, April 21, 2008

Púff....

Jæja þá er ein hindrun yfirstigin, ég fór í munnlegt próf í morgun og lifði það af. Stóð mig reyndar ekkert afskaplega vel en einkunn kemur annað hvort á morgun eða hinn og þá veit ég þetta fyrir víst. Kennarinn var með rauð plastglös á borðinu ef við vildum fá vatn að drekka og ég fann þegar leið á prófið að ég varð alltaf líkari glösunum á litinn í framan.....hahaha (er ekki að grínast). Ég held að hún hafi vorkennt mér óskaplega, kannski fæ ég samúðarstig, (nei líklega ekki).
Svo eru verkefnin að koma til baka þessa dagana og einkunnir þar eru stórfínar þó ég segi sjálf frá, að minnsta kosti gleðja þær mitt litla hjarta sem sló óskaplega hratt í morgun í munnlega prófinu.

Wednesday, April 16, 2008

Jæja þá er sonurinn lagstur enn eina ferðina í vetur, ég bara skil ekki hvað er í gangi með þetta barn. Ég er sem sagt heima í dag, en kemst aftur í prófalestur á morgun því að Tommi ætlar að vera með hann heima á morgun og á föstudaginn ef þarf.

Annars er allt gott að frétta af okkur, fyrsta prófið hjá mér er næstkomandi mánudag og það er munnlegt og lifi ég það ekki af þá munuð þið væntanlega frétta fljótlega af því ;) (má reyndar tala íslensku í prófinu, sem betur fer því að annars færi ég ekki í það)

Svo styttist í þrítugsafmæli hjá stóru systur og svo Spánarferð strax á eftir, nóg að hlakka til :)

Thursday, April 10, 2008

Einhverjir eru að kvarta undan bloggleysi hjá mér en ástæðan fyrir því er afskaplega einföld: Ég hef nákvæmlega ekkert að segja ;)´
Ég lagði jú reyndar land undir fót síðasta föstudag ásamt Lilju Rós og Jóhanni, við keyrðum á Höfn og hittum þar Álfheiði systur og hennar börn, ömmu og afa og öll systkini pabba sem þar búa. Þetta var mjög góð ferð og það var alveg frábært að sjá hvað Árni Jökull og Lilja Rós eru góðir vinir. Eins var líka frábært að sjá hvað Katrín og Kristjana eru alltaf tilbúnar til að hjálpa mér með Jóhann hvort sem ég bið um það eða ekki. Takk stelpur fyrir alla hjálpina :)
Við keyrðum svo heim aftur á sunnudag og þá sá ég hvað ég á duglega stelpu, ég var nefnilega lasin og Lilja Rós gerði sér alveg grein fyrir því og hún sá alfarið um bróður sinn alla leiðina, gaf honum það sem hann vantaði og þess háttar. Ég þurfti ALDREI að stoppa alla þessa leið og geri aðrir betur (sem er reyndar ekki hægt) með tvö lítil börn. Þegar heim kom þá lagðist ég upp í rúm og þessi vika hefur farið í slappleika og verkefnavinnu. Verkefnum var skilað í dag og nú hefst bara prófalestur strax eftir helgi.

Ég er ein heima alla helgina (ein heima = ég og börnin), þannig að ef einhver vill bjóða okkur í kaffi eða bjóða sér í kaffi til mín endilega látið mig vita :)

Wednesday, March 26, 2008

Af því að þið eruð svo dugleg að kvitta þá bara neyðist ég til að skrifa meira ;)

Ég var að rifja það upp áðan að núna er ca ár síðan:
- ég varð dagmömmulaus og var heima með Jóhann í um það bil 4 vikur
- tölvan mín hrundi og allt skóladótið hvarf (fékk það þó aftur seinna)
- Lilja Rós veiktist og endaði inn á spítala

Já það var sko stuð fyrir vorprófin í fyrra og ég fékk EKKI taugaáfall, hvað er ég þá að stressa mig núna þó að Jóhann sé búin að vera veikur í tvær vikur í þessum mánuði??

Thursday, March 20, 2008

Var að koma heim úr matarboði hjá tengdaforeldrum mínum í tilefni þess að hann tengdafaðir minn á afmæli í dag. Fengum ofsalega gott að borða og ég er gjörsamlega að springa.
Á morgun ætla svo þau að koma í mat til okkar og borða svínahamborgarhrygg.

Við fjölskyldan fórum rúmlega 10 í morgun að gefa öndunum brauð, ég var næstum dauð úr kulda en börnin skemmtu sér vel, Jóhann stóð fyrir framan svani sem voru stærri en hann og rétti þeim brauð og sagði ákafur "héddna, héddna". Lilja Rós sá hins vegar önd sem var með skakkan fót og vildi sko helst gefa henni af sínu brauði.
Á laugardag er svo fyrsta bíóferð frumburðarins, Jóhann fer til ömmu sinnar og afa en við Tommi ætlum að fara með dömuna á (vonandi) ágæta teiknimynd.

Í dag var svo ákveðið að ég fer með barn/börn á Höfn þann 4.apríl og Álfheiður systir ætlar að koma með sín börn, þar ætla ég að hitta hana Svanfríði frænku sem er þar nú stödd í heimsókn og að sjálfsögðu ætla ég að kíkja líka á ömmu og afa. Þetta verður án efa skemmtileg ferð, býst samt við að bílferðin verði minnst skemmtileg ;)

Hef ekki meira að segja í bili, ætla svo að reyna að setja inn myndir fljótlega.

Óska svo öllum gleðilegra páska.

Monday, March 17, 2008

Hvernig líst ykkur á þessi nöfn??

- Hildiglúmur Bambi
- Ljótur Ljósálfur
- Ormhildur Pollý

Nei ég bara spyr, því þetta eru nöfn sem mannanafnanefnd hefur samþykkt.

Friday, March 14, 2008

Pestabæli, próf og páskar

- Hlaupabólan er búin
- Lilja Rós er orðin lasin
- Tók próf í fjármálum í dag, og lofaði að ég myndi garga yfir bekkinn ef ég fengi átta (slepp pottþétt við það:))
- Þarf að mæta í skólann kl.8 í fyrramálið og taka þátt í kynningu um Landsvirkjun, ég ætla reyndar ekki að segja orð, það gæti liðið yfir mig :)
- Ég skilaði skattaframtalinu áðan og vona bara að bráðabirgðaútreikningur haldist
- Ég ætla að versla í páskamatinn um helgina (sluurp) og "skreyta" fyrir páskana

Hef ekki meira að segja í bili, ætla að horfa á "Bandið hans Bubba" og fara svo upp í rúm að horfa á NCIS. Keypti eina seríu á DVD um daginn og er forfallin, á orðið 3 seríur.

Monday, March 10, 2008

Heima og letin bara eykst og eykst....

Í dag er fjórði dagur í bólu og Jóhann lítur bara ótrúlega vel út enn sem komið er.
Við skutluðum Lilju Rós í enn eitt afmælið áðan, vitlaust að gera í félagslífinu hjá henni, (amk miðað við mig ;))
Nú styttist í að Álfheiður systir kíki í kvöldmat til okkar, hún reyndar óskaði sérstaklega eftir því að fá mat sem ég bý ekki til, hmmmm hvernig á maður að túlka það :)
Annars er ekkert að frétta héðan, nema kannski jú að Lilja Rós getur ekki klætt sig sjálf í sokka því hún er með svo þunnar tær (hvað sem það nú þýðir)
Það svoleiðis vellur upp úr henni spekin þessa dagana.

Friday, March 07, 2008

.....

Dóttir mín er mikið að spá í dauðann þessar vikurnar. Hvers vegna, veit ég ekki, því engin sem við þekkjum hefur sagt skilið við þetta jarðlíf nýlega (sem betur fer).
Um daginn spurði hún mig upp úr þurru hvernig maður myndi drukkna, hvað myndi gerast.
Nokkrum dögum síðan kom ég að henni hágrátandi upp í rúmi og gat loksins dregið það upp úr henni að hún vildi að amma Sylvía myndi aldrei deyja. Því gat ég auðvitað ekki lofað en sagði henni að líklega yrði hún lengi í viðbót hjá okkur.
Áðan spurði hún mig hvort maður myndi deyja með tunguna út úr sér. Og oftar en ekki hefur hún sagt fólki frá langömmu og langafa sem eiga heima á Höfn en eru löngu "dauð". (Til að forðast allann misskilning þá eru þau sprelllifandi á Höfn).
Þetta er nú meiri pælingarnar hjá henni :)

En af okkur er annars allt gott að frétta, í dag er fyrsti í hlaupabólu hjá Jóhanni þannig að ég sé fram á þó nokkra inniveru næstu daga.
Annars er ég bara feginn að hann nældi sér í þetta því þá er þetta bara búið :)

Sunday, March 02, 2008

Jæja þá er mars genginn í garð, páskar á næsta leyti, rosalega líður þetta hratt.
Þetta er búin að vera góð helgi, fengum heimsóknir bæði í gær og í dag og hér var mikið stuð.
Börnin eru bæði frekar þreytt, en Jóhann situr stjarfur núna yfir Múmínálfunum.

Ég er að fara í Kringluna í fyrramálið að kaupa mér skó, LOKSINS, það er nefnilega gat á mínum og ég er alltaf blaut í fæturna þessa dagana. Ætla meira að segja að kíkja á nokkrar flíkur líka (suss, ekki segja Tomma :))

Friday, February 29, 2008

Þetta er bara snilld

Endilega kíkið á þetta, þetta er bara snilld. Vildi að ég hefði vitað af þessu fyrr ;)


http://visir.is/article/20080229/LIFID01/80229067

Thursday, February 28, 2008

Nýtt útlit

Jæja ég hafði mig loksins í það að setja inn tengla á ýmsar heimasíður hér, og eins að breyta um útlit. Það er nauðsynlegt fyrir mig að gera það annað slagið :)
Af okkur er í raun ekkert að frétta, allt gengur sinn vanagang. Okkur sárvantar ennþá barnapíu. Ef einhver veit um góða stelpu endilega hafa samband við mig, ég er tilbúin að borga vel að mínu mati, en samt ekki 1.250 kr. á tímann eins og ein vildi ;) (vantar bara pössun til 13.maí, ekki næstu 50 árin)
Próftafla kom í dag og ég er hæstánægð, er í prófi 30.apríl, 3.maí og svo 13.maí.
Reyndar er eitt munnlegt próf líka en ég fæ að vita seinna hvenær það verður.

Thursday, February 21, 2008

Vegamót

Ég komst að því í gærkvöldi að ég fer of sjaldan niður í bæ. Ég var búin að mæla mér mót við tvær vinkonur á Vegamótum klukkan hálfátta í gærkvöldi. Ég lagði af stað heiman frá mér um 19:10 full bjartsýni að 20 mínútur væru meira en nóg að keyra niður eftir og finna stæði. En nei ó nei það tók mig rúmlega 20 mínútur að finna bílastæði. Og það var nú ekki allt, ég ók allar þessar götur fram og til baka, innakstur var bannaður á fimm sekúndna fresti og ég keyrði í allar áttir að mér fannst. En svo loksins var ég nú komin á rétt ról, var á Bergþórugötunni, og svo á Frakkastíg og þá vissi ég nú alveg í hvaða átt ég átti að fara og fór þá leið. Var sko alveg að koma að Vegamótum (á Vegamótastíg) þegar fröken Hallgrímskirkja birtist, talandi um að vera áttavilltur :)
En þetta tókst að lokum og kvöldið var gott, maturinn góður og mikið hlegið.

Saturday, February 16, 2008

Góður dagur :)

Þetta er aldeilis búinn að vera fínn laugardagur. Byrjaði reyndar á því að ég komst ekki í skólann þar sem "barnapían" hefur ekki svarað í símann í tæpa viku, hún mætti ekki heldur í heimsóknina til okkar þannig að mig grunar sterklega að hún ætli ekki að passa fyrir okkur en hafi ekki nægilegan manndóm í sér til að segja okkur það. (miklu betra bara að láta sig "hverfa").
En Lilju Rós var boðið í afmæli í Ævintýralandi Kringlunnar í dag, þannig að ég fór þangað með börnin rétt eftir hádegi að kaupa afmælisgjöf, hún fór svo í afmælið og við Jóhann héldum upp í Grafarvog þar sem ég og tvær aðrar úr Háskólanum hittumst með börnin. Þar var okkur boðið upp á vöfflur, kex og osta. Held að Jóhanni hafi tekist að borða næstum heilan pakka af Tuc-saltkexi, en hann hefur alltaf verið mikill áhugamaður um saltkex ;)
Núna erum við komin heim og börnin sitja og horfa á Lísu í undralandi í prúðuleikaraformi.
Nú styttist í að mamma og pabbi komi í bæinn, og sömuleiðis Elfa og Jói, alltaf gaman að fá EGS-fólkið í heimsókn, og ekki má gleyma því að góð frænka frá Ameríku kemur bráðum og ég vona svo sannarlega að hún gefi sér tíma til að hitta okkur, ég gæti kannski boðið henni í steiktar kjötbollur.
Svo lofaði ég víst að vera með í skipulagningu endurfunda míns árgangs, hefði betur sleppt því, hef nákvæmlega engan tíma í þetta núna, en það verður að hafa það. Verð að fara að standa við gefin loforð og fara að hringja í fólk.

Friday, February 08, 2008

Smá "update"

Jæja gott fólk ef það er ennþá einhver sem les þetta.
Það er svo sem ekkert að frétta af okkur nema að það kemur dama að heimsækja okkur í byrjun næstu viku og hún stefnir á að verða barnapían okkar :) (Takk Halla fyrir að redda mér). Vonandi líst henni bara vel á okkur og ákveður að passa.
Ég er búin að bóka ferð fyrir mig, tengdó og Lilju Rós til Spánar, farið verður seinnipartinn í maí og dvalið í viku. Ástæða þessarar ferðar er sú að tengdó á eina hálfsystur á Englandi og eina á Spáni. Þær þrjár hafa ákveðið að hittast (Sylvía hefur bara hitt aðra þeirra) og þar sem tengdó talar ekki ensku þá fer ég með sem túlkur ;). Ákvað að kippa LR með, hún hefur bara gaman af því að fá að "eiga" mömmu sína Jóhannslausa í eina viku.

Langar svo bara að enda þennan pistil á einni spurningu:
Hvað er málið með föstudaga í janúar og febrúar, ég er fjúkandi hér um allt þessa dagana. Rann í dag nokkra metra hér á bílastæðinu og ákvað þar af leiðandi að fá aðstoðarmanneskju til að sækja börnin á leikskólann, (Takk fyrir það Gunna).

P.S. Ég læri greinilega ekki að reynslunni, fór á háhæluðu kuldaskónum aftur í skólann í dag og held að ég hafi helst líkst mörgæs þegar ég var að labba að bílnum mínum í dag í hálkunni :)

Friday, February 01, 2008

Bara gaman...

Þessa dagana nóg í gangi hjá mér og bara gaman að því,
- ég keypti mér nýja fartölvu í dag, hún er lítil og nett (voðalega falleg)
- uppáhaldsfrændi hennar Lilju Rósar ætlar að gista hjá okkur næstu nótt
- bolludagur er framundan og ég ætla að borða nokkrar bollur af bestu lyst
- það er kannski eitthvað að gerast í barnapíumálum, kemst á hreint í næstu viku
- utanlandsferð er jafnvel á næsta leyti en það skýrist bráðum :)

Eina sem ég gæti helst kvartað undan er að það er skóli hjá mér KLUKKAN ÁTTA í fyrramálið (laugardagsmorgun), svona lagað ætti að banna, finnst ykkur það ekki??

Monday, January 28, 2008

New Kids on the Block

Ég var að heyra á Bylgjunni að New Kids on the Block eru að koma saman aftur. Svanfríður heyrirðu það?? Við vorum nú ekki lítið skotnar í þeim hérna um árið. Vorum sannfærðar um að þeir væru að horfa á okkur af plakötunum og svona, hihi.
Þeir eru víst búnir að opna vefsíðuna aftur og hvaðeina.
Eru ekki allir að missa sig úr spenningi núna....

Saturday, January 26, 2008

Sýkingadagur

Þegar ég sótti Lilju Rós á leikskólann á miðvikudaginn þá fór hún að spyrja mig hvenær "sýkingadagurinn" væri. Eins og þið getið flest ímyndað ykkur þá gat ég EKKI svarað þessu. En hún hélt fast við þetta og sagðist meira að segja vera búin að búa til "sýkingakórónu".
Ég sagðist ekki vita hvað þetta væri, en ég veit það núna...........

Friday, January 25, 2008

Góð byrjun á deginum...

Dagurinn byrjaði að sjálfsögðu á því að koma börnunum á leikskólann, Jóhanni var nú ekki vel við haglélið sem þurfti endilega að lemja hann meðan hann var úti, en jafnaði sig nú fljótt.
Þar sem ég þurfti að mæta í tíma kl.08:20 þá dreif ég mig af stað frá leikskólanum um áttaleytið. Ferðin gekk ótrúlega vel miðað við skafrenning, og ég var bara 40 mínútur á leiðinni :)

Ég fann mér ágætis bílastæði sem var þó talsvert frá kennsluhúsinu þannig að ég barðist við rokið en komst að lokum inn í Odda úfin og rjóð í kinnum með þunga tölvutösku á annarri öxlinni og risavaxna bók í fanginu. Ég labbaði talsvert langan gang þar til ég kom að kennslustofunni, (þarna var klukkan um 08:40), þegar ég opna dyrnar inn í hana blasir við mér hálffull stofa af nemendum en enginn kennari. Ég fæ mér sæti en heyri svo fljótlega að kennarinn er staðsettur í Háskólabíói og er að kenna nokkrum þar. Einhver misskilningur á ferðinni þarna ;)

Ég ákvað að rölta í "góða veðrinu" yfir í Háskólabíó. Þessi gönguferð byrjaði svo sem ágætlega, ég rogaðist með farangurinn út úr Odda, framhjá Árnagarði, yfir Suðurgötuna þar sem ég fauk á einn skafl. Þá var ég komin á bílaplanið hjá Háskólabíói og gekk sú ferð með ágætum, en þá gerðist það......þegar ég var næstum komin að Háskólabíói þá þurfti ég fyrir það fyrsta að labba yfir ruðning til að komas upp á gangstétt, ég steig full bjartsýni upp á ruðningin í háhæluðu kuldaskónum mínum (stupid, I know), og bjóst við að sökkva upp að hnjám, en nei,nei, þetta var þá GLERharður ruðningur með svona líka fínu svelli þannig að ég rann á fullri ferð með hendurnar í allar áttir niður á gangstéttina. Náði samt sem betur fer að halda mér á fótunum. Næsta sem ég vissi var að það kom vindhviða og ég bókstaflega FAUK, en sem betur fer greip handrið mig.

Ég stóð í ca 10 sek. upp við handriðið og hugsaði með mér hvað í veröldinni ég ætti nú að gera, en þá kom þessi líka yndislegi samnemandi minn (maður um fimmtugt), rétti mér hendina og sagði, "á ég að hjálpa þér". Ég tók í höndina á honum, leið eins og ég væri fimm ára og hann leiddi mig inn.

Sem betur fer fékk ég far til baka yfir í Odda þegar þessari kennslustund lauk :)

Friday, January 18, 2008

Helgi framundan

Sá sjaldgæfi "hlutur" mun gerast um helgina að ég verð barnlaus í ca sólarhring (ef allt gengur upp). Hvað haldið þið að ég ætli að gera??

Tuesday, January 15, 2008

JIBBÝ

Jæja síðasta einkunnin kom LOKSINS í dag, hélt að hún myndi aldrei koma.
Niðurstaðan er sem sagt að ég náði öllum prófunum (sem voru reyndar bara fjögur), og er bara ánægð með það. Ein einkunnin verður reyndar vonandi löguð í haust því ég stefni að því að taka prófið aftur til að fá hærri einkunn.

En það er best að halda áfram að skrifa um lykilgetu fyrirtækja, svo ofsalega skemmtilegt ;)

Friday, January 11, 2008

Fallegt fólk :)



Og nú spyr ég, hver líkist hverjum?? Eitt er alveg á hreinu að við systur erum ekki líkar hver annarri.
P.S. Ég kemst ekki út að borða um helgina :(

Thursday, January 10, 2008

Mig langar út að borða um helgina................annars er ekkert að frétta :)

Saturday, January 05, 2008

MONTIMONT

Ég er nú ekki vön að koma með einkunnir hér inn, en nú bara verð ég. Fyrsta nían er komin í hús, MIKIÐ VAR!!
Þessi einkunn hækkaði meðaleinkunnina mína upp í svokallaða fyrstu einkunn, og það er bara frábært.
Svo er bara að bíða eftir næstu tölum sem koma vonandi fljótlega, ég þykist reyndar vita að þær tölur lækka meðaleinkunina mína en það verður bara að hafa það.

Saturday, December 29, 2007

Ég er ennþá fyrir austan, á Eyjólfsstöðum nánar tiltekið í góðu yfirlæti.
Hér er góður matur, gott jólaöl, og það sem skiptir mestu máli er að börnin una sér vel.
Tommi kom að kvöldi 22.des og fór aftur að morgni 26.des.
Á gamlárskvöld koma svo Elfa og fjölskylda hingað til okkar og við ætlum öll að borða saman og hafa það gaman.
Ég er orðin enn ákveðnari í því að þegar námið hjá mér er búið þá langar mig að flytja út á land, og vonandi taka allir vel í það í fjölskyldunni, þó ég efist nú reyndar um það ;)

Ég hef ennþá ekki ákveðið hvenær ég fer aftur suður eftir áramótin, og ég finn fyrir örlítilli hræðslu hjá Álfheiði og fjölskyldu um að ég verði hér að eilífu.

Ef ég blogga ekkert fyrir áramótin þá óska ég öllum gleðilegs nýs árs :)

Wednesday, December 19, 2007

Jólin, jólin, jólin koma brátt

ÉG ER KOMIN Í JÓLAFRÍ :)

Fer austur með börnin á morgun, og mun örugglega ekki blogga fyrr en eftir áramót.

Óska öllum sem þetta lesa gleðilegra jóla og vona að allir hafi það gott yfir hátíðirnar.


Kveðja,
Jóla - Védís

Saturday, December 15, 2007

Ný útgáfa

Ég er á hlöðunni að læra en ég bara varð að setja þetta hér inn.
Lilja Rós var að syngja fyrir mig í gær og svona hljómaði það:

Bráðum koma blessuð jólin
börnin fara að hlakka til.
Allir fá þá eitthvað fallegt,
í það minnsta kerti og SPIK
Það er ekki nokkur leið að fá hana til að viðurkenna það að það eigi að vera spil.
Svona syngjum við þetta á leikskólanum, var svarið sem ég fékk.

Friday, December 14, 2007

Fínn dagur í dag

Þetta er búin að vera fínn dagur í dag, þrátt fyrir rokið og rigninguna sem kom aðeins inn í stofu til mín.
- Ég fékk fyrstu einkunnina mína í dag og er þokkalega ánægð með hana.
- Ég tók próf númer tvö í dag og það gekk ágætlega held ég.
- Í morgun "fauk" bíll á minn bíl, (fauk er innan gæsalappa því þetta var svo lítið tjón) alltaf gaman að því þegar maður þarf að fara að standa í þessu tryggingarveseni sem svona fylgir.

Nú eru bara 6 dagar þangað til ég og krakkarnir fljúgum austur og við hlökkum bara til, og bara 5 dagar þangað til ég er komin í jólafrí til 7.janúar.

Sunday, December 09, 2007

Í gær...

- tók ég próf í International Business
- fór ég með börnin í jólaklippingu
- keypti ég jólagjafir handa börnunum mínum
- fór ég á málverkasýningu hjá vinkonu minni, mikið voru það fallegar myndir
- fór ég á jólahlaðborð á Hótel Loftleiðum, rosalega góður matur og góð þjónusta
- fór ég að sofa fyrir miðnætti barnlaus og svaf til rúmlega átta í morgun :)

Í dag ætla ég að gera nákvæmlega ekkert sem tengist skólanum, bara þvo þvott, fara og versla (ekki veitir af því ég er núna að drekka kaffi með mjólk sem hleypur), og kannski vera örlítið meiri húsmóðir en ég er búin að vera í tæpar 2 vikur.

Saturday, December 08, 2007

Próf á eftir

Fyrsta prófið er eftir rúman klukkutíma og ég er svo stressuð akkúrat núna að ég gæti gubbað.
Alveg ótrúlegt hvað maður lætur þetta hafa áhrif á sig, ekki eins og himin og jörð farist þó fall verði raunin, annað eins hefur nú gerst.

En vonandi gengur þetta ágætlega og vonandi held ég öllu niðri :)

Saturday, December 01, 2007

Desember genginn í garð

Núna er ég búin að kaupa allar jólagjafir fyrir utan tvær sem verða keyptar á EGS og svo á ég eftir að finna gjafir handa börnunum mínum. Jólakortin eru komin í hús frá Hans Petersen og ég get sagt ykkur að það var lööööng leið fyrir blessuð kortin. Eitthvað af skrauti er komið upp og þrjú dagatöl fyrir börnin, ekki má nú minna vera.
Við Lilja Rós erum búnar að vera svakalega duglegar og föndra yfir 20 jólakort sem hún ætlar að setja í hólfin hjá þeim krökkum sem eru með henni á deild á leikskólanum, þetta er gert að hennar eigin ósk. Búið er að skreyta slatta af piparkökum bæði í Garðabæ og í Reykjavík, það er sko nóg að gera hjá okkur þessa dagana og bara gaman að því.
Ég reyni að læra eins og ég get miðað við aðstæður, það er nú eitthvað afskaplega takmarkað en ég verð víst bara að reyna að gera gott úr þeim tíma sem ég fæ. En ef einhvern langar óskaplega að taka að sér börn í desember þá er bara að taka upp símann og hringja :)

Monday, November 26, 2007

Stökkperlur??

Þegar ég var komin langleiðina í skólann í morgun þá hringdi farsíminn minn, ég sá á skjánum að þetta var leikskólinn. Mín fyrsta hugsun var að nú væri annað hvort barnanna orðið lasið. En nei, nei í símanum var deildarstjórinn á deildinni hennar Lilju Rósar, daman hafði verið að perla og ein perlan hafði bara "lent" í annarri nösinni á henni, hún gat ekki náð henni og vildi endilega að ég færi með hana til læknis sem gæti náð þessu. Ég fékk að sjálfsögðu hláturskast í símann eins og góðri móður sæmir og datt í hug Madditt og Beta. Ég hringdi í Tomma þar sem hann var heima í vaktafríi og hann skaust á leikskólann með flísatöng, náði perlunni og fór svo aftur heim.
En Lilja Rós heldur sig alveg við það að perlan hafi bara lent í nefinu á henni, hún setti hana ekki þar, ó nei.

Tuesday, November 20, 2007

Jólin nálgast

Það er alveg ótrúlega stutt í jólin og í dag er nákvæmlega mánuður þangað til ég flýg heim með börnin. Þangað til sá dagur kemur er samt nóg að gera, það eru verkefnaskil, próf, og svo auðvitað reynir maður eins og hægt er að hafa aðventuna notalega fyrir Lilju Rós og Jóhann.
Reyndar sé ég ekki fram á að vera mikið heima frá 3.desember til 19.desember en hin þrjú hljóta að geta skapað notalega jólastemningu.

Annars hafa síðastliðnir dagar verið rólegir hjá okkur, ælupestin bankaði reyndar upp á í rúman sólarhring en það er vonandi búið og í gær og í dag hef ég verið að vakta hluta á drengnum sem er sunnar en höfuðuð til að athuga hvort gestir séu þar í heimsókn, (if you know what I mean).

Thursday, November 15, 2007

Afmæli

Þá er litli gaurinn minn orðinn tveggja ára, rosalega líður tíminn hratt.
Hann hlustaði á afmælissöng í morgun og klappaði vel fyrir mér og Lilju Rós að honum loknum.

Saturday, November 10, 2007

Tæknin að stríða mér

Sjónvarpið okkar var að bila í dag í annað skiptið á hálfu ári, finnst ykkur það ekki mikil gæði? Tækið er ekki orðið tveggja ára gamalt þannig að það er ennþá í ábyrgð en ef þetta á að vera svona næstu árin þá er alveg eins gott að henda því næst þegar það bilar (s.s. í apríl) og kaupa nýtt. Kannski ágætt að það bilaði í dag því ég er búin að vera dugleg að taka til og þrífa, með útvarpið í gangi.

En það er best að fara að setja í nokkrar tertur svo engin fari svangur héðan á morgun :)

Friday, November 09, 2007

Afmæli

Hann á afmæli í dag,
hann á afmæli í dag,
hann á afmæli hann Tommi
hann á afmæli í dag.

Já eins og nokkrir aðrir í minni fjölskyldu þá á Tommi afmæli í dag. Svo á Jóhann afmæli eftir tæpa viku og afmælisveisla fyrir hann verður haldin 11.nóvember. Nóg að gera í þessum afmælishöldum, bara gaman að því.
Ég á núna að vera að læra, baka, vera í Bónus, ganga frá þvotti, þrífa en í staðinn þá ákvað ég að fá mér kaffi og setjast fyrir framan tölvuna.

Monday, November 05, 2007

Það þarf nú lítið til að setja mig út af sporinu, og vinnuveitendum Tomma tekst að gera það núna rúmlega einu sinni í mánuði. Ég er farin að halda að hluti af þeirra starfslýsingu sé að búa til amk eitt nýtt vaktaplan í hverjum mánuði. Nú er búið að hringla enn einu sinni í vöktunum hjá "drengnum" þannig að núna er hann ekki á vakt um jól heldur um áramótin, og er á vakt nánast alla prófatörnina mína :(
En þar sem ég hef fulla trú á þessum mönnum og þeirra hæfileikum þá bíð ég spennt eftir næsta plani sem ætti samkvæmt mínum útreikningum að koma eftir tæpar 4 vikur.
En við hjónaleysin erum búin að ákveða að hvort sem hann verður að vinna um jól eða ekki þá fer ég austur með börnin og jafnvel hann líka um jól og ætla að hafa það rosagott þar.
Mér skilst að búið sé að skipta um hurðir BARA fyrir okkur og það verði bakaðar skonsur í hvert mál.

Annars er ekkert að frétta af okkar daglega lífi, Jóhann ræðir mikið um "sikka" og "sokka" (hvað haldið þið að það sé?), og Lilja Rós býður spennt eftir að hætta á leikskólanum svo hún geti gefið öllum krökkunum á deildinni ís eins og lög gera ráð fyrir þegar maður hefur skólagöngu. (N.B. það eru tæp 2 ár í það)

Saturday, November 03, 2007

Laugardagur

Skóli á eftir, Bónus eftir það og svo bara njóta þess að vera með fjölskyldunni.
Á morgun er svo afmæli hjá Bjössa og Karen og Lilja Rós er búin að hlakka til alla vikuna.
Sem sagt ósköp róleg helgi framundan sem eru yfirleitt bestu helgarnar.

Sunday, October 28, 2007

Hittingur

Ég fór inn á bloggsíðu hjá frænku minni fyrr í kvöld og rak þar augun í síðu sem var tileinkuð hennar árgangi úr grunnskóla. Í framhaldi af því fór ég að hugsa um hversu lítið ég veit um mína grunnskólafélaga (þ.e. frá Egilsstöðum, ég veit ekkert um þá frá Höfn), og hversu gaman væri að heyra frá þeim. Ég útskrifaðist úr grunnskóla vorið 1989 að mig minnir og við hittumst árið 1994 en svo ekki söguna meir.
Næsta vor eru 20 ár síðan við fermdust (Guð minn góður) og svakalega væri nú gaman að hittast í tilefni af því. Ef svo ólíklega vill nú til að einhver af mínum gömlu bekkjarfélögum lesi þetta blogg endilega látið þá heyra í ykkur. (en þar sem ég hef ekki samband við neinn af mínum <40 bekkjarfélögum nema tvö þá les þetta væntanlega enginn :))
Hvernig í veröldinni nær maður sambandi við fólk sem maður veit ekki hvar er??
Ég er nefnilega alveg að verða harðákveðin í því að þeir einstaklingar sem fermdumst í Egilsstaðakirkju og "Fellakirkju" vorið 1988 EIGI að hittast vorið 2008.

Friday, October 26, 2007

Helgi framundan

Jæja ég er komin í betra skap og hætt að tuða :)
Átti góðan dag í dag, fyrir hádegi fór ég og sinni ýmsum erindum og eftir hádegi var brunað í Toyota í Kópavogi að taka viðtal.
Eftir það fór ég með skólavinkonu í búðarráp og kaffisopa. Alltaf gaman að gera ekki neitt.
Kom heim með jólagjafir, jólapappír, myndaramma og ýmislegt fleira sem "vantaði" hingað heim.

Ætla svo snemma að sofa í kvöld, er endalaust að reyna að stoppa pestina sem er stöðugt að banka á þröskuldinn hjá mér.
Á morgun ætla ég svo að fara með börnin á Akranes, við erum að fara í afmæli hjá vini hennar Lilju Rósar og kíkja á fleiri góða vini. Bara gaman.

Wednesday, October 24, 2007

Pirr, pirr og aftur pirr

Mikið xxxxxxx fer það í taugarnar á mér þegar fólk er sífellt að segja þessa setningu:
"það er svo mikið að gera hjá mér, ég bara hef ekki tíma", (þá er ég að vitna í fólk í ákveðnum skóla í ákveðnu fagi). Ég myndi halda að það væri álíka mikið að gera hjá flestum, allir eru jú með námið á herðunum og ef ekki eru börn til staðar þá er fólk væntanlega með einhver áhugamál sem það sinnir utan skólatíma.
N.B. --> ALLIR ERU UPPTEKNIR EN ÞAÐ ÞURFA BARA EKKI ALLIR AÐ TUÐA UM ÞAÐ Í SÍFELLU

Jæja þá er það komið frá, jú svo eitt enn, af hverju hægir fólk á sér, gefur stefnuljós og beygir á nánast sömu sekúndu, er ekki betra að gefa fyrst stefnuljósið, hægja svo á sér og beygja að lokum??

En bara til að hafa eitthvað jákvætt með svo þið haldið ekki að ég sé að ganga af göflunum, þá er ég að fara með börnin á Akranes á laugardaginn í afmæli hjá vini hennar Lilju Rósar. Hún hlakkar mikið til og telur niður dagana.

Saturday, October 20, 2007

Í fréttum er þetta helst.....

- Börnin mín eru búin að sofa í sínum herbergjum í eina viku og hafa höndlað það bara nokkuð vel.

- Jóhann svaf í 13 tíma "straight" í nótt (og þeir sem til þekkja vita að það er heimsmet og vel það á þessu heimili)

- Tengdamamma á afmæli á morgun og ég óska henni til hamingju með það

- Hárin í eyrunum á okkur detta niður ef það er hávaði (samkvæmt Lilju Rós amk)


Það er greinilega mikil gúrkutíð hjá mér því að ég bara hef ekkert annað.
Skrifa meira þegar ég hef eitthvað að segja ;)

Saturday, October 13, 2007

Laugardagskvöld

Þá er komið enn eitt laugardagskvöldið. Ég er nýtthætt að stúdera lögfræði, en þar las ég um samninga, loforð, ógildingar, formgalla og ýmislegt fleira skemmtilegt.
Ég er ein heima, (fyrir utan börnin að sjálfsögðu) og hef það bara ósköp notalegt, hlustandi á útvarp og hangi í tölvunni og nýt þess að gera nákvæmlega ekkert af viti.

Á morgun ætlum við Lilja Rós í sunnudagaskóla í Íslensku Kristskirkjunni sem er staðsett í Grafarvoginum. Í fyrra fór ég nefnilega með Lilju Rós nokkrum sinnum í ónefnda kirkju í Reykjavík og mér leist nú ekki á það skal ég segja ykkur. Alltof mikið af fólki (svo kirkjurækið fólk hér í borginni), lélegt skipulag og engin skipti sér af þeim börnum sem hlupu gólandi út um allt, hvorki foreldrar né umsjónarmenn sunnudagaskólans.
Þannig að nú ætla ég að prófa að fara í "litla" kirkju þar sem mér skilst að börnunum sé skipt upp í hópa eftir aldri. Ég kannast nú við þó nokkra í þessari kirkju og þetta er bara fínasta fólk þannig að ég hlakka mikið til.

Og svo ég víki nú að allt öðru, þá fékk ég próftöflu í hendur í vikunni og komst að því að ég er í síðasta prófinu þann 19.desember. Þar sem Herra Thomas er að vinna á jólunum (ég er ekki að grínast), þá er ég alvarlega að hugsa um að fara austur með börnin rétt fyrir jól og dvelja þar í nokkra daga. Ég hef nefnilega engan áhuga á að eyða jólunum alein (fyrir utan börnin) hér í Reykjavíkinni. Hér eru engin matarboð hvorki á jóladag né annan í jólum þannig að bókstaflega þá yrði ég alein þessa daga. Hver nennir því??

En nú er klukkan farin að ganga tólf og þar sem ég þarf mjög líklega að vakna um það bil fimm sinnum ef ekki oftar áður en klukkan slær 7 í fyrramálið þá er best að fara að drífa sig í bælið.

Thursday, October 11, 2007

Skrítinn dagur

Þetta hefur verið afskaplega furðulegur dagur, og ég er ekki ánægð með niðurstöðuna.
Spurning hvert maður getur flutt ;)

Friday, October 05, 2007

Myndir - Enjoy

Hér eru nokkrar myndir frá "Kóngsins Köbenhavn". Merkilegt að ég get ekki verið eðileg á neinni mynd :)




























Tuesday, October 02, 2007

Komin heim og orðin árinu eldri

Jæja þá er maður komin heim aftur. Þetta var fín ferð og mér heyrist að ömmur og afar hafi komist nokkuð vel frá síðustu fimm dögum.
Lilja Rós var hæstánægð að fá okkur heim, og hún sagðist hafa saknað mín mikið, eða þess sem jafngildir 10 puttum upp í loft, og pabba síns saknaði hún líka en ekki eins mikið en hann fékk 5 putta upp í loft.
Ég held að Jóhann hafi ekki fattað að hann hafi ekki séð okkur í næstum fimm daga, og tók bara á móti okkur eins og alla aðra daga.

Við höfðum það mjög gott úti, borðuðum góðan mat, sváfum vel (vorum ekki vakin ca 10 sinnum á nóttu), og sumir (nefnum engin nöfn) versluðu pinkupinkupons :)

Nú tekur svo daglega lífið við, og ég sit núna og er að reikna ávöxtunarkröfur og ýmislegt annað skemmtilegt.

Wednesday, September 26, 2007

Köben og afmæli

Þá er loksin komið að því, sú gamla stefnir á Köben í fyrramálið. Og fyrir þá sem ekki vita þá á ég afmæli á morgun ;)

Ég er búin að pakka en átti voða erfitt því sökum anna þá náði ég ekki að útbúa Excel skjal sem inniheldur allt sem ég ætla að taka með mér. Ég er nefnilega vön að búa til svoleiðis og demba svo bara öllu ofan í tösku á fimm mínútum. (Ég veit að nú hlær Heiðrún og líklega Magnea líka)

Ungarnir fór til ömmu Sylvíu og afa Þráins fyrr í kvöld og voru hæstánægð með það, enda toppþjónusta hjá ömmur, og mig grunar að afi sé nú ekkert síðri, að minnsta kosti er hann Jóhann minn afskaplega hrifin af afa sínum og kallar oft á hann "afa Dáinn"

Hér fyrir neðan eru fjórar myndir frá Færeyjum, fyrir þá sem hafa áhuga. Reyndar voru teknar á annað þúsund myndir þar og við eigum ennþá eftir að sía út þær sem okkur langar að eiga á pappír.





Hér eru Lilja Rós og Jóhann í heimsókn hjá bróður Sylvíu


Hér er verið að gæða sér á ís í blíðunni á Sandey

Þetta er elsta húsið í Húsavík og jafnframt það sem blasti
við okkur þegar við litum út um eldhúsgluggann

Þarna dvöldum við í rúma viku og þarna leið okkur vel.
Í þessu húsi bjuggu amma og afi Tomma.













Friday, September 21, 2007

Þá er enn ein vikan liðin og ég að verða árinu eldri í næstu viku, rosalega líður þetta hratt.
Af okkur er svo sem ekkert nýtt að frétta, frumburðurinn er vinsæll hjá lúsunum þennan mánuðinn en vonandi er þetta orðið gott núna, síðustu lýs sáust í gær.
Ég eyði virkum dögum í kennslustundum eða í lestur á Þjóðarbókhlöðunni; nóg að gera.

Núna um helgina ætla ég mér að taka íbúðina í gegn því að mamma og pabbi ætla að vera hér með börnin næstu helgi og mér finnst ég verða að þrífa allt hátt og lágt áður en þau koma og "búa" hér í nokkra daga.

Nú varð nokkurra mínútna hlé á færslunni (þið tókuð auðvitað ekkert eftir því), því síminn hringdi og í símanum var gömul vinkona frá Egilsstöðum, gaman að því.

Tuesday, September 18, 2007

Þá er maður komin heim aftur frá Höfn. Afmælishöldin tókust vel í alla staði og ég tilheyri án efa skemmtilegustu fjölskyldu landsins, alltaf mikið hlegið, sungið og dansað þegar þetta fólk hittist. Afi og amma voru hæstánægð með þetta allt saman og það er það sem skiptir máli og ég vona að það líði ekki of langur tími þangað til við hittumst öll næst.

Svo styttist bara óðum í Köben, vona að það snjói ekki á okkur þar eins og gerði á Höfn.
Allt á fullu í skólanum, og í fyrsta skipti í langan tíma þá bara hef ég ekki nægilega marga klukkutíma í sólarhringnum og ætla hér með að kvarta og kveina yfir því :)

P.S. ég lifði af umræðutíma númer þrjú og þá eru bara níu eða tíu eftir.

Thursday, September 13, 2007

Ferðalag

Jæja þá er komið að því sem margir hafa beðið eftir.
Á morgun liggur leiðin á Höfn og á laugardag mun móðurfjölskyldan mín, (skemmtilegasta fólk í heimi ;)), koma saman og fagna níræðisafmæli afa míns.
Þetta verður án efa mjög skemmtileg helgi og við litla fjölskyldan munum bruna aftur í bæinn á sunnudag.
Auðvitað reynir maður líka að hitta föðurfólkið en mér skilst að fáir séu heima þessa helgi.

Góða helgi allir saman, ég veit að það verður gaman hjá mér og mínum :)

Friday, September 07, 2007

Ég er í fagi í skólanum sem kallast Utanríkisverslun, fyrirlestrar í þessu ágæta fagi eru haldnir einu sinni í viku í 40 mín, þeir fara fram á ensku þó að kennarinn sé Íslendingur í húð og hár.
Svokallaðir umræðutímar eru haldnir í þessu ágæta fagi einu sinni í viku og þeir eru í 90 mín. Mér til mikillar gleði þá fara þeir líka fram á ensku, eða eins og kennarinn sagði "þegar búið er að loka dyrunum þá er enska eina tungumálið sem má tala".
Síðasta þriðjudag var fyrsti tíminn í þessu líka ágæta fagi, ég byrjaði að kvíða fyrir þessum tíma vikunni áður og kvíðinn bara jókst og jókst eftir því sem nær dróg. Svo rann tíminn upp, og okkur var tilkynnt að hver og einn ætti að standa upp og kynna sig og segja aðeins frá sjálfum sér, á ensku að sjálfsögðu.
Þarna var ég komin að því að fá hjartaáfall, taugaáfall og ég veit ekki hvað.

N.B. í þennan áfanga eru skráðir 180 nemendur og okkur er skipt í 2 hópa í umræðutíma þannig að það er ansi mikið af fólki í tímum þó auðvitað mæti aldrei allir.

Svo kom röðin að mér, ég stóð upp, horfði fyrir ofan hausana á öllum (passaði mig á að horfa ekki í augun á nokkrum manni), sagði nafnið mitt, hvaðan ég er, hvar ég hef starfað og hvert ég hef ferðast og ég LAUG!! Alveg óvart samt. Ég sagðist hafa ferðast til Mið-Evrópu og NOKKURRA LANDA Í ASÍU. Málið var nefnilega þannig að þegar ég var búin að segja Mið-Evrópa þá gat ég ekki með nokkru móti mun hvað hinar heimsálfurnar heita og sú fyrsta sem loksins poppaði í hugann var Asía en þangað hef ég aldrei komið ;)

Svona getur stressið farið með mann góðir hálsar og þetta þarf ég að gera í hverri einustu viku fram að áramótum, þ.e. tala á ensku fyrir framan fullt af fólki, ég skal reyna að ljúga ekki í hvert skipti.

Monday, September 03, 2007

Mig langar í Humanchild/Mannabarn!!!!
Bara svona ef ykkur langar að vita það

Friday, August 31, 2007

Nýtt hár og ferðalög framundan

Nú ætti mamma að verða glöð ef hún sæi mig, mín er bara orðin ljóshærð að nýju. Og komst að því þegar ég borgaði nýju klippinguna og sjampóið að ég er komin í "millisíðan" flokk, nógu mikið borgaði ég :)

Skólinn byrjar á mánudaginn og ég bíð enn spennt eftir einkunnum, búin að kaupa nokkur kíló af bókum svo ég er tilbúin í slaginn.

Eftir tvær vikur er svo níræðisafmælið hans afa, og þá brunum við á Höfn í Hornafirði, og það styttist óðum í Kaupmannahöfn. Reyndar langar mig afskaplega mikið að fara til Egilsstaða 8.september í þrítugsafmælið hans Guðbjarts (ég er næstum viss um að hann er bara þrítugur), en það verður bara allt að koma í ljós þegar nær dregur.

Wednesday, August 29, 2007

Óskemmtilegir gestir

Í mestallan gærdag og í dag hef ég verið að berjast við óboðna gesti sem hafa hreiðrað um sig í hárinu á frumburðinum.
Þið sem til þekkið vitið að hún hefur talsvert hár á höfðinu og það tekur sinn tíma að þvo og kemba. Í gær makaði ég sérstakri hársápu í hárið á henni þrisvar sinnum og kembdi, (mér var ráðlagt að gera það tvisvar), og samt var líf í hárinu í morgun.
Þannig að í kvöld set ég eitthvert eitur í hárið á henni sem þarf að vera þar í 12 tíma og vonandi er ég þá búin að útrýma þessu.
Sonurinn er ennþá lúsalaus svo og ég og Tommi og vonandi helst það þannig.
Lilja Rós hins vegar stendur sig eins og hetja í allri kembingunni og kveinkar sér ekki einu sinni þó kamburinn rífi næstum og slíti hárið af stundum.

Saturday, August 25, 2007

Lilja Rós tilkynnti mér það í gær að ein "fóstran" (já ég nota þetta orð) á leikskólanum væri krulluð í framan.
Í ljós kom eftir smástund að hún var að meina krumpuð í framan. Henni finnst þessi kona vera krumpuð, eins amma hennar og afi hennar hérna í Reykjavík.
Fleiri virðast ekki vera krullaðir í framan í hennar augum ;)

Friday, August 24, 2007

Védís og raftækin hennar

Ég hef þann einstaka hæfileika að í hvert skipti (mér finnst það amk) sem ég kaupi raftæki þá reynast þau gölluð þegar heim kemur. Að sjálfsögðu átti þetta líka við nýja fína ísskápinn sem ég fékk í hús í sumar. Hann bara kældi ekki, nema eftir að við stilltum frystinn á hæsta og kælinn líka þá fengum við nokkuð kalda mjólk.

Eftir rúman mánuð af þessu þá játaði ég mig sigraða og við hringdum og fengum nýtt eintak. Þar sem Tommi er frekar slæmur í baki þá sagði hann við þá í ónefndri verslun að það yrðu að koma tveir menn með ísskápinn því hann ætlaði ekki að bera þennan hlunk aftur upp á þriðju hæð. Ekkert mál "sagði" verslunin, en það fór nú samt svo að þrisvar sinnum kom einn burðarmaður og alltaf var hann sendur burtu því Tommi sagðist vilja fá tvo menn. Loksins komu tveir ágætisnáungar sem báru ísskápinn upp másandi og blásandi og þann gallaða niður.

Nýja tækið var tekið úr umbúðunum og þá kom í ljós að hann er aðeins beyglaður á annarri hliðinni, og eins og alþjóð veit eru raftæki oft seld útlitsgölluð með örlitlum afslætti þannig að við hringdum í ónefnda verslun og sögðumst ekki vera nógu ánægð með þetta. Það fór svo að við fáum 12.000 krónur endurgreiddar af upprunalegu kaupverði sem var rétt tæpar 65.000 íslenskar krónur.

Er það ekki bara ágætis endir á þessu veseni, það finnst okkur að minnsta kosti.

Thursday, August 23, 2007

Ágúst/September

Jæja prófin búin. Skólinn, Höfn og Köben í næsta mánuði.
Næsta mál á dagskrá er að punga út einhverja tugi þúsunda í skólabækur. Alltaf gaman að eyða peningum, er það ekki?

Saturday, August 18, 2007

Hó,hó,hó

Menningarnótt(dagur) framundan og ég mun sitja í Odda að stúdera rekstrarhagfræði. Börnin fara í Latabæjarmaraþon í dag eins og mörg önnur börn með föður sínum og vonandi skemmta þau sér vel þar. Svo liggur leiðin til bestu tengdó í heimi (amk bestu sem ég á) því hún ætlar að taka þau í nótt, svo ég geti lært fram á kvöld og byrjað snemma í fyrramálið því Tommi er á næturvakt þessa dagana.
Rosalega verð ég fegin þegar þessu púsluspili líkur því mér hefur aldrei fundist gaman að púsla.

Annars eru bara allir hressir og ég er laus í hvað sem er milli 9-17 frá og með næsta fimmtudegi í rúmlega viku, ekki er það nú leiðinlegt.

Sunday, August 12, 2007

Hjálp

Jæja nú er staðan ekki góð :)
Tommi gaf mér nýjan gsm síma og þegar ég setti kortið í hann þá komst ég að því mér til mikillar mæðu að öll númer sem ég hef sett inn í hinn símann síðastu 2 árin eða svo voru ekki vistuð á kortið. Þannig að allir þeir sem hafa skipt um símanúmer síðustu 2 ár eða svo vinsamlega sendið mér sms eða e-mail með númerunum ykkar svo ég geti sett þau inn á nýja fína símann. (nú skal ég vista á kortið)

Vona að allir bregðist við hvort sem þeir eru búsettir erlendis eða á Íslandi.

Wednesday, August 08, 2007

Ferðalag

Ég er að fara til útlanda bráðum, omg hvað ég hlakka til.
Fer með mínum ektamanni (Álfheiður, er þetta ekki rétt skrifað hjá mér?) og öðrum "hjónum".
Þetta verður nú bara stutt ferð en samt ferð og það er nóg til að gleðja mig.
Nú tekur við próflestur og próf og þegar það er búið þá get ég farið að dunda mér við að hlakka almennilega til.

Annað hef ég nú ekki að segja í bili, svo ég kveð að sinni :)

Friday, August 03, 2007

Allt að gerast

Já nú er sko allt að gerast hjá minni, mikill spenningur í gangi.
Kemur allt í ljós á næstu dögum.

Vona að allir eigi svo rólega helgi og engin fari sér nú að voða, amk. ekki ég, því ég verð ein heima með börn og buru.

See ya!!

Monday, July 30, 2007

Allt í rólegheitunum

Jæja þá fer þessu rólegheita sumri að ljúka. Lilja Rós byrjuð aftur á leikskólanum eftir langt sumarfrí og Jóhann búin að vera í aðlögun í eina viku á sama leikskóla og gengur líka svona glimrandi vel. Hann er greinilega fegin að "losna" við mömmu sína og hitta börn, sérstaklega var hann glaður að fá skóflu og fötu í hönd og mokar nú af áfergju á hverjum degi.

Nú byrjar próflesturinn hjá mér af fullum krafti frá 8-5 á degi hverjum, og svona er ég nú dugleg fyrsta daginn, sit og blogga ;)

Svo er verið að plana utanlandsferð, allt ennþá mjög óljóst en ég er löngu farin af stað í huganum og nánast komin heim aftur með fulla poka af H&M fötum.
Það væru þá ég og Tommi sem myndum fara og jafnvel ein "hjón" með í för en þetta á allt eftir að koma í ljós. En mikið væri nú gaman ef af þessu yrði því mér finnst við alveg eiga skilið að komast tvö í burtu.

En það er best að fara að læra áður en samviskubitið fer með mig, vona að ég geti farið að setja inn myndir hvað á hverju.

Thursday, July 19, 2007

Yndislegt að....

--vera á Blönduósi, takk fyrir okkur Maja og Sighvatur (Jóhann er ennþá að leita að Tinna)

--koma heim aftur

--sjá nýja ísskápinn á sínum stað

--sjá þann gamla í Sorpu

--búið sé að laga lekann í þvottavélinni (sem búin er að standa yfir í tæp 2 ár, segið svo að ég sé óþolinmóð ;))

--geta sturtað niður aftur (klósettið var sko bilað)

--hafa getað eytt hálfu sumrinu með börnunum

--vera búin að vera svona dugleg að læra í sumar (Magnea og Hilla vita um hvað ég er að tala, já og Harpa kannski líka)

--vera til

Eru ekki allir sammála??

Monday, July 09, 2007

Endalaus þeytingur á manni ;)

Ég er farin á Blönduós, kem aftur eftir nokkra daga.
Hafið það öll gott!!

Thursday, July 05, 2007

"frí"

Barnlaus í kvöld, hálfbarnlaus annað kvöld og barnlaus á laugardagskvöldið. OHHHHH, þvílíkur munur gott fólk ;)

Sunday, July 01, 2007

Loksins...

Ég var að kaupa ísskáp í dag, en það mun vera fyrsti ísskápurinn sem er í eigu okkar Tomma.
Gripurinn kemur í hús á morgun og ég hlakka svo mikið til, sérstaklega hlakka ég til að losna við garminn sem við erum með.

Thursday, June 28, 2007

Gott að eiga góða að

Enn einn sólardagurinn að baki. Veðrið í dag var alveg yndislegt og við erum svo heppin að bróðir Tomma og kona hans sem búa í Garðabæ, í húsi (að sjálfsögðu) með risastórum garði leyfa okkur að koma nánast þegar okkur hentar. Fínt fyrir mig að komast í sólbað og fínt fyrir krakkana að komast á gras þar sem þau geta bara hlaupið um.
Annars ætlaði ég að draga Tomma í útilegu um helgina en hann tilkynnti mér það áðan að hann nennti því ekki þannig að ég verð bara að bíta í það súra epli og það bíður bara betri tíma :)

Svo styttist bara í hálfbarnlausu hálfu helgina, ég tel niður í huganum.....

Tuesday, June 26, 2007

Brunarústir

Jæja þar kom að því að maður brann til kaldra kola. Sat örlítið of lengi í sólinni í dag og roðnaði nokkuð vel, en það jafnar sig og þá fær maður kannski á sig brúnan lit, hver veit.

En við erum komin aftur til Reykjavíkur eftir mjög góða ferð, og á döfinni er að minnsta kosti heimsókn á Akranes í einn eða tvo daga, heimsókn á Blönduós í 2-4 daga og svo fæ ég hálfbarnlausa hálfa helgi bráðum. Og vonandi getum við skellt okkur í eina góða útilegu í júlímánuði en það verður annars bara að koma í ljós.

Svo erum við hjónaleysin að fara að sigla saman á kajak hvað á hverju, það á bara eftir að kaupa galla handa mér og fá mig í blessaðan bátinn, það gæti tekið sinn tíma.

Annars hef ég nú ósköp lítið að segja núna, er ekki mikið fyrir einhverjar pælingar hér á netinu, hef þær bara í litla höfðinu mínu ;)

Ef einhvern langar á kaffihús eitthvert kvöldið, endilega bjalla í mig er til í allt (næstum allt) og barnapían er í fríi í vinnunni frá og með morgundeginum.....

Tuesday, June 19, 2007

Smá getraun

Hvað haldið þið að orðið "liðugt" þýði á færeysku þegar það kemur fyrir í sjónvarpsdagskrá?
Og svo borðaði ég "haf-hesta-unga" um daginn, hvað haldið þið að það sé?

Sunday, June 17, 2007

Hér er ég...

Jæja, komst á netið, loksins!! Annars er búið að vera mjög gott að hafa ekki nettengingu undanfarna daga, maður hefur BARA gott af því.
Þetta eru búnir að vera yndislegir dagar hér í Færeyjum, við erum búin að hitta margt gott fólk og borða mikið að góðum mat. Við vorum fyrstu 8 dagana í litla þorpinu Húsavík og það var bara yndislegt, krakkarnir hæstánægðir og foreldrarnir líka. Næst fórum við yfir á Suðurey og heimsóttum frænda Tomma og gistum tvær nætur hjá honum og nú erum við komin til Þórshafnar á Hótel Streym og verðum hér fram á miðvikudag en þá verður siglt til Íslands.

Lilja Rós hefur náð þeim áfanga að verða 4ra ára og takk takk þið sem munduð eftir þeim degi.
Hún fékk afmælisveislu á Egilsstöðum um daginn og svo tvær í Húsavík og hún var orðin alveg rugluð, skildi ekki alveg af hverju hún átti alltaf afmæli :)

Ætla að láta þetta gott heita í bili, ætla ekki að skrifa ferðasöguna í heild sinni hér inn, en skelli kannski inn myndum þegar ég er búin að læra á forritið sem fylgdi nýju vélinni.

Friday, June 01, 2007

Góðir dagar

Síðustu dagar hafa verið feykigóðir, þeir hafa einkennst af:
- ágætu veðri (mætti nú alveg vera betra)
- góðum mat
- heimsókn í fjárhús
- afmælisveislu Lilju Rósar
- heimsókn á leikskóla þar sem mín börn tróðu í sig pönnukökum
- gönguferðum fram og til baka
- "sundferð" í heita pottinn hennar ömmu Sissu

Svo er Tommi að koma til okkar vonandi á morgun og aldrei að vita hvað okkur dettur í hug að gera þegar hann er mættur á svæðið.